Ákærði hringdi í lögreglu í desember árið 2022 og tilkynnti um mögulegt innbrot í íbúð sína. Þegar lögreglu bar að garði stóð ákærði fyrir utan íbúðina, sagði öryggiskerfi hafa farið í gang og óttaðist hann að einhver væri þar inni. Segir svo í lýsingu dómara á lögreglurannsókn:
„Áður en lögreglumenn fóru inn í íbúðina bað ákærði þá að tala ekkert um það sem þeir myndu sjá innandyra og ekki fara inn í svefnherbergi. Er inn kom ráku lögreglumennirnir augu í að íbúðarveggir voru þaktir klámmyndaplakötum og í stofunni var kvikmyndatökuvél á þrífæti. Þrátt fyrir tilmæli ákærða fóru sömu lögreglumenn inn í svefnherbergi hans og sáu hvar tvær kynlífsdúkkur á stærð við fullorðnar manneskjur lágu í hjónarúmi og í barnarúmi þar við hlið lágu tvær kynlífsdúkkur í barnastærð.“
Lögreglumenn aðhöfðust ekkert frekar en tilkynntu um aðstæður á heimili mannsins á lögreglustöðinni. Lögregla fór svo aftur á staðinn og handtók ákærða vegna gruns um vörslur og framleiðslu á barnaníðsefni með minni dúkkunum tveimur.
Allar dúkkurnar voru með brjóst og sköp en stærri dúkkurnar voru einnig með op til að eiga við þær samræði. Ákærði greindi svo frá að hann notaði stærri dúkkurnar til kynlífsathafna en minni dúkkurnar væru einungis til að halda honum félagsskap. Í svefnherbergi hans fundust barnafatnaður, bleyjur og snuð.
Ákærði viðurkenndi við yfirheyrslu að horfa mikið á klám en sagðist ekki vita til þess að hann hefði barnaníðsefni í sínum vörslum, enda hefði hann engan áhuga á slíku efni.
„Aðspurður um tvær stærri dúkkurnar kvað ákærði þær vera kynlífsleikföng sem hann dundaði sér við að mála og klæða í föt og hefði einnig samræði við. Hann líti á þær sem vini sína og elskendur og hefði af þeim mikinn félagsskap þótt þær geti ekki talað til baka. Minni dúkkurnar hafi einhvern veginn fylgt með og ákærði einnig haft gaman af að klæða þær í kjóla, gera þær sætar og spjalla við þær á meðan.“
Ákærði vildi ekki gefa upp hvaða nöfnun hann kallar dúkkurnar en sagðist ímynda sér að þær stærri væru um þrítugt og þær minni rétt rúmlega 18 ára. Hann sagðist aðeins nota þær stærri til kynlífsathafna en þær minni væru til skrauts og félagsskapar og hann drykki stundum kaffi með þeim og spjallaði við þær. Hann sagðist gæta þess að þær minni væru í öðru herbergi þegar hann hefði samræði við stærri dúkkurnar.
Ákærði var látinn gangast undir geðrannsókn til að kanna hvort hann væri haldinn barnagirnd. Geðlæknir treysti sér ekki til að staðfesta slíkt en sagði ákærða glíma við kynlífsvanda sem kallast paraphilia. Ekkert benti til annars en að hann hefði verið fullfær um að stjórna gerðum sínum og taldist hann því sakhæfur.
Báðar barnadúkkurnar voru með ytri kynfæri kvenna, skapabarma, opin sköp og endaþarmsop. Önnur var með þrýstin kvenmannsbrjóst, mjaðmir og læri eins og kona en hin með smávaxin brjóst og líkamsvöxt stúlku. Báðar dúkkurnar voru með barnsleg andlit, sérstaklega sú brjóstalitla.
Á minniskortum sem fundust á heimilinu sást að barnakynlífsdúkkurnar höfðu verið notaðar til kynlífsathafna.
Ákærði sagðist bara hafa tekið myndir fyrir sjálfan sig en ekki sýnt þær nokkrum og ekki dreift þeim. Eins fundust á minniskortum myndir sem sýndu raunveruleg börn á kynferðislegan máta en ákærði kannaðist ekki við þær. „Hvaðan er þetta komið, þetta hef ég ekki sótt,“ sagði hann við lögreglu.
