Bandarískur þingmaður hefur lagt fram frumvarp í neðri deild um að nafni Grænlands verði breytt í Rauð, hvít og bláland. Á það að valdefla Donald Trump forseta til þess að kaupa landið.
Þingmaðurinn sem lagði fram frumvarpið heitir Buddy Carter og kemur frá Georgíufylki. Ber það heitið „Rauð, hvít og blálands frumvarpið 2025“ eins og greint er frá í blaðinu New York Post.
„Ameríka er komin til baka og verður stærri en nokkru sinni fyrr með viðbættu Rauð, hvít og blálandi,“ sagði Carter við blaðið. „Trump forseti hefur réttilega sagt að kaupin á Grænlandi séu forgangsmál þegar kemur að þjóðaröryggi og við munum með stolti bjóða íbúana að ganga til liðs við frjálsustu þjóð sem hefur nokkurn tímann verið til þegar samningamaðurinn skrifar undir þennan tímamóta samning.“
Eins og oft hefur komið fram áður hefur Trump sagst vilja kaupa Grænland og ekki útilokað að beita hervaldi gegn Dönum til að yfirtaka landið. Danir hafa sagt að Grænland sé ekki til sölu og að Grænlendingar sjálfir ákveði sína framtíð.