Leðurblakan sem hefur flögrað um Reykjavík undanfarna daga var handsömuð á vegg heimahúss í dag nær dauða en lífi. Hún var aflífuð og send til rannsóknar á tilraunastöðina að Keldum.
Að sögn Þorkels Heiðarsson, deildarstjóra Dýraþjónustu Reykjavíkur, var leðurblakan fönguð seinnipartinn í dag. Hún var þá mjög illa á sig komin, nær dauða en lífi, eftir að hafa flögrað um Reykjavík í fimbulkulda. Myndband náðist af því þegar leðurblakan var fönguð.
Leðurblakan hefur verið aflífuð en leðurblökur eru mjög þekktir smitberar og geta meðal annars borið með sér hundaæði. Hún hefur þegar verið send á tilraunastöðina að Keldum til rannsóknar.
Þorkell segir að leðurblakan hafi verið með 25 sentimetra vænghaf en með lítið í kviðnum. Ekki er vitað hvaða tegund þetta er eða hvernig hún komst hingað. En leðurblökur hafa komið í nokkur skipti til Íslands, aðallega með skipum.