Ólafur er eini eigandi fyrirtækisins í dag í gegnum eignarhaldsfélagið OFO ehf.
Í fréttinni kemur fram að keðjan hafi verið rekin með ríflega 800 milljóna króna tapi frá því að Ólafur keypti sig inn í reksturinn. Eftir að yfirtökunni var lokið hefur fyrirtækið aldrei skilað hagnaði, að því er fram kemur í umfjöllun Heimildarinnar.
Í fréttinni kemur fram að Ólafur hafi á árunum 2021 til 2023 sett rúmar 780 milljónir króna inn í félagið í formi nýs hlutafjár en auk þess lánaði hann fyrirtækinu 78 milljónir króna.
Kemur fram í frétt Heimildarinnar að vísbendingar séu um að öll hlutafjáraukningin sé tekin að láni.
Pizzan og Dominos hafa á undanförnum árum verið tvær af mest áberandi pizzakeðjum landsins en Dominos hefur þó borið höfuð og herðar yfir aðra á markaðnum. Í umfjöllun Heimildarinnar er bent á að á sama tíma og tap Pizzunnar nálgist milljarð hafi Dominos skilað hagnaði upp á 3,7 milljarða króna.
Nánar er fjallað um þetta í Heimildinni sem kom út í dag.