Kærunefnd húsamála hefur komist að þeirri niðurstöðu að leigusölum beri að endurgreiða konu sem leigði íbúð þeirra tryggingu sem hún lagði fram við upphaf leigutímans. Það var þó ekki konan sjálf sem lagði trygginguna fram heldur var það Mosfellsbær sem gerði það fyrir hennar hönd.
Konan gerði leigusamning við leigusalana til eins árs 2021 og samningurinn var síðan endurnýjaður til eins árs í viðbót, árið eftir.
Við upphaf leigutímans 2021 lagði konan fram 300.000 krónur í tryggingu sem að Mosfellsbær greiddi fyrir hennar hönd en eftir að konan flutti út héldu leigusalarnir tryggingunni eftir.
Í úrskurði kærunefndar húsamála kemur fram að íbúðin var ný þegar konan flutti inn. Konan sagði í kæru sinni að hún hefði tjáð leigusölunum að hún hefði lent í áfalli og að Mosfellsbær myndi leggja fram trygginguna. Fóru leigusalarnir, samkvæmt kærunni, upphaflega fram á tveggja mánaða leigu, 360.000 krónur, í tryggingu en samþykktu að lækka upphæðina niður í 300.000 krónur.
Leigan var vístölutengd og í lok árs 2022 hafði hún hækkað upp í 216.000 krónur á mánuði. Konan hafði samband við leigusalana og bar sig illa vegna hækkunarinnar en þeir sögðu henni þá að finna sér ódýrari íbúð.
Leigusalarnir höfðu síðan, samkvæmt konunni, samband við hana í upphafi árs 2023 og buðu henni að leigan yrði lækkuð niður í 200.000 krónur á mánuði. Konan sagði í kæru sinni að hún hefði stungið upp á 195.000 krónum. Þeir hafi þá sagt henni að flytja út. Konan sagði það ekki nauðsynlegt sín vegna en sagðist skyldu leita að nýrri íbúð.
Konan fann á endanum nýja íbúð en segir í sinni kæru að leigusalarnir hafi viljað að íbúðin yrði afhent 30. október 2023 og ekki sýnt því skilning að hann hún fengi hina íbúðina ekki afhenta fyrr en 1. nóvember. Hún hafi ekki náð að ljúka þrifum og flutningi í tæka tíð. Annar leigusalanna hafi verið ósáttur við hvernig hún hafi skilað af sér íbúðinni og sagt hana ógeðslega án þess þó að útskýra nánar hvað hann ætti við. Hann hafi neitað beiðni hennar um að fá trygginguna endurgreidda og sagt að hún yrði greidd til Mosfellsbæjar.
Í kjölfarið hafi henni verið sendur 500.000 króna reikningur vegna úrbóta sem hafi þurft að gera á íbúðinni. Svo hafi farið að hún hafi ekki getað lagt fram tryggingu vegna nýju íbúðarinnar og ekki fengið hana afhenta. Hún hafi verið á götunni og veikst í kjölfarið. Síðan hafi hún náð sér aftur strik og því hafi það tafist að hún sneri sér til nefndarinnar.
Leigusalarnir sögðu í sínum andsvörum að tryggingin hafi upphaflega átt að vera 540.000 krónur. Mosfellsbær hafi hins vegar aðeins greitt 300.000 krónur fyrir hönd konunnar og þá hafi þeir samþykkt að lækka trygginguna niður í 360.000 krónur. Konan hafi hins vegar aldrei borgað þær 60.000 krónur sem uppá vantaði. Þar með hafi þeim verið heimilt að rifta leigusamningnum vegna vanefnda konunnar en ákveðið að gera það ekki af góðmennsku sinni.
Vildu leigusalarnir einnig meina að kæra konunnar væri vanreifuð og þar væri að finna upplýsingar um hennar persónulegu aðstæður sem kæmu málinu ekki við. Þá hafi konan haft enga lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins enda hafi Mosfellsbær innt trygginguna af hendi og ætti því að fá endurgreiðsluna. Í kæru konunnar sé hvergi vikið að því að sveitarfélagið hafi yfir höfuð beint kröfu til hennar, en félagsleg aðstoð af þessu tagi sé iðulega skilgreind sem styrkur en ekki lán.
Sögðu leigusalarnir að gengið hafi verið á trygginguna, að höfðu samráði við Mosfellsbæ. Vísuðu þeir meðal annars til þess að þegar annar þeirra gerði sameiginlega úttekt með konunni á ástandi íbúðarinnar hafi komið í ljós að frágangur hennar væri ófullnægjandi. Göt hafi verið víða á veggjum, eða skrúfur og naglar hreinlega ekki fjarlægðir, skemmd hafi verið á baðherbergishurð, ásamt hlið á skáp við þvottavél. Þá hafi sést för og óhreinindi á veggjum bæði vegna skemmda og óþrifnaðar. Konan hafi viðurkennt að frágangurinn væri ófullnægjandi.
Kostnaður við þrif og lagfæringar hafi verið um 435.000 krónur. Mosfellsbær hafi samþykkt að gengið yrði á trygginguna, 300.000 krónur, en neitað að bæta tjónið umfram það. Frekari kröfur hafi ekki verið gerðar á konuna.
Kærunefnd húsamála segir í sinni niðurstöðu að gögn um samskipti málsaðila við starfsmenn Mosfellsbæjar beri með sér að bærinn hafi verið lána konunni fyrir tryggingunni og þótt bærinn hafi lagt féð beint inn á reikning leigusalanna verði að líta svo að greiðslan hafi komið frá konunni.
Gögn málsins sýni einnig fram á að leigusalarnir hafi tilkynnt konunni að gengið yrði að tryggingunni. Hún hafi hafnað því tveimur dögum síðar. Í ljósi þessa ágreinings hafi leigusalarnir átt samkvæmt lögum að snúa sér til nefndarinnar innan fjögurra vikna, annars endurgreiða trygginguna. Það hafi ekki verið gert og samkipti við Mosfellsbæ breyti engu um það þar sem það hafi samkvæmt lögum verið konunnar að fallast á eða hafna kröfunni.
Hvað varðar þá afstöðu leigusalanna að Mosfellsbær ætti með réttu að fá tryggingaféð en ekki konan vísar nefndin í tölvupóst frá starfsmanni bæjarins þar sem fram komi að sé ætlunin að endurgreiða trygginguna megi leggja upphæðina inn á reikning sveitarfélagsins. Rökin að baki þeirrri afstöðu séu þó ekki tilgreind og séu í ósamræmi við fyrri samskipti málsaðila við bæinn þar sem komi skýrt fram að um lán hafi verið að ræða. Í þeim samskiptum komi fram að sveitarfélagið muni beina kröfu sinni vegna lánsins til konunnar.
Með vísan til alls þessa fellst nefndin á það með konunni að leigusölunum beri að endurgreiða trygginguna, 300.000 krónur auk vaxta og dráttarvaxta. Nefndin tekur hins vegar enga afstöðu til þess hvort konunni beri að endurgreiða Mosfellsbæ lánið.