fbpx
Mánudagur 03.febrúar 2025
Fréttir

Stefán Einar fékk nóg og lét Ólaf heyra það: „Hvaða tilgangi á þessi skítapilla að þjóna?“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 3. febrúar 2025 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stefán Einar Stefánsson, þáttastjórnandi á Morgunblaðinu, er allt annað en sáttur við Ólaf Stephensen, framkvæmdastjóra SA og fyrrverandi ritstjóra. Stefán Einar og Ólafur skiptast á nokkrum vel völdum athugasemdum á Facebook-síðu þess síðarnefnda.

Forsaga málsins er sú að Ólafur skrifaði í morgun færslu um frétt Morgunblaðsins – sem Stefán Einar skrifar – þar sem fjallað var um mál Sigurjóns Þórðarsonar, verðandi formanns atvinnuveganefndar Alþingis.

Kom fram að nýr atvinnuvegaráðherra, Hanna Katrín Friðriksson, hefði ekki verið upplýst um að Sigurjón hefði haft hagsmuna að gæta þegar kom að þeirri ákvörðun að boða stóreflingu strandveiða í sumar. Sigurjón á fyrirtækið Sleppa ehf. sem gert hefur út bát á strandveiðum.

„Aulabárðar um allan bæ“

Í færslu sinni sagði Ólafur það vera gott hjá Morgunblaðinu að vekja athygli á því að fjárhagslegir hagsmunir þingmanna geti haft áhrif á ákvarðanir þeirra í mikilvægum málum. Það væri líka gott hjá ráðherranum að lýsa því yfir að þingmaður sem á hlut í strandveiðifélagi verði ekki framsögumaður máls sem varðar mikilvæga hagsmuni strandveiðimanna. Það var svo síðasti parturinn í færslu Ólafs sem virðist hafa farið fyrir brjóstið á Stefáni Einari, en þar sagði Ólafur:

„Þið hjálpið mér kannski að rifja upp hvort Mogginn og fyrrverandi matvælaráðherra stóðu sig svona vel þegar fyrrverandi formaður atvinnuveganefndar mælti fyrir tillögum um breytingar á búvörulögum, sem vörðuðu beint hagsmuni félags í hans eigu.“

Stefán Einar mætti á vegg Ólafs og spurði:

„Hvaða tilgangi á þessi skítapilla að þjóna? Þú kannt á leitarvélar þótt gamall sért – og þú lest vonandi miðlana sem þú vísar í. Þar sérðu að um þessi mál var fjallað og ítarlega. Það eina sem Morgunblaðið hefur núna gert er að upplýsa um verulega fjárhagslega hagsmuni sem pukrast hefur verið með og ekki gerður reki að því að upplýsa um í hagsmunaskráningu þingsins (hvað svo sem það leikrit á að gera í lok dags). Og ráðherrann svaraði skilmerkilega. Um það atriði var fjallað í einni frétt. Einni. Og sennilega er það nóg. Með því hefur almenningur verið upplýstur um málið. Fjölmiðillinn hefur engan dóm fellt. En það gera hins vegar aulabárðar um allan bæ sem telja sig geta fundið höggstað á miðlinum fyrir að segja fréttina! Meðal annars gamli ritstjórinn.“

Stefán Einar bætir svo við að í hverju málinu á fætur öðru sé upplýst um axarsköft Flokks fólksins. Það eina sem menn hafi til málanna að leggja sé að verið sé að leggja stjórnmálaflokk og fyrirsvarsmenn hans í einelti. „Engu er svarað efnislega. Miðlarnir sem þar sinna skyldum sínum af trúmennsku sitja undir skensi frá liði eins og því sem leggur orð í belg hér að ofan.“

Kallar Ólaf „Evrópustrump“

Það virðist ekki hafa komið Ólafi sérstaklega á óvart að Stefán væri mættur til að svara fyrir sig.

„Ó en óvænt að sjá þig hér. En þú misskilur, minn kæri. Ég er alls ekki að setja út á að fréttin af Sigurjóni hafi verið sögð. Það er þvert á móti mjög þarfur fréttaflutningur. Mér finnst hins vegar að þið á ritstjórninni mættuð vera duglegri að sýna sjálfstæði ykkar með gagnrýninni umfjöllun um mál sem snúa öðruvísi við hagsmunum eigenda blaðsins en þetta – til dæmis hinar makalausu breytingar á búvörulögunum síðastliðið vor.“

Stefán Einar var ekki sáttur við þetta svar Ólafs.

„Ertu að saka blaðamenn Morgunblaðsins um að haga fréttaflutningi sínum eftir því hvað snýr að hagsmunum eigenda blaðsins? Nú spyr ég – byggir þú slíkar aðdróttanir á því hvernig þú hagaðir þínum störfum þegar þú varst blaðamaður og ritstjóri á sínum tíma,” spurði Stefán en Ólafur var lengi blaðamaður á Morgunblaðinu og síðar aðstoðarritstjóri miðilsins áður en hann varð ritstjóri Blaðsins og síðan Fréttablaðsins.

Ólafur svaraði því til að hann hefði ekki gert það og þess vegna hefði hann verið rekinn á sínum tíma. „En það þarf nú ekkert annað en að lesa blaðið til að sjá að fréttaflutningurinn dregur dám af eignarhaldinu.“

Stefán Einar átti svo lokaorðin í þessari rimmu.

„Þú varst ekkert rekinn vegna þess. Þú varst rekinn vegna þess að mönnum datt ekki í hug að vera með Evrópustrump í brúnni. Það er vandræðalegt þegar gamlir menn reyna að fórnarlambavæða sig með þessum hætti.”

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Fimm Íslendingum verður vísað frá Bandaríkjunum

Fimm Íslendingum verður vísað frá Bandaríkjunum
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Gatnagerðargjöld allt að tvöfaldast verði tillaga borgarstjóra samþykkt

Gatnagerðargjöld allt að tvöfaldast verði tillaga borgarstjóra samþykkt