fbpx
Miðvikudagur 12.mars 2025
Fréttir

Piltur úr tálbeituhópnum ræðir við DV: Segir þingmenn og aðra broddborgara klæmast við börn á netinu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 25. janúar 2025 10:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fimm ungmenni eru til rannsóknar hjá Lögreglunni á Vesturlandi vegna gruns um hrottalega líkamsárás á hendur 52 ára karlmanni á Akranesi í desembermánuði síðastliðnum. Maðurinn lá um tíma þungt haldinn á sjúkrahúsi eftir árásina en hann var meðal annars ítrekað laminn með járnkylfum. Samkvæmt heimildum DV er maðurinn á batavegi og ekki lengur á sjúkrahúsi.

Ungmennin sem í hlut áttu höfðu leitt manninn í gildru með tálbeituaðferð en hann taldi sig vera að fara til fundar við 14 ára stúlku með kynferðisleg samskipti í huga. Undanfari stefnumótsins var spjall á netinu þar sem maðurinn taldi sig vera að ræða við 14 ára stúlku. Hún bauð honum að hitta hann og veita honum munnmök, sem hann þáði.

Sjá einnig: Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi

Hópurinn sem um ræðir telur fjóra pilta og eina stúlku. Þau eru öll undir tvítugu. Einn piltur úr hópnum féllst á að ræða við DV til að útskýra hvers vegna ungmennin gripu til ofbeldis og koma þeim nöturlega sannleika á framfæri að barnagirnd grasserar á netinu á Íslandi þar sem fólk á aldrinum 25 til 80 ára sýnir áhuga á því að ræða kynferðislega við börn og jafnvel mæla sér mót við þau. Þetta hafa aðgerðir þessa hóps og annarra sambærilegra tálbeituhópa leitt í ljós. Í hópi þeirra sem sýna börnum þennan áhuga er að finna fólk í góðum stöðum í samfélaginu og pilturinn  segist meðal annars hafa upplifað slíkan áhuga hjá tveimur þingmönnum sem töldu sig vera að ræða við 14 ára stúlku.

Viðtal DV við þennan unga mann fór fram á skrifstofu lögfræðings hans sem var viðstaddur viðtalið. Hópurinn stundar að eiga í samræðum við fólk á netinu, mjög gjarnan á Snapchat, og hefur ýmist frumkvæði að kynferðislegu tali eða bregst við slíku frumkvæði af hálfu viðmælenda. Þeir sem hópurinn ræðir við telja sig vera að ræða við 14 ára stúlku. Glettilega margir eru til í að færa slíkt tal yfir á kynferðislegar brautir og af þeim eru síðan furðumargir sem virðast vera tilbúnir að hitta svo ungan einstakling með kynlíf í huga.

Tálbeituaðgerðir af þessu tagi sem hafa verið í fréttum undanfarið tengjast tveimur hópum ungmenna. Annar hópurinn hefur verið starfandi í um ár en sá hópur sem viðmælandi DV tilheyrir hefur starfað síðan í desember.

„Það koma og fara hópar og það hafa verið til svona hópar út um allt land, til dæmis á Selfossi og á Akureyri,segir hann og aðspurður segir hann eitthvað vera um samskipti á milli slíkra hópa en þó ekki mikið.

Viðmælandinn vill ekki að nafn sitt komi fram né aldur, fyrir utan það að hann er undir tvítugu. Hann kemur blaðamanni DV fyrir sjónir sem afskaplega venjulegur unglingur og ekkert í fari hans, klæðnaði eða yfirbragði gefur til kynna óreglu eða undirheimalíf. Hann er kurteis í viðmóti, rólegur og yfirvegaður í tali.

„Við höfum náð þremur, við tókum vídeó af einum. Svo var einn sem við bara töluðum við. Ég veit af einum sem þau í hinum hópnum hafa náð en þeir eru örugglega fleiri.“

Auk 52 ára karlmannsins á Akranesi sem hópurinn misþyrmdi segjast þau hafa lamið 29 ára mann í Reykjavík. „Við vildum fá að sjá Snapchattið hans á símanum en hann opnaði bara bankareikninginn sinn. Við erum ekki að sækjast eftir peningum, við viljum ekki peninga út úr þessu, við viljum ekki neitt, við viljum bara að lögreglan og aðrir fái að sjá hvað það eru margir svona menn á landinu því þá kannski verða einhverjar breytingar í dómskerfinu og lögreglan fer að sýna svona málum meiri áhuga.“

Pilturinn segir að barsmíðarnar á 29 ára manninum hafi byrjað í kjölfar þess að ungmennin vildu ná mynd af honum með sér en „hann ýtti þá í hausinn á einum og þá börðum við hann.“

„Sá þriðji var síðan smá þroskaskertur. Við bara töluðum við hann og fórum með hann heim til mömmu hans og útskýrðum fyrir henni hvað var í gangi.“

Maðurinn á Akranesi var með smokka með sér

52 ára gamli maðurinn á Akranesi sem lenti illa í hópnum átti í samskiptum á Snapchat við aðila sem hann taldi vera 14 ára stúlku. Stúlkan sýndi áhuga á því að hitta hann og „totta“ hann. Ekki fór á milli mála í samskiptunum að maðurinn taldi sig vera að tala við 14 ára stúlku.