Ákærði sagðist hafa keypt minni dúkkurnar í leit eftir „fjölskyldufjölbreytileika“.
Ákæruvaldið taldi hafið yfir skynsamlegan vafa að um eftirlíkingar af börnum væri að ræða. Eins væri óumdeilt að dúkkurnar voru framleiddar sem kynlífsdúkkur og keyptar sem slíkar. Eins hafi barnaföt, barnarúm, bangsar, snuð og bleyjur gefið til kynna að hann liti á þær sem börn.
Ákærði bar því við að hann hafi flutt dúkkurnar inn með löglegum hætti, borgað af þeim tolla og þannig verið löglegur eigandi og umráðamaður þeirra. Hann hafi mátt hagnýta sér þær að vild á eigin heimili innan ramma friðhelgisákvæðis stjórnarskrárinnar og ákvæðis mannréttindasáttmála Evrópu um kynfrelsi. Eins sé því hvergi lýst refsivert að taka myndir og myndefni af dúkkum.
Héraðsdómur rakti að samkvæmt hegningarlögum skuli ekki refsa manni nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem refsing er lögð við í lögum eða má öldungis jafna til hegðunar sem þar er talin afbrot. Samkvæmt hegningarlögum er það refsivert að framleiða, flytja inn, afla sér eða öðrum, dreifa eða hafa í vörslum sínum myndefni sem sýnir kynferðislega misnotkun á barni eða sýnir barn á kynferðislegan hátt. Samkvæmt orðan ákvæðisins taki það eingöngu til raunverulegra barna.
Eins sé það refsivert að framleiða, flytja inn, afla sér eða öðrum, dreifa eða hafa í vörslum sínum myndefni sem sýnir einstaklinga 18 ára og eldri á kynferðislegan hátt, enda séu þeir í hlutverki barns, eða ef líkt er eftir barni í slíku efni þó að það sé ekki raunverulegt, svo sem í teiknimyndum eða öðrum sýndarmyndum. Þar hafi vilji löggjafans staðið til þess að styrkja réttarvernd barna og sporna gegn barnaklámi, barnaníði og framleiðslu á myndefni sem sýnir börn í kynferðislegum athöfnum. Eins sé þar gert ráð fyrir aðstæðum þar sem efni og hlutir líkjast barni sem er ekki raunverulegt, svo sem teiknimyndir eða aðrar sýndarmyndir. Þó virðist ákvæðið gera ráð fyrir að fullorðinn einstakling þurfi til svo brot teljist framið og sá hinn sami þurfi að bregða sér í hlutverk barns fyrir framan myndavél eða annað upptökutæki.
Héraðsdómur taldi hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði keypti og átti á heimili sínu sérpantaðar kynlífsdúkkur. Eins að tvær af þessum dúkkunum voru barnalegar í útliti. Ákærði hafi þó reynt að ganga úr skugga um hvort það væri löglegt að flytja slíkar dúkkur til landsins. Hann hafi þó leikið sér að því að klæða minni dúkkurnar upp sem börn og tekið myndir af kynferðilegum athöfnum með þeim sem hann svo eyddi. Eins fundust myndir á hörðum diski ákærða sem sýndu raunveruleg stúlkubörn á kynferðislegan hátt. Loks sé ljóst að ákærði leit á dúkkurnar fjórar sem hluta af fjölskyldu sinni og ekkert bendi til þess að hann hafi dreift myndum af þeim til annarra.
Stóra spurningin sé hvort það sé bannað að framleiða og eiga myndefni sem sýnir dúkkurnar á kynferðislegan hátt. Héraðsdómur taldi engar skýrar refsiheimildir liggja fyrir sem heimiluðu að sakfella fyrir slíkt. Hins vegar þótti sannað að ákærði hafði barnaníðsefni í fórum sínum hvað varðaði myndefnið af raunverulegu stúlkubörnunum.
Samkvæmt sakavottorði hafði ákærði fyrir mjög löngu síðan verið dæmdur í fangelsi fyrir vörslur á barnaklámi. Svo langt sé þó liðið að það gæti ekki haft áhrif í þessu máli. Því væri hæfileg refsing 100 þúsund króna sekt eða fangelsi í 8 daga. Eins var turntölva hans gerð upptæk og hann þarf að greiða 1/6 hluta af málsvarnalaunum og aksturskostnaði.