fbpx
Þriðjudagur 11.febrúar 2025
Fréttir

Kennari fékk nóg af umræðunni um verkföll og opinberaði launin – Feiknaviðbrögð komu á óvart

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 11. febrúar 2025 16:30

Myndin er úr safni og tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þeir sem fylgjast með fréttum hafa ekki farið varhluta af verkföllum kennara á þessu ári, umræðum um þau og sáttaumleitanir í Karphúsinu í kjara­deilu kenn­ara, rík­is og sveit­ar­fé­laga.

Á sunnudag dæmdi Fé­lags­dóm­ur verk­föll Kenn­ara­sam­bands Íslands í þrett­án leik­skól­um og sjö grunn­skól­um víða um land ólög­mæt. Kennarar í 21 skóla sem verið höfðu í verkfalli frá því 2. febrúar mættu því aftur til vinnu á mánudag.

Sama dag og verkföllin voru dæmd ólögmæt birti kennari nafnlausa færslu í Facebook-hópnum Mæðratips, þar sem meðlimir eru tæplega 33 þúsund. Færslan sem birt var klukkan 23.06 hefur þegar þetta er skrifað fengið 93 athugasemdir og 904 hafa líkað við færsluna.

Kennarinn beinir orðum sínum til þeirra foreldra sem fordæmt hafa verkfallsaðgerðir kennara:

„Þið foreldrar sem fordæmið verkfall kennara.

Ég er kennari með meistaragráðu + diplómu í byrjendalæsi.

Ég er með 18 ára starfsreynslu.

Útborguð laun mín eftir allan frádrátt eru 448.357kr.

Þið sem segið núna að þið styðjið kennara EN ekki skæruverkföll og mismunun bla bla bla.

Skæruverkföll eru mun betri fyrir samfélagið þegar til lengri tíma er litið.

Hafið þið pælt í því? Eða snýst þetta bara um ykkar barn – að það fái að njóta?

Hvað með það að börnin ykkar séu kannski ekki einu sinni með menntaðan umsjónarkennara, menntaðan sérkennara eða menntaðan list- og verkgreinakennara eða menntaðan íþróttakennara eða menntaða námsgreinakennara almennt?

Á þitt barn rétt á sérkennslu eða stuðning, með alla pappíra undirritaða, en það er „allur gangur á því” því það vantar kennara og barnið þitt jafnvel ,„bara í geymslu“ yfir daginn?

Dag eftir dag! Eftir dag! Eftir viku! Eftir mánuð! Skólaár eftir skólaár!

Kannski vitið þið ekki af því því það er ekkert endilega verið að láta heimilið vita.

Þarf þitt barn stuðning eða sérkennslu en fær það ekki samþykkt því það hreinlega vantar kennara til að sinna því og „öll pláss“  löngu orðin full miðað við stöðugildi? Því það vantar kennara!

Kannski er þitt barn í góðum málum – en það á bara alls ekki við um öll börn!

Samstaða my ass!

Ég endurtek, ég fæ eftir frádrátt 448.357 kr. fyrir starf mitt sem kennari – og ég vinn alla daga á við tvo, stundum þrjá, jafnvel fjóra!“

Segir frétt sem þessa ekki smellibeitu

Nýjasta athugasemdin við færsluna er frá kennaranum sjálfum: „Það eru komin 901 likes og fjölmörg ummæli. Þetta innlegg er mjög þarft í samfélagsumræðuna og bíð ég bara eftir því að DV taki þetta upp. Ég er samt einhvern veginn ekki hissa á að þeir séu ekki búnir að því, af því þetta er náttúrlega ekki níð um kennara heldur er hér húrrandi samstaða og slíkar fréttir eru náttúrlega ekki neinar „clickbaits“.“

Móðir segir frábært að börnin hennar hafi mætt aftur í skólann, en hún hefði viljað að ástæðan væri sú að búið væri að semja við kennara:

„Er ekki kennari og styð kennara 100%. Á líka börn sem hafa verið heima vegna verkfallsaðgerða og er mjög sjokkeruð yfir fréttum dagsins. Finnst að sjálfsögðu frábært að börnin mín mæti í skólann á morgunn en hefði viljað að það væri á öðrum forsendum, þeim forsendum og búið væri að semja. Finnst þessi stétt svoo mikilvæg og er innilega þakklát þeim kennurum sem komið hafa að mínum börnum.“

Segir foreldra sýna litla samstöðu með málstað kennara

Eins og áður sagði beinir kennarinn orðum sínum að foreldrum sem hann segir litla samstöðu hafa sýnt með málstað kennara og verkfallinu. 

