Eyrún Magnúsdóttir fjölmiðlakona sem var áður m.a. ein af umsjónarmönnum Kastljóss á RÚV fer í Facebook-færslu yfir fjölmargt sem hún segir að þurfi að bæta í stafrænni umgjörð heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Eyrún sannfærðist um þetta eftir að hún veiktist nýlega óvænt og þurfti að nýta þjónustu heilbrigðiskerfisins í töluverðum mæli, með heimsóknum til lækna og fjölda blóðprufa og annarra rannsókna. Hún segir að hinir stafrænu þættir þjónustunnar séu allt of mikið dreifðir og upplýsingaflæðið milli kerfa og stofnana og þaðan til sjúklinga sé verulega skert. Hina stafrænu umgjörð heilbrigðiskerfisins þurfi að bæta verulega.
Eyrún minnir á að á stafrænum tímum sé slík tækni nýtt í kerfinu og eigi að bæta þjónustuna:
„Frá sjónarhóli sjúklingsins er auðvitað jákvætt ef tæknin verður til þess að bæta þjónustu, auka upplýsingaflæði, gera aðgengi betra og almennt auðvelda ferlið sem fer af stað þegar við veikjumst. Fyrir heilbrigðiskerfið sjálft snýst hin stafræna vegferð um að geta veitt betri þjónustu en ekki síður að spara peninga, auka hagræði og nýta betur takmarkaðan en sérþjálfaðan mannskap.“
Eyrún segir að hennar reynsla hafi sannfært hana um að þessi mál sé mjög skammt á veg komin á Íslandi. Það sé unnið í mörgum kerfum, birting niðurstaðna og hvers kyns tímabókanir séu alger frumskógur og upplýsingaflæðið milli kerfa og stofnana og þaðan til sjúklinga sé ekki gott.
Eyrún fer síðan yfir hvernig hin stafrænu kerfi eru skipulögð í heilbrigðiskerfinu. Til að fá upplýsingar um lyf, lyfjaskírteini og lyfseðla þarf að skoða Heilsuveru. Til að nálgast upplýsingar um annað en lyf, t.d. ef fólk þarf hjálpartæki af einhverju tagi, þá þarf að fara inn á Ísland.is-appið eða sjukra.is til að skoða stöðu hjá Sjúkratryggingum. Til að skoða tímabókanir á Landspítalanum þarf að fara inn á Landspítala-appið.
Þegar Eyrún var í samskiptum gegnum skilaboð við hjúkrunarfræðing á Landspítalanum þá fóru þau samskipti í gegnum Heilsuveru, en tímabókanir voru í Landspítala-appinu.
Hún minnir einnig á að til að skoða tímabókanir hjá sérfræðingi utan spítala eða heilsugæslu þá gæti það verið í Heilsuveru, eða bara í engu appi heldur fái fólk áminningu með sms-skilaboðum.
Hún rifjar einnig upp að ef maður í blóðprufu á spítalanum þá koma niðurstöður í Landspítala-appið en ef hins vegar farið sé í blóðprufu hjá rannsóknarstofunni Sameind þá sjáist tilkynning í Landspítala-appinu um að niðurstöður séu komnar en ekki hægt að sjá þær. Stundum birtist niðurstöðurnar í Heilsuveru en stundum ekki.
Eyrún fer síðan yfir hversu lítið upplýsingaflæðið var um hennar mál í þeim tölvukerfum sem heilbrigðisstarfsfólk sem annaðist hennar mál hafði aðgang að:
„Ein rannsókn sem ég fór í var aldrei sýnileg neinum lækni. Sem betur fer kom það ekki að sök, en samtals sex læknar sögðu „já ég sé að þú hefur farið í þessa rannsókn, en ég sé ekki niðurstöðurnar“ …og aldrei gat neinn gert neitt til að kalla þær fram.“
Niðurstöður annarrar rannsóknar sem Eyrún fór í voru sendar heilsugæslu, en í nokkra daga sagðist heilsugæslan ekki vera komin með niðurstöður, þrátt fyrir að Röntgen Domus segðist vera búin að senda þær. Á endanum fór Eyrún sjálf til Röntgen Domus til þeirra og fékk niðurstöðurnar útprentaðar á A4 blaði.
Eyrún minnir einnig á það að er ekki hægt að bóka neinn tíma í heilbrigðiskerfinu á netinu heldur aðeins í gegnum síma og svo birtist tímabókunin annað hvort í Landspítala-appi, á Heilsuveru, á báðum stöðum eða hvergi nema með áminningu með sms daginn fyrir tímann.Tímabókunum í Landspítala-appinu er ekki hægt að breyta í appinu sjálfu og heldur ekki í Heilsuveru. Alltaf þurfi að hringja.
Hún rifjar upp að upplýsingaflæðið sé svo lítið í kerfinu að hún hafi ítrekað þurft að segja sjúkrasögu sína í stað þess að heilbrigðisstarfsfólk gæti einfaldlega flett henni upp:
„Hitti ég samtals fimm lækna á alls þremur stofnunum, en tveir þeirra voru reyndar af deildum á sitthvorri hæðinni á Landspítalanum. Allir þessir læknar spurðu mig nákvæmlega sömu spurninga. Söfnuðu sömu upplýsingum í nákvæmlega sömu röð og fengu sömu svör. Ég skil að læknar þurfi að spyrja um alls konar, en er ekki hægt að hafa þetta í einhverju kerfi þannig að þeir geti skoðað svörin sem ég gaf þessum á undan? Þarf að taka sama prófið fimm sinnum? Er það hagkvæmt fyrir einhvern?“
Eyrún leggur að lokum til að stafrænu umgjörð heilbrigðiskerfisins verði tekin alfarið í gegn. Hana verði einfaldlega að einfalda:
„Heilt yfir sýnist mér að það þurfi allsherjar tiltekt í þessum málum. Af hverju er verið að eyða peningum í að þróa Heilsuveru, Landspítala-appið en halda líka stórum hluta af upplýsingunum sem sjúklingar þurfa að nota inn á Ísland.is-appinu? Getur plís einhver farið í að höggva tré í þessum óþarfa frumskógi sem færir engum súrefni.“
Hún prísar sig sæla að vera sæmilega tæknifær og á bágt með að sjá að mikið veikt fólk sem sé ekki mikið inni í tækninni hafi orku og andrými til að setja sig almennilega inn í þennan frumskóg. Heilbrigðisstarfsfólki hrósar Eyrún í hástert en hið stafræna þurfi að laga:
„En einhvers staðar er eitthvað rugl í gangi í stafrænni þróun heilbrigðiskerfisins. Upplýsingarnar eru ekki að skila sér þangað sem þær þurfa að skila sér, a.m.k. eru margar hindranir enn þá.“