Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að ofbeldið hafi verið andlegt, líkamlegt og kynferðislegt. Lítill vinnufriður hafi verið í árganginum og hegðun nemenda haft mikil áhrif á nám barnanna. Dæmi séu um að börn þori ekki að mæta í skólann.
„Það eina sem dóttir mín er að læra núna er að vera þolandi ofbeldis,“ hefur Morgunblaðið til dæmis eftir Hermanni Austmari sem á dóttur í umræddum árgangi. Hann segir að skólinn hafi engin úrræði eða lausnir og hegðunarvandi örfárra nemenda bitni á heilum árgangi.
Vandinn er ekki nýr af nálinni og eru til dæmis þrjú ár síðan Hermann steig fram í viðtali við Vísi um ástandið í skólanum.
Dóttir Hermanns hefur orðið fyrir alvarlegu líkamlegu og andlegu ofbeldi í skólanum, hún hafi verið tekin hálstaki og sparkað í andlit hennar. Þetta hafi gert það að verkum að hún á erfitt með að læra og meðtaka upplýsingar frá kennaranum.
Í umfjöllun Morgunblaðsins kemur fram að hann hafi oft beðið um flutning fyrir dóttur sína en ítrekað fengið neitun. Mun borgin nú loks hafa boðist til að liðka fyrir flutningi hennar í annan skóla.
„Börn eru lamin í frímínútum. Það er ekkert eðlilegt við það að það séu búnar að vera nokkrar hópaárásir í þessum árgangi,“ segir Hermann við Morgunblaðið þar sem nánar er fjallað um málið og meðal annars rætt við aðstoðarskólastjóra Breiðholtsskóla.