Séu athugasemdirnar lesnar sýna langflestar kennurum samstöðu. Ein kona spyr af hverju laun kennara eru svona misjöfn og segist þekkja kennara með svipaða reynslu, en mun hærri laun. Sjálf starfi hún sem sjúkraliði og með hærri laun en kennarinn.

„Yfir höfuð eru laun framhaldsskólakennara með sama starfsaldur mjög svipuð og fara ekki mikið ofar en 770.000 kr. Ég er framhaldsskólakennari í 100% starfshlutfalli og er með 692.000kr í heildarlaun. Útborguð laun i kringum 450.000kr.,“ skrifar önnur kona.

Nokkrar íhuguðu kennaranám en hættu við þegar þær sáu launin

Kona sem segist hafa íhugað að fara í kennaranám, en hætt við þegar hún sá launin, segist standa með kennurum: 

„Sem einhver sem hugsaði um kennaranám en hætti svo við vegna þess að ég fann út að útborguð meðallaun grunnskólakennara eru undir 500 þús eftir allt námið sem maður fer í gegnum get ég sagt að ég stend 100% með kennurum.“

Önnur segist hafa starfað sem aðstoðamaður og ómenntuð á sömu launum og kennarinn, íhugað að fara í kennaranám en hætt við:

„Ég hef unnið sem aðstoðarmaður í skólastofu ásamt því að vera stuðningsfulltrúi í einhverfudeild sem og frístundaleiðbeinandi með stuðning – alveg ómenntuð – og ég var með sömu laun og þú sem hámenntaður kennara sem er hokin af reynslu, sem er fyrir neðan allar hellur! Ég styð kennara 200%!

Mér finnst alveg ömurlegt hvernig komið hefur verið fram við kennara öll þessi ár! Það er nefnilega ekki auðvelt að vera kennari! Þetta er ekki bara að kenna börnum eitthvað ákveðið fag nokkrum sinnum í viku og svo bara búið, heldur fer fram mikill undirbúningur fyrir hverja einustu kennslustund, og eftir hana líka, það er gríðarlega mikið andlegt og líkamlegt álag og áreiti sem fylgir því að vera kennari og auðvelt að brenna út.

Ég ætlaði í kennaranám en hætti við meðal annars vegna launanna, eins og nokkrar her að ofan hafa talað um. Ég hætti fyrst og fremst að vinna í barnastarfi út af foreldrum sumra barnanna, því þeim virtist alveg fyrirmunað að kenna börnunum sínum að sýna samnemendum sínum og starfsfólki lágmarks virðingu.“

Kallaði kennarann dóna og sagði henni að lesa barnasáttmálann

Kona ein er alls ekki sátt við aðgerðir kennara né færslu kennarans sem hún segir þvílíkan dónaskap. Nokkuð orðaskak á sér stað á milli kvennanna sem að lokum eru þó sammála í  aðalatriðum.

„Já við höfum pælt í öllum hliðum málsins og viljum ekkert heitar en að störf kennara séu metin eftir virði þeirra. Þetta snýst EKKERT um það að barnið MITT fái að NJÓTA. Þetta snýst einfaldlega um það að þessi aðferðafræði var aldrei lögmæt! Hvet þig til þess að lesa barnasáttmála. Þeim örfáu leikskólabörnum sem voru látin bera þungann af þessu verkfalli var mismunað..Efa ekki að þetta var ekki viljandi gert en staðreyndir tala sínu máli. Getur þú sagt mér hvernig aðferðafræðin á bakvið verkfallsaðgerðir leikskólanna mismuni ekki þessum börnum sem voru hluti af þessum 4 leikskólum sem voru látin fara aftur. Engin önnur börn þurftu að bera sama þunga og þau, og fara á mis. Þessi póstur hjá þér ýtir ekki undir stuðning við kennara, þvíliki dónaskapurinn í þessum fyrstu setningum hjá þér.“

