fbpx
Miðvikudagur 12.mars 2025
Fréttir

Allsherjar uppnám á nefndarfundi í borginni – Ásakanir um geðþóttavald og lögbrot

Ritstjórn DV
Laugardaginn 1. febrúar 2025 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var harkalega deilt á fundi forsætisnefndar Reykjavíkurborgar í gær. Sakaði Marta Guðjónsdóttir fulltrúi Sjálfstæðisflokksins forseta borgarstjórnar Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur um geðþóttavald og brot á sveitarstjórnarlögum. Þórdís Lóa og aðrir fulltrúar meirihlutaflokkanna vísuðu því alfarið á bug. Snerist málið um dagskrá næsta borgarstjórnarfundar sem haldinn verður næstkomandi þriðjudag og hvort og þá hvenær á fundinum verði tekin fyrir tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um kostnaðarmat á mögulegum sviðsmyndum varðandi hið umdeilda stálgrindarhús við Álfabakka, sem eins og kunnugt er var byggt afar þétt upp við íbúðablokk. Snerist deilan meðal annars um hvort að tillagan passaði við þema fundarins.

Lagði Marta fram afar harðorða bókun á fundinum. Sagði hún sæta furðu að forseti borgarstjórnar taki sér það vald að raða málum Sjálfstæðisflokks á dagskrá borgarstjórnar eftir eigin geðþótta, í stað þess að fylgja röðun sem flokkurinn óskaði eftir. Enda sé til staðar samkomulag um að stærsti flokkurinn eigi alltaf mál númer 2 á dagskrá borgarstjórnar. Sagði Marta að svo virtist sem að Þórdís Lóa væri á flótta undan umræðu um Álfabakkamálið.

Samkvæmt dagskrá borgarstjórnarfundarins verður tillagan um kostnaðarmatið vegna hins umdeilda húss við Álfabakka næst síðasta málið sem tekið verður fyrir á fundinum en mál númer 2 verður tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lækkun fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði.

Las það í Mogganum

Ekki kemur fram í bókun Mörtu hvort það var hún sjálf eða annar borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sem lagði tillöguna um kostnaðarmatið fram. Það kemur enn fremur hvergi annars staðar fram í þessari fundargerð fundar forsætisnefndar. Marta segir í sinni bókun að Þórdís Lóa hafi sett sig í samband við tillöguflytjanda, tveimur dögum fyrir fund forsætisnefndar, þegar hún sá frétt í Morgunblaðinu um að tillaga um málið yrði lögð fram á fundi borgarstjórnar. Hafi Þórdís tjáð tillöguflytjanda að málið yrði sett aftast á dagskrána og því yrði frestað, með þeim rökum að það samræmdist ekki þema fundarins, sem átti að fjalla um atvinnumál í Reykjavík.

Þetta segir Marta vera óeðlilega ákvörðun sem tekin sé einhliða og sé hreinlega brot á sveitarstjórnarlögum. Málið snúi augljóslega að atvinnustarfsemi í borginni:

„Það jafngildir því í raun synjun á að taka málið á dagskrá borgarstjórnar. Það er brot á sveitarstjórnarlögum, enda tók forseti einhliða ákvörðun, tveimur dögum áður, án undangenginnar umræðu um dagskrána í forsætisnefnd. Vinnubrögð þessi eru í hæsta máta óeðlileg. Af þessum sökum mun fulltrúi Sjálfstæðisflokks senda inn kvörtun til innviðaráðuneytisins í þeirri viðleitni að leita álits vegna þessara óeðlilegu stjórnsýsluhátta sem viðhafðir eru í tengslum við dagskrá borgarstjórnar, þegar um óþægileg mál er að ræða.“

Engin hótun – Forsetinn hafi valdið

Þórdís Lóa svaraði Mörtu fullum hálsi með eigin bókun. Sagðist hún oft setja sig í samband við borgarfulltrúa úr öllum flokkum við undirbúning borgarstjórnarfunda og upplýsa þá um röð mála eða hver tímaröðun gæti verið. Þá upplýsti hún um leið viðkomandi borgarfulltrúa um það ef líklegt væri að máli yrði frestað ef tímarammi fundar væri slíkur. Við það væri ekkert óeðlilegt og í því fælust engar hótanir.

Þórdís Lóa lagði síðan fram aðra bókun ásamt Magneu Gná Jóhannsdóttur, fulltrúa Framsóknarflokksins, Sabine Leskopf fulltrúa Samfylkingarinnar og Alexöndru Briem áheyrnarfulltrúa Pírata. Í þeirri bókun var lögð áhersla á að forseti borgarstjórnar hafi óskorað vald til þess að ákveða dagskrá borgarstjórnarfunda, að teknu tilliti til þess að borgarfulltrúar hafi heimild til þess að setja mál á dagskrá. Legið hafi fyrir um nokkurt skeið að atvinnumál yrðu þema fundarins og myndu tillögur eða umræður sem fylgdu þemanu raðast ofar. Vildu þær meina að umrætt mál tengdist atvinnumálum ekki beint, heldur væri um að ræða skipulagsmál. Málið hafi þar að auki verið rætt nýlega og ítrekað í borgarstjórn.

Marta svaraði með annarri bókun þar sem hún sagði heyra til tíðinda að meirihlutaflokkarnir teldu lóðamál og skipulagsmál ekki vera atvinnumál. Það skýri sennilega skortinn á atvinnulóðum í borginni og flótta fyrirtækja úr borginni á undanförnum árum.

Fleiri orð eru ekki höfð um málið í fundargerð forsætisnefndar en miðað við bókanirnar er ljóst að umræðan á fundinum hefur verið í hvassari kantinum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Skarphéðinn nýr framkvæmdastjóri Sagafilm

Skarphéðinn nýr framkvæmdastjóri Sagafilm
Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Sakaður um sérstaklega hættulega hnífaárás þegar hann var 15 ára – Stakk ungling í bakið

Sakaður um sérstaklega hættulega hnífaárás þegar hann var 15 ára – Stakk ungling í bakið
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Dagbjört komin í opið fangelsi eftir aðeins 15 mánaða afplánun – Fékk 16 ár fyrir að pynta mann til dauða

Dagbjört komin í opið fangelsi eftir aðeins 15 mánaða afplánun – Fékk 16 ár fyrir að pynta mann til dauða
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Mannlaus Hopp-bíll fastur í drullupytti á viðkvæmu svæði á Seltjarnarnesi – Lögregla rannsakar málið

Mannlaus Hopp-bíll fastur í drullupytti á viðkvæmu svæði á Seltjarnarnesi – Lögregla rannsakar málið
Fréttir
Í gær

Íbúar fengið nóg og kalla eftir aðgerðum: „Alveg sama hvað þú gerir, alltaf lendirðu á vegg“

Íbúar fengið nóg og kalla eftir aðgerðum: „Alveg sama hvað þú gerir, alltaf lendirðu á vegg“
Fréttir
Í gær

Eliza Reid um ógnina frá Trump – „Sýnum ofbeldisseggjum að við erum ekki hrædd“

Eliza Reid um ógnina frá Trump – „Sýnum ofbeldisseggjum að við erum ekki hrædd“