Veðurstofa Íslands hefur gefið út rauða viðvörun vegna veðurs nánast um allt land í dag. Á þetta til dæmis við um höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Faxaflóa, Norðurland vestra, Norðurland eystra og Austfirði.
Þetta má sjá á vef Veðurstofu Íslands, en áður höfðu appelsínugular viðvaranir verið í gildi.
Rauð viðvörun tekur gildi á höfuðborgarsvæðinu í dag klukkan 16 og er hún í gildi til klukkan 20 í kvöld. „Sunnan 28-33 m/s og hvassara í vindstrengjum. Talsverð rigning á köflum. Foktjón mjög líklegt og það getur verið hættulegt að vera á ferð utandyra. Ekkert ferðaveður,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Svipað verður uppi á teningnum í öðrum landshlutum. Hægt er að kynna sér stöðuna betur á vef Veðurstofunnar þar sem nálgast má allar upplýsingar.
Lögreglan á Suðurnesjum bendir Neyðarlínuna, 112, fyrir þá sem finna sig í neyðarástandi og vantar aðstoð.