„Við ætluðum ekki að berja hann, bara mynda hann og tala við hann en svo fundum við á honum tvo smokka. Það hafði verið talað um tott en svo kemur hann með smokka með sér að hitta 14 ára stelpu.“

Árás hópsins á 29 ára manninn fór ekki inn á borð lögreglu enda kærði maðurinn ekki . Hins vegar þurfti að fara með 52 ára manninn á Akranesi á sjúkrahús og því fór málið óhjákvæmilega inn á borð lögreglu.

„Í skýrslutökunum sögðum við lögreglunni frá því að hann hefði verið með smokka á sér en þeir sýndu því engan áhuga. Það eru mörg dæmi um að lögregla er áhugalaus þegar er tilkynnt til hennar um fólk sem vill hitta krakka. Stundum mætir hún ekki einu sinni. Þú getur hringt í lögguna og sagt að það sé kall sem vilji hitta þig og þú sért 14 ára stelpa. Þá spyrja þeir: „Er hann búinn að nauðga þér.“ Þú segir nei og þá segja þeir bara ok og ekkert gerist.“

Lögfræðingur unga mannsins skýtur inn í að lögreglan hafi ekki mannafla og tíma til að sinna þessum málum. Auk þess sé ekkert eftirlit hjá lögreglu með því sem gerist á netinu.

Nákomnar stúlkur hafa lent í barnaníðingum

Pilturinn greinir blaðamanni frá því að tvær stúlkur nákomnar honum hafi orðið fyrir barðinu á barnaníðingum eftir samskipti sem hófust á netinu. Hann segir að öll ungmennin í hópnum hafi einhver slík tengsl við barnaníð og einhver af fimmenningunum hafi sjálf verið beitt kynferðisofbeldi af fullorðnum einstaklingi.

„Það eru allir komnir með nóg af þessu,“ segir hann og telur að hópum af þessu tagi eigi eftir að fara fjölgandi. Hann segir meinta barnaníðinga helst notast við Snapchat, Instagram og Einkamál.is.

Af þessu er Snapchat mest notað og fyrir því eru tvær ástæður. Önnur er sú að Snapchat-samskipti eyðast skömmu eftir að þau hafa átt sér stað og hin að ef tekin eru skjáskot af þeim þá fær viðkomandi tilkynningu um það.

Hann segist ekki hafa yfir að ráða miklu magni af tálbeitusamskiptum við meinta níðinga en þó einhverju. „Þeir hafa flestir eytt spjallinu áður en tókst að vista það.“ Hins vegar hefur hann undir höndum 2-300 netföng fólks sem reyndi að skoða barnaníðsefni eftir að hópurinn hafði sett upp fyrir viðkomandi slíka gildru, en leggja þurfti inn beiðni til að fá aðgang að efninu og tekið var fram að um barnaníðsefni væri að ræða. „Þau gengu í gildru sem við settum upp á Google Drive, þau þurftu að setja inn request til að fá password og þetta var kynnt sem barnaklám. Þarna eru nokkur fyrirtækja e-mail og jafnvel hjá háttsettum starfsmönnum.“

„Það er einhver geðveiki í þeim“

Pilturinn greinir frá því að starfsemi hópsins og svipuð starfsemi annarra ungmenna undanfarin ár hafi leitt í ljós að í samfélaginu sé mikill fjöldi fólks sem vilji eiga í kynferðislegum samskiptum við 14 ára unglinga. Þar séu karlmenn í miklum meirihluta en eitthvað sé samt um konur. „Ég hef séð dæmi um 54 ára kvenmann sem var að spjalla við 14 ára stelpu og bjóða henni að koma og hitta sig og kærastann sinn. Ég veit síðan um einn mann sem birti mynd af sér á Facebook að knúsa 12 ára afabarnið sitt en á sama tíma var hann að tala kynferðislega við 14 ára barn.“

Hann segir að suma daga spjalli hópurinn við allt að 20 manns, oftast á Snapchat en líka eitthvað á einkamál.is og Instagram.

