Margir vinir Ásgeirs H. Ingólfssonar, skálds og menningarblaðamanns, sem lést á laugardagsnótt eftir skammvinna baráttu við lifrarkrabbamein, hafa tjáð sig um brotthvarf hans og kynni sín af honum á Facebook í dag.
Ásgeir hafði skipulagt listviðburðinn „Lífskviða“ sem haldinn verður í Götu sólarinnar á Akureyri kl. 19 í kvöld, í minningu hans. Inni á Facebook-síðu viðburðarins skrifar rithöfundurinn Valur Gunnarsson:
„Kæru vinir. Hræðilegar fréttir. Ásgeir féll frá í nótt. Við vottum fjölskyldu og nánustu aðstandendum dýpstu samúð. Að ósk þeirra og í anda Ásgeirs mun viðburðurinn sem skipulagður hefur verið eigi að síður fara fram á umræddum tíma. Vonumst til að sjá sem flesta og minnast mæts manns. Húsið verður opið frá tvö í dag og upplestur hefst uppúr sjö í kvöld.“
Ásgeir, sem var á 49. aldursári, var búsettur í Prag í Tékklandi síðustu æviárin. Hann fékkst jöfnum höndum við menningarblaðamennsku og ljóðagerð. Ásgeir var ókvæntur og barnlaus.
Ásgeir snertir jafnt við rithöfundum sem fjölmiðlamönnum enda fékkst hann jöfnum höndum við blaðamennsku og skáldskap. Rithöfundurinn Sverrir Norland segir að Ásgeir hafi haft þá köllun að fjalla um menningu á íslensku og hafi fylgt henni eftir:
„Harmafregn að þessi góði drengur sé fallinn frá. Fáir voru jafn staðráðnir í að fylgja þeirri köllun sinni að fjalla um menningu á íslensku. Ég fékk nýlega þær fregnir að hann hefði veikst og ætlaði að senda honum kveðju og þakkir fyrir sitt góða framlag – en hafði ekki enn drifið í því. Og nú er það orðið of seint. Lífið er svo brothætt. Ég votta fjölskyldu hans og vinum innilegustu samúð. Stundum er tilveran svo óumræðilega sorgleg og tekur frá okkur fólk sem hefði átt að fá marga áratugi í viðbót. Takk, Ásgeir, fyrir öll þín skrif í áranna rás. Þú skilur eftir þig stórt skarð.“
Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Samstöðvarinnar, skrifar meðal annars þetta:
„Við Ásgeir vorum málkunnugir. Hann vann efni fyrir Fréttatímann sem ég ritstýrði og hann gerði tilraunir með að útbúa hlaðvarpsþætti undir nafni Menningarsmygls á Samstöðinni. Hann var menningarblaðamaður og gagnrýnandi, auk þess að vera skáld og listamaður. Og vildi sameina þetta þannig að blaðamaðurinn og gagnrýnandinn ætti sinn sess innan listarinnar. Og listin innan blaðamennskunnar. Því miður eru slíkir tilburðir jaðar í íslenskri blaðamennsku, nokkuð sem of fáir stunda og sem of fáir kunna að meta, alla vega af þeim sem stýra fjölmiðlum. Ásgeir vissi, eins og ég held að við vitum öll, að við þurfum að fjalla um samfélagið, manninn og menninguna af listfengi og með sköpunarkrafti, ekki bara vegna þess að það er meira gaman heldur líka vegna þess að aðeins þannig getum við snert einhvern sannleika sem við þurfum svo sannarlega að finna sem allra fyrst.
Ég votta fjölskyldu og vinum Ásgeirs samúð mína. Það hlýtur að vera óbærilega sárt að missa góðan dreng svona snöggt.“
Atli Thor Fanndal blaðamaður segir:
„Ég veit ekki alveg hvað skal segja um að Ásgeir H sé farinn annað en bara hvað hann var ljúfur, góður og skemmtilegur. Hann tók ofsalega vel á móti mér þegar ég bjó í Tékklandi og var bara hin besta sál. Skemmtilegur penni og hló mikið. Stutt í stuðið. Já ég veit ekki alveg hvað maður segir meira. Við erum að missa mikið. Ég held að ég hafi þrátt fyrir að vita hvað hann var veikur þá gerði ég mér ekki grein fyrir því hvað stutt var eftir. Ég votta fjölskyldu og vinum samúð.“
Karen Kjartansdóttir almannatengill ritar þessi minningarorð:
„Ásgeir var góður félagi og einstaklega hlýr maður. Ef mann langaði að ræða listir, góðar kvikmyndir eða sögu, var hann alltaf til taks með skýrar og áhugaverðar hugsanir. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að hann sé farinn. Þegar hann greindi frá alvarlegum veikindum sínum ætlaði ég alltaf að skrifa eitthvað hughreystandi eða gáfulegt. En hvað segir maður þegar gamall vinur fær skyndilega dauðadóm? Mér datt ekkert í hug og örfáir dagar liðu. Og áður en ég vissi af var tíminn sem ég átti til að tjá væntumþykju, samkennd og þakklæti runninn mér úr greipum.
Hugur minn er hjá fjölskyldu hans og öðrum vinum. Ég mun minnast hans sem einstaklega skemmtilegs, fróðs og hjartahlýs manns sem hafði gott lag á að fá fólk til að líta á heiminn með öðrum og jafnvel blíðari augum. Lífskviða, sem hann ætlaði að halda, er falleg leið til að heiðra hann og hans lífssýn.
Við sem þekktum Ásgeir skulum halda áfram að lifa með þeirri hlýju, forvitni og djúpri ást á listum og lífinu eins og hann gerði. Hann er áfram með okkur í þeim hugsunum og minningum sem hann skilur eftir.
Ein ljúf minning sem ég á af honum er þegar hann heimtaði að ég fengi lánaða hjá honum myndina Dirty Pretty Things á dvd, ábyggilega fyrir um 20 árum. Hann var viss um að ég myndi kunna að meta hana, og hafði rétt fyrir sér. Myndin, sem fjallar um myrkan heim líffærasölu og misnotkun á innflytjendum sem eru í leit að betra lífi. Á eftir ræddum við myndina og ég man enn hvað allar kvikmyndir urðu enn áhugaverðari eftir að Ásgeir var búinn að greina þær.“
Sigríður Pétursdóttir kvikmyndafræðingur segir að Ásgeir hafi verið einn besti kvikmyndagagnrýnandi sem Ísland hefur átt:
„Akureyrarveður í borginni þegar þær sorglegu fréttir berast að Ásgeir H. Ingóflsson hafi látist í nótt. Hann var einn besti kvikmyndagagnrýnandi sem Ísland hefur átt, með ótrúlega yfirsýn, ekki síst yfir Evrópskar kvikmyndir. Við kynntumst á fyrirlestri Peter Greenaway árið 2007 og höfðum gaman af að spjalla um kvikmyndir upp frá því. Ég ef ekki tölu á þeim skiptum sem hann sá mynd á einhverri af mörgum hátíðum sem hann sótti og sagði – Sigga, þessi er fyrir þig! Við vorum nefnilega langt í frá með sama smekkinn, en hann var svo næmur að hann vissi samt alltaf hvaða myndum ég yrði hrifin af. Svo sá ég myndirnar, stundum löngu síðar, og í hvert einasta skipti hafði hann rétt fyrir sér. Aftersun, Promising Young Woman og Stúlkan með nálina eru þær sem ég man eftir í fljótu bragði. Ásgeir skilur mikið eftir sig þó hann hafi farið allt of snemma. Merkileg skrif um menningu og svo eru það ljóðin hans. Fjölskyldu hans og vinum votta ég innilega samúð mína.“