Þetta segir Árni Bergþór Hafdal Bjarnason, eigandi Veisulþjónustu Suðurlands, í samtali við Sunnlenska.is en fyrirtæki hans sá um veitingar á tveimur þorrablótum á Suðurlandi fyrir skemmstu þar sem veikindi komu upp á meðal gesta.
Í umfjöllun Sunnlenska kemur fram að veikindin stöfuðu líklega af bakteríu sem kallast bacillus cereus. Um 120 einstaklingar tilkynntu veikindi eftir blótin.
Árni segir að umrædd baktería hafi fundist í tveimur sýnum sem tekin voru af hlaðborðinu og spjótin beinist að henni þó ómögulegt sé að staðfesta það. Þannig var ekki skimað fyrir henni í sýnum sem tekin voru úr veikum gestum.
„Við rannsókn á sýnum úr gestum kom ekkert fram sem getur talist óeðlilegt úr þeim algengu matareitrunarvöldum sem skimað er eftir. Bacillus cereus bakterían er einmitt ekki þar á meðal og hún er einstaklega erfið í meðhöndlun þegar hún kemur upp,“ segir Árni í viðtalinu og bætir við að bakterían lifi af 120 gráðu hita og deyr ekki við sótthreinsun í 85% sjúkrahússspritti.
„Það þýðir að alveg sama hversu fullkomnir okkar verkferlar eru, varðandi endurhitun og annað, þá var engin leið til þess að bæta úr ástandinu eftir að sýkingin komst í matvælin eða búnaðinn og á milli hlaðborða. Heilbrigðiseftirlitið er búið að koma og taka út ferlana okkar og gerði engar stórar athugasemdir,“ segir hann í viðtalinu.
Bent er á það að Árni eigi langan og farsælan feril sem matreiðslumeistari og það hafi verið áfall þegar veikindin komu upp.
„Ég er fagmaður, ég er matreiðslumeistari og er búinn að vera í þessum bransa í 17 ár. Ég byrjaði að elda þegar ég var 15 ára og er búinn að vinna á stærstu hótelum landsins og flottustu veitingastöðunum,“ segir hann meðal annars í viðtalinu sem má lesa í heild sinni hér.