Lögreglan á Suðurnesjum hefur lokið rannsókn sinni á banaslysi í Grindavík 10. janúar 2024 og vísað henni til embættis héraðssaksóknara. Mbl.is greinir frá og og hefur staðfest frá Úlfari Lúðvíkssyni lögreglustjóra á Suðurnesjum.
Lúðvík Pétursson lést eftir að hann féll ofan í sprungu þar sem hann vann að því, ásamt öðrum, að bjarga húsi við Víkurhóp. Lúðvík vann við jarðvegsþjöppun og við að fylla í sprungur er þar höfðu myndast vegna jarðskjálfta. Verkið var unnið af verkfræðistofunni Eflu að beiðni Náttúruhamfaratrygginga Íslands (NTÍ). Efla sá um að ráða verktaka og skipuleggja framkvæmdir. Greiðslur komu frá NTÍ.
Fimm eru með réttarstöðu sakbornings í málinu og mun héraðssaksóknari taka ákvörðun um hvort ákært verði vegna málsins. Samkvæmt heimildum mbl.is hefur minnst einn starfsmaður Eflu réttarstöðu sakbornings.
„Rannsóknin beindist að því ákvæði 215. greinar almennrar hegningarlaga er varðar manndráp af gáleysi og einnig lög um aðbúnað um hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum,“ segir Úlfar við Mbl.is.
Í skýrslu Vinnueftirlitsins um slysið er sérstaklega gerð athugasemd við að áhættumat á aðstæðum hafi ekki farið fram, meðal annars á jarðfræðilegum aðstæðum á því svæði þar sem jörð gaf sig þegar Lúðvík var að störfum.
Efla hafði reglulegt eftirlit með framkvæmdum ásamt nokkrum öðrum sambærilegum verkum í bænum, sem fólst meðal annars í að aðlaga verklag eftir þörfum og aðstæðum á hverjum stað.