Snorri Ásmundsson, listamaður, segist fagna mótframboði Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur til formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Segist hann sjá hana fyrir sér sem varaformann sinn.
„Ég fagna mótframboði Áslaugar og ég dáist af metnaði hennar og stórum hug og hlakka til að starfa sem formaður með hana mér við hlið sem varaformann,“ segir Snorri. „Áslaug er með fallegt bjart bros og það er líka töggur í henni sem er góður eiginleiki að hafa sem varaformaður. Ég er viss um að ég geti treyst henni fyrir mörgum verkefnum. Ég óska Áslaugu til hamingju með þetta skref sem hún er að taka og hlakka til að starfa með henni á vettvangi stjórnmálanna.“
Snorri tilkynnti framboð sitt þann 15. janúar síðastliðinn. Sagðist hann hafa dreymt að Ólafur Thors heitinn forsætisráðherra hefði komið til sín og rétt sér epli. Breyttist hann skyndilega í Bjarna Benediktsson, fráfarandi formann Sjálfstæðisflokksins.
Snorri var fyrstur til að ríða á vaðið og lýsta yfir framboði til formanns Sjálfstæðisflokksins. Hann segist vera viss um sigur í formannsslagnum en hann á þó ekki sæti landsfundi flokksins.
Áslaug Arna lýsti yfir framboði til formennsku laust eftir hádegi í dag. Beðið er eftir tilkynningu frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni og Guðrúnu Hafsteinsdóttur um hvað þau hyggist gera fyrir landsfund, sem er í lok febrúar. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir og Jón Gunnarsson hafa lýst því yfir að þau hyggist ekki bjóða sig fram til formennsku.