„Þetta er stór hópur af mönnum sem eru að gera þetta. Sumir eru þekktir og í háum stöðum. Þetta er miklu svakalegra en fólk heldur.“

Hann segir að í þessum hópi séu tveir þingmenn. Annar hafi talað kynferðislega við aðila sem hann taldi vera 14 ára stúlku og sent henni mynd (ekki ósiðlega) af sér. Hinn hafi sent mynd af sér í baði, nöktum fyrir ofan mitti, og stungið upp á að 14 ára stúlkan heimsækti hann og gisti hjá honum.

Fyrir þessu eru ekki sannanir því gögnin eyddust eins og tíðkast með Snapchat-gögn. En viðmælandi DV segir að hann og annar piltur í hópnum hafi séð þessi samskipti. Aðspurður hvort hann sé viss um að um umrædda menn hafi verið að ræða, þ.e. þingmenn, hvort einhver hafi ekki getað verið að þykjast vera þeir, bendir pilturinn á að myndirnar sem þeir sendu hafi verið mjög persónulegar og það séu ekki myndir sem þeir hafi birt á netinu, t.d. á Facebook. Ekkert við myndirnar hafi bent til að þær gætu verið falsaðar.

Hann bendir á að mikið sé um að menn biðji unglinga um að senda af sér nektarmyndir, myndir af afturenda, kynfærum eða brjóstum. Hann segist ekkert botna í sjúkleika fullorðins fólks sem biður börn um slíkt eða vill hitta þau í kynferðislegum tilgangi:

„Ég skil ekki hvers vegna þetta fólk hugsar svona, hvað fór rangt í lífi þess. Það er einhver geðveiki í þeim, eitthvað í hausnum sem virkar ekki og þau skilja ekki muninn á aldri. Hérna á Íslandi er þetta stórt mál og ég þekki mjög marga í gegnum foreldra mína, fjölskyldu og vini, sem hafa lent í svona mönnum.“

„Ef ég fæ dóm fyrir að berja barnaníðing þá tek ég því“

Pilturinn ítrekar að hann og félagar hans í hópnum séu að gera það sem þau gera til að vekja athygli lögreglunnar og annarra í samfélaginu á því að fjölmargir fullorðnir Íslendingar leiti eftir kynferðislegum kynnum við börn. Hann segist ekki sjá eftir því að hafa beitt mennina tvo, sem hér hefur verið rætt um, ofbeldi.

En hefur hann áhyggjur af lögreglurannsókninni sem er í gangi og mögulegum dómi?

„Ég vissi alltaf að ef eitthvað færi úr skorðum þá gæti þetta endað svona. En þetta er bara dómur sem ég yrði stoltur yfir að fá. Ef ég fæ dóm fyrir að berja barnaníðing þá tek ég því.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Sjötugur karlmaður ákærður fyrir að stela um 40 milljónum úr dánarbúi móður sinnar – Lagði fimm milljónir inn á dóttur sína

Sjötugur karlmaður ákærður fyrir að stela um 40 milljónum úr dánarbúi móður sinnar – Lagði fimm milljónir inn á dóttur sína
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Skarphéðinn nýr framkvæmdastjóri Sagafilm

Skarphéðinn nýr framkvæmdastjóri Sagafilm
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Hopp harmar skemmdarverkið á Seltjarnarnesi – Afhentu lögreglu upplýsingar um notandann

Hopp harmar skemmdarverkið á Seltjarnarnesi – Afhentu lögreglu upplýsingar um notandann
Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Dagbjört komin í opið fangelsi eftir aðeins 15 mánaða afplánun – Fékk 16 ár fyrir að pynta mann til dauða

Dagbjört komin í opið fangelsi eftir aðeins 15 mánaða afplánun – Fékk 16 ár fyrir að pynta mann til dauða
Fréttir
Í gær

Gagnrýna rússnesk yfirvöld – Gáfu mæðrum fallinna hermanna hakkavél

Gagnrýna rússnesk yfirvöld – Gáfu mæðrum fallinna hermanna hakkavél
Fréttir
Í gær

Er þetta síðasta varnarlínan gegn Trump? – Virkar hún?

Er þetta síðasta varnarlínan gegn Trump? – Virkar hún?
Fréttir
Í gær

Skúli inntur svara um meinta reimleika í Hvammsvík eftir að ferðamenn flúðu í ofboði – „Þetta eru draugar í fleirtölu“

Skúli inntur svara um meinta reimleika í Hvammsvík eftir að ferðamenn flúðu í ofboði – „Þetta eru draugar í fleirtölu“
Fréttir
Í gær

Íbúar fengið nóg og kalla eftir aðgerðum: „Alveg sama hvað þú gerir, alltaf lendirðu á vegg“

Íbúar fengið nóg og kalla eftir aðgerðum: „Alveg sama hvað þú gerir, alltaf lendirðu á vegg“