Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir þingmaður Flokks Fólksins er uggandi vegna yfirstandandi viðræðna hennar flokks við Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og Viðreisn um myndun nýs meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Kolbrún fór í leyfi frá störfum sínum sem borgarfulltrúi í upphafi þessa árs en hún var eini fulltrúi flokksins sem var kjörinn í borgarstjórn 2022. Kolbrún mun síðan væntanlega óska eftir lausn frá störfum í borgarstjórn út kjörtímabilið. Hún segir það fagnaðarefni að Flokkur fólksins hafi nú tækifæri til að komast í meirihluta í borgarstjórn en hún er samt uggandi:
„Auðvitað fagnar Flokkur fólksins því að fá tækifæri til að komast í meirihluta og þannig fá meiri möguleika á að koma sínum baráttumálum lengra og spyrna fótum við ýmsu í borginni sem er miður og gengur ekki nógu vel. Mistökin hafa verið mörg síðustu ár og sum algerlega óafturkræf sem er efni í langt mál.
Hins vegar er í mér óhugur að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn núna þegar við höfum séð það hatur og heift sem Sjálfstæðisflokkurinn, með Morgunblaðið sem vopn hefur beint til Flokks fólksins og forystufólks hans. Annað eins hefur varla sést. Sjálfstæðisflokkurinn er auðvitað sami flokkurinn hvar sem hann er, og það er snúið fyrir flokk eins og Flokk fólksins sem hefur mátt þola ófrægingarherferð Sjálfstæðisflokksins að eiga síðan að vinna náið með honum.“
Kolbrún leggur þó áherslu á að hún hafi átt gott samstarf við borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á þessu kjörtímabili:
„En þetta er mín upplifun. Ég hefði ekki sagt þetta fyrir fáeinum vikum því ég hef alltaf átt gott samstarf við Sjálfstæðismenn í borginni í þau tæp 7 ár sem ég var í minnihuta borgarstjórnar. En núna er bara staðan breytt. Hér er ég ekki um að ræða um einstaka persónur svo það sé sagt.“
Kolbrún segist telja það líklegt að Einar Þorsteinsson borgarstjóri og oddviti borgarstjórnarflokks Framsóknarmanna hafi ekki ákveðið einn síns liðs að slíta meirihlutasamstarfinu við Samfylkinguna, Pírata og Viðreisn:
„Annað sem mér finnst vel líklegt er að Einar hafi fengið skilaboð um að losa sig út úr meirihlutanum og þarf ekki frekar að fara í útskýringar á því. Þetta varðar engin sérstök eða einstök mál í borginni sem þau hafa ekki náð saman um að mínu mati, þvert á móti hefur Einar ávallt verið mjög á sömu nótum og meirihlutinn í eiginlega flest öllum málum. Hann hefur t.d. ávallt verið sammála þessu fjáraustri til Þjónustu- og nýsköpunarsviðs án þess að sjá verulegan ávinning í samræmi við fjárútlát þess sviðs. Hann virðist hafa lang oftast verið mjög sammála hinum í meirihlutanum.“
Kolbrún fagnar að lokum hruni meirihlutans og því tækifæri sem Flokkur fólksins hefur nú til að komast í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.