Sleggjan, systurfélag Öskju, heitir nú Landfari og er viðurkenndur sölu- og þjónustuaðili Mercedes-Benz vöru- og hópferðabíla á Íslandi.
Nýtt heiti fyrirtækisins er liður í þeim breytingum sem unnið hefur verið að á síðustu mánuðum til að mæta framtíðarþörfum viðskiptavina og styrkir enn frekar stefnu fyrirtækisins til framtíðar, eins og segir í fréttatilkynningu.
Markvisst hefur verið unnið að því að bæta þjónustu við viðskiptavini, meðal annars er nú boðið upp á kvöldþjónustu og hægt er að fá forgreiningu án tímabókunar. Sérhæfðum þjónustubílum hefur verið fjölgað en þeir eru ávallt til taks til að veita þjónustu á vegum úti eða á starfsstöð viðskiptavinar. Mikil áhersla er lögð á endurmenntun og þjálfun starfsmanna sem skilar sér í betri þjónustu við viðskiptavini.
Starfsemi Landfara er í Desjamýri 10 í Mosfellsbæ en þar eru skrifstofur og söludeild nýrra Mercedes-Benz vöru- og hópferðabíla, auk þjónustuverkstæðis, varahlutalagers og verslunar í tæplega 2500 m2 glæsilegu húsnæði. Landfari er einnig með starfsemi í Klettagörðum 4 í Reykjavík. Þar er lögð áhersla á viðgerðir á eftirvögnum og er sú þjónusta vaxandi. Starfsemin þar mun flytjast í stærra húsnæði að Klettagörðum 5 í sumar og um leið verður þjónustuframboð aukið. 1. júní nk. verður síðan opnað nýtt 1000m2 fullbúið verkstæði fyrir atvinnubíla og eftirvagna að Álfhellu 15 í Hafnarfirði. Verkstæðið er mjög vel útbúið til að þjónusta atvinnutæki.
Landfari er viðurkenndur þjónustuaðili fyrir Hammar gámalyftur og er að auki sölu- og þjónustuaðili fyrir Faymonville og VAK vagna.
„Það eru spennandi tímar fram undan hjá Landfara. Við erum að stórefla þjónustuna með stærra húsnæði í Klettagörðum og nýrri staðsetningu að Álfhellu 15 í Hafnarfirði, en þar verður opnað fullbúið verkstæði fyrir atvinnubíla 1. júní næstkomandi. Orkuskipti í flutningum eru að slíta barnsskónum en Mercedes- Benz Trucks er í fararbroddi í þróun rafknúinna vörubíla og undirbúum við nú komu eActros 600 en það er vörubíll með allt að 500 km drægni á einni hleðslu miða við 40 tonna þyngd.
Amazon keypti á dögunum 200 slíka bíla til að sinna flutningum í Bretlandi og í Evrópu. Fyrstu bílarnir koma til landsins á næstu vikum og fyrri hluta árs 2027 eigum við von á fyrstu rafknúnu hópferðabílunum frá Mercedes-Benz,“ segir Eiríkur Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Landfara.
Spurður um nýja nafnið segir Eiríkur að heitið Landfari komi úr ranni Jóns Þorvaldssonar sem er maðurinn á bak við nöfn fjölmargra íslenskra fyrirtækja. „Landfari skírskotar sterklega til meginstarfsemi fyrirtækisins sem er sala og þjónusta við fyrirtæki sem sinna flutningum á vörum og fólki um landið.“
Landfari er dótturfélag Vekru sem einnig er eigandi Bílaumboðsins Öskju sem er viðurkenndur sölu og þjónustuaðili Mercedes- Benz, Kia, Honda og smart. Vekra á jafnframt bílaumboðið Unu, sem er umboðsaðili Xpeng á Íslandi, ásamt eignarhaldi á Hentar og Dekkjahöllinni. Vekra á auk þess meirihluta í bílaleigunni Lotus. Vekra velti á árinu 2024 um 30 milljörðum og eru starfsmenn félaganna um 250 talsins.