Ingibjörg Þóra Haraldsdóttir er helfararsagnfræðingur og hún varar við því að sagan virðist vera að endurtaka sig beint fyrir framan augun á okkur og að það sé undir okkur sjálfum komið að koma í veg fyrir það. Þetta kemur fram í grein hennar í dag þar sem hún rekur hvernig það sem er að gerast í heiminum í dag minnir á þróun sem átti sér stað í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar með uppgangi fasisma.
„Margir hafa tekið eftir því að heimsfréttir seinustu ára eru farnar að minna óþægilega mikið á sögulega viðburði sem gerðust á fyrri part síðustu aldar. Er það eðlileg þróun eða er það sem er að gerast núna í heiminum ekkert nýtt af nálinni? […] Það er mjög mikilvægt að skoða söguna og læra af henni því ef við horfum aldrei til baka, þá mun sagan endurtaka sig. Við þurfum á sama tíma að skilja hvað almenningi þykir hrífandi við popúlisma, fasisma og nasisma.“
Ingibjörg nefnir þær aðstæður sem áttu sér stað í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar, með uppgangi fasisma og nasisma. Heimurinn gekk í gegnum fyrri heimsstyrjöldina þar sem efnavopnum var beitt í fyrsta sinn með tilheyrandi grimmd. Faraldurinn, spænska veikin, gekk yfir heiminn með miklu manntjóni og eymd og kreppan mikla skall á með hruni verðbréfamarkaðarins í Bandaríkjunum. Þetta hafði gífurleg áhrif á þjóðir heimsins, einkum á Vesturlöndum. Fólkið var reitt, tortryggið gagnvart stjórnvöldum og í raun bara frekar búið á því eftir öll áföllin og tóku því sumar þjóðir því fagnandi þegar til sögunnar komu sterkir leiðtogar (e. strongman) sem boðuðu betri tíð, betri efnahag og að þjóðir þeirra yrðu frábærar aftur. Þessir leiðtogar máluðu upp mