Kona á sextugsaldri hefur verið ákærð fyrir skjalafals í opinberu starfi en hún starfaði í 11 ár hjá Sjúkratryggingum Íslands (SÍ), þar af í tíu ár sem verkefnastjóri.
Konan er sökuð um að hafa í 216 skipti falsað kröfur í tölvukerfi SÍ að fjárhæð 156.298.529 krónur, sem áttu sér ekki stoð, í nafni þriggja einstaklinga, eiginmanns síns, sem nú er látinn, og tveggja sona sinna á fertugsaldri.
Annars vegar var um að ræða kröfur vegna erlends sjúkrakostnaðar og hins vegar með því að skrá mennina sem fylgdarmenn ótengdra aðila sem nutu læknismeðferðar erlendis.
„Eftir að ákærða falsaði kröfumar í kerfi stofnunarinnar, blekkti hún aðra starfsmenn Sjúkratrygginga Íslands til að samþykkja þær en kröfurnar voru að lokum greiddar út til meðákærðu og eiginmanns hennar,“ segir í ákærunni.
Í 61 tilviki runnu greiðslurnar inn á reikning eiginmanns konunnar, allt frá árinu 2013 til og með 2018. Í 70 og 85 tilvikum runnu greiðslurnar inn á reikninga sona konunnar og stóðu þau svik yfir fram á árið 2024.
Annar sonur konunnar er ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa móttekið í 70 tilvikum samtals tæplega 49 milljónir króna inn á bankareikning sinn sem honum mátti vera ljóst að var ávinningur af refsiverðum brotum móður hans.
Samskonar ákæra er á hendur hinum syninum en þar eru tilvikin 85 og upphæðin samtals rétt rúmlega 80 milljónir króna.
Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjaness í dag, 3. febrúar.