Kennarinn svarar athugasemdinni og segir Kennarasambandið hafa verið í góðri trú að reyna að valda sem minnstum skaða en samt skapa þrýsting með verkfallsaðgerðunum. Ekkert betra muni taka við. „Kennarar skilja vel að fólk upplifi skæruverkföll sem ósanngjörn gagnvart þeim sem fyrir þeim verða. Það er þó mikilvægt að átta sig á að verkfallsaðgerðir snúast ekki um að mismuna börnum heldur um að setja hámarksþrýsting á samningsaðila án þess að valda kennurum langvarandi launatapi eða leiða til lagasetningar án kjarabóta. Skæruverkföll eru því leið til að láta kjarabaráttuna skila árangri án þess að ganga óafturkræft á réttindi starfsfólks. Það er hins vegar ekki kennarafélögin sem bera ábyrgð á því að samningar hafa ekki náðst – það er hlutverk þeirra sem sitja hinum megin við samningaborðið. Og veistu hvað, það var bara alls ekki gefið að verkföllin væru ólögleg því meirihluti Félagsdóms hefur með MINNSTA MUN úrskurðað að breyta skuli framkvæmd verkfalla opinberra starfsmanna frá því sem hefð hefur verið fyrir. Þú ert dóni! Ekki ég!“

Fyrri konan segist ekki dóni fyrir að henda á staðreyndir. Hún vilji sjá stærri og harðari aðgerðir sem hafa áhrif þar sem allir taki þátt saman sem samfélag. „Auðvitað þurfum við harðari aðgerðir, þessa fyrri aðgerðir bitu einungis á örfáa. Flestir vissu ekki af því að maður væri með barn í verkfalli, margir voru einir á sínum vinnustöðum. Sjálf er ég með 5 ára háskólanám á bakinu og starfa hjá sveitarfélaginu. Er á sömu launum og kennarar, ég skil baráttuna vel og ég vil ekki að tekið sé verkfalls rétt af kennurum, þvert á móti. Aðferðir þurfa að vera réttar, lögmætar og bíta nógu vel í marga til þess að skapa pressu. Það er deginum ljósara að það þarf að stærri aðgerðir, eins sorglegt og það er. Ég vona að kennarar fari aftur í verkfall og það almennilega í þetta sinn.“

Mætti svartklædd aftur til vinnu

Kennarinn tjáði sig við færsluna og sagðist ekki hafa búist við þessum viðbrögðum.

„Ég tala klárlega fyrir hönd allra kennara þegar ég segi: ,,ástarþakkir” – með hönd á hjarta! Þetta er vissulega vítamínsprauta í rass – að vita af stuðningnum þarna úti!  Ég mun mæta svartklædd til vinnu á morgun en nemendur mínir munu samt ekki neinn bilbug á mér finna – ég stend vaktina… eins og alltaf.“

Hvetur foreldra til að kæra mismunum sem viðgengst í öllum skólum

Ein móðir segir frábært að foreldrar berjist fyrir lagalegum rétti barna sinna og ættu þeir að beina þeirri réttlætiskennd að rekstraraðila. „Leikskólar eru reknir með fjölda kennara langt undir lagalegum mörkum. Þar liggur hin raunverulega mismunun. Gefum kennurum tækifæri á að berjast fyrir launum sínum á sem mildasta hátt og hægt er. Ef til allsherjarverkfalls kemur þá verða margar deildir opnar þar sem ekki starfa kennarar. Staðan verður þá eins en tekur bara til fleiri fjölskyldna. Hvet ykkur þá til að kæra mismunun.“

Önnur kona tekur í sama streng: „Íslenskum börnum er mismunað á hverjum degi í námi og svoleiðis hefur það verið í mörg ár. Finnst skrítið að það sé bara allt í einu núna sem foreldrum finnst það ekki í lagi. Hingað til virðist foreldrum alveg sama þó að sum börn hafi aðgang að kennurum en önnur eru með „kennara“ sem ekki er fagmenntaður. Ástæða verkfallanna er einmitt að reyna að laga það, að öll börn á Íslandi séu með fagmenntaðann kennara. Held að kennarastéttinni finnist skrítið af hverju foreldrar hafi aldrei stefnt sveitafélögunum fyrir að uppfylla ekki lög varðandi kennaramenntaða starfsmenn í t.d leikskólum!!!“

Kona segir Kennarasamband Íslands hafa getað staðið sig betur þegar kemur að fjölda leiðbeinenda í skólum, og spyr hvenær sú hefð hafi byrjað að ráða fólk til kennslu sem er ekki með kennaramenntun.

„Bara þetta move gjaldfelldi kennaramenntun. Hvaða önnur starfstétt er full af fólki sem er ekkert með viðkomandi menntun. Krakkinn minn er i skóla þar sem leiðbeinendur eru i meirihluta, hann er í unglingadeild. Þetta fólk virðist fá bara frjálsar hendur með kennsluna og hefur náttúrulega enga þekkingu á bekkjarstjórnun. Eitt tólið var að fella óþekka nemendur á prófum, þvi þá mundu þeir haga sér. Núna er krökkum vísað úr tima. Það virðist vera þannig að fólk leitar í kennslu þegar það fær ekki aðra vinnu eða vill breyta til. „vVar i tilvistarkreppu eftir háskóla,“ sagði einn kennarinn á foreldrakynningu. Ég myndi segja ábyrgðina hjá Kî og sveitafélögunum. Hafa ísamvinnu vanvirt skólasamfélagið. Ef það fást ekki kennarar þá fást ekki kennarar og þá er bara sveitarfélagið komið í þá stöðu að þau þurfa að hugsa sinn gang.“

„Svo sammála. Rétt eins og ef það fæst ekki fólk í aðrar starfsstéttir sem krefjast fagmenntunar þá er ekki ráðið inn hvern sem er ,,af götunni“ heldur er hreinlega bara vöntun. Ég t.d. get ekkert labbað inn á næstu heilsugæslu og spurt hvort það vanti ekki heimilislækni á undanþágu (sem sagt mig) því ég sé kennari á leið í verkfall og vantar aukatekjur…“

Hér má nokkrar athugasemdir til viðbótar:

„Kennarar hafa þráðbein áhrif á framtíð og velgengni landsins. Ég vildi að við myndum hætta að hugsa svona skammsýnt. Framtíðin er bókstaflega í þeirra höndum; þau eru að móta framtíðar forsetann okkar, læknana okkar, hjúkrunarfólkið sem hugsar um okkur í ellinni, fólkið sem tekur ákvarðanir fyrir okkur seinna… Girðum okkur í brók og borgum þeim í samræmi við velgengnina sem við búumst við af framtíð okkar allra.“

„Ef þeir banna verkfallið. Þá vona ég að kennarar og skólaliðar standi saman og sendi inn fjölda uppsagnir og sína samstöðu í verki. Hvað ætla þeir að gera þá? Ég er ekki kennari en geri mér fulla grein fyrir að ef þeir komast upp með að stoppa þá, þá er ekkert sem stoppar þá að þvínga aðrar stéttir samfélagsins.“

„Styð ykkur alla leið. Það er vandasamt verk að kenna og fara fallega með litlar sálir. Þeir sem fordæma þetta er að mínu mati bara að hugsa um rassgatið á sjálfum sér. N.b. ég er ekki kennari.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Stefán Einar jós skömmum yfir kennara en var tekinn á teppið – „Eins og ofvirkur illa uppalinn skólastrákur“

Stefán Einar jós skömmum yfir kennara en var tekinn á teppið – „Eins og ofvirkur illa uppalinn skólastrákur“
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Trump vill fá úkraínskar náttúruauðlindir í staðinn fyrir hernaðaraðstoð – Verður að hafa hraðar hendur

Trump vill fá úkraínskar náttúruauðlindir í staðinn fyrir hernaðaraðstoð – Verður að hafa hraðar hendur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þess vegna ættirðu alls ekki að naga neglurnar – Sjáðu myndbandið

Þess vegna ættirðu alls ekki að naga neglurnar – Sjáðu myndbandið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Össur segir Stefán Einar hafa komið í veg fyrir meirihluta Sjálfstæðisflokks í borginni – Stefán svarar fullum hálsi

Össur segir Stefán Einar hafa komið í veg fyrir meirihluta Sjálfstæðisflokks í borginni – Stefán svarar fullum hálsi