Í tilkynningu frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að einn maður sé í haldi vegna rannsóknar á skotvopninu sem nokkrir nemendur Laugalækjarskóla í Reykjavík fundu á þaki skólans í gærkvöldi. Lögreglan segir engan grunur leika á að maðurinn hafi nokkur tengsl við samfélagið í skólanum.
Í tilkynningunnn kemur fram að maðurinn sé um fertugt og hafi verið handtekinn nú síðdegis. Hann sé talinn hafa komið skotvopninu fyrir á þakinu. Tekið er fram að svo virðist sem tilviljun hafi ráðið því, en til rannsóknar hjá lögreglu sé óskylt mál sem maðurinn sé grunaður um aðild að. Skotvopnið tengist því máli, en vopnið hafi verið mjög stutt á þaki skólans áður en það fannst.
Að lokum segir í tilkynningunni:
„Við vopnafundinn vöknuðu eðlilega áhyggjur margra, en ekki verður séð að maðurinn, sem er í haldi lögreglu, hafi neina tengingu við þetta skólasamfélag svo því sé einnig komið á framfæri.“