Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu kemur fram að Brynjar Níelsson, lögmaður og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi verið metinn hæfastur allra umsækjenda um embætti dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur. Það er fimm manna dómnefnd sem komst að þesssari niðurstöðu og hefur skilað ítarlegu skjali með þessari niðurstöðu til Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra. Komst nefndin að þessari niðurstöðu einkum á þeim grundvelli að Brynjar væri með minni menntun en aðrir umsækjendur en með meiri starfsreynslu sem myndi nýtast í dómarastarfi
Í nefndinni sátu Ása Ólafsdóttir hæstaréttardómari, sem jafnframt er formaður nefndarinnar, tilnefnd af Hæstarétti, Kjartan Bjarni Björgvinsson landsréttardómari, sem er tilnefndur af Landsrétti, Helga Melkorka Óttarsdóttir lögmaður, tilnefnd af Alþingi, Þorgeir Örlygsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, tilnefndur af dómstólasýslunni og Reimar Pétursson lögmaður, tilnefndur af Lögmannafélagi Íslands.
Aðrir umsækjendur um dómarastöðuna voru Arndís Anna Kristínar Gunnarsdóttir lögmaður og fyrrverandi þingmaður Pírata og Sindri M. Stephensen dósent og settur héraðsdómari.
Nefndin horfði til ýmissa þátta þegar kom að mati á umsækjendunum og tók þá töluvert mið af auglýsingu um dómaraembættið.
Allir umsækjendurnir hafa lokið lögfræðiprófi frá Háskóla Ísland en ólíkt Brynjari hafa bæði Arndís og Sindri lokið viðbótarmeistaragráðu í lögfræði frá erlendum háskólum og standa því bæði Brynjari framar þegar kemur að menntun.
Þegar kemur að reynslu af dómsstörfum þóttu Sindri og Brynjar jafnhæfir. Sindri er eins og áður segir settur héraðsdómari en Brynjar starfaði á árunum 1986-1991 sem yfirfulltrúi við embætti borgarfógeta í Reykjavík og fór í því embætti með dómsvald í munnlega fluttum málum í samræmi við þágildandi reglur.
Brynjar hafði hins vegar mun meiri reynslu af lögmannsstörfum og málflutningi en hann er meira en 20 árum eldri en báðir hinir umsækjendurnir.
Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Brynjar hefði mestu reynsluna af stjórnsýslustörfum sem myndu nýtast í dómarastarfi en að Sindri hefði meiri reynslu en hann af störfum við háskólakennslu og öðrum akademískum vettvangi.
Sindri stóð Brynjari og Arndísi enn fremur mun framar þegar kom að fræðilegum skrifum.
Brynjar hafði mesta stjórnunarreynsluna og var þá einkum miðað við rekstur hans á eigin lögmannsstofu um árabil.
Hann þótti einnig hafa mestu reynsluna at störfum sem talin eru munu nýtast í starfi dómara. Var þá meðal annars vísað til starfa hans sem alþingismaður og eftir það sem aðstoðarmaður dómsmálaráðherra og síðan sem sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu.
Allir umsækjendur voru taldir hafa öðlast nægilegt vald á réttarfarsreglum til að sinna störfum héraðsdómara og með hliðsjón af fyrri störfum voru þau öll talin hæf til að stjórna þinghöldum af röggsemi og sanngirni og afgreiða mál fljótt og vel.
Þegar kemur að færni til að semja dóma þóttu Sindri og Brynjar jafnhæfir. Var þá horft til málflutningsskjala sem Brynjar hefði samið en dóma og fræðigreina sem Sindri hafði ritað. Voru þeir taldir með þessu hafa sýnt fram á færni til að semja dóma.
Einnig var vísað til viðtala við umsækjendur en í umsögn nefndarinnar er ekki því ekki lýst hvað kom fram í viðtölunum
Þegar á heildina var litið þótti Brynjar hæfastur og nefndin mælir því með að hann hljóti skipun í embætti héraðsdómara.
Það stefnir því allt í að Brynjar Níelsson ljúki starfsævinni sem dómari en hann er 64 ára. Hann hefur verið virkur þátttakandi í þjóðfélagsumræðunni í mörg ár og haldið hægri sinnuðum sjónarmiðum hátt á lofti og verið þess vegna umdeildur, en þarf að hætta öllu slíku sem dómari.
Hvort það mun reynast honum erfitt að halda aftur af sér við að t.d. gagnrýna núverandi ríkisstjórn á hins vegar eftir að koma í ljós.