Þetta sagði Volodymyr Zelenskyy, forseti Úkraínu, í samtali við Sky News að afloknum fundi hans með David Lammy, utanríkisráðherra Bretlands.
Hann sagði að ef bandarískir hermenn taki ekki þátt í verkefninu, muni það „veita Rússum forskot“ og gaf þar með í skyn að hann telji ekki að það sé nógu sterkt að aðeins evrópskir hermenn komi að því að tryggja öryggi Úkraínu ef samið verður um vopnahlé við Rússa.
Hann sagði einnig að aðildarríki NATÓ verði að setja fjármagn í heri sína, að öðrum kosti eigi þau á hættu að standa í sömu sporum og Úkraína, í stríði og tilneydd til að setja alla fjármuni sína í herinn.
Þegar hann var spurður hvort hann sé bjartsýnn á að friðarviðræður við Rússa hefjist á næstu vikum sagði hann að fyrsta skrefið sé að stilla saman strengi með Bandaríkjunum, Evrópu og evrópskum leiðtogum, bandamönnum Úkraínu. „Við verðum að vera sammála um markmiðið og síðan þarf að deila því með óvininum, skref fyrir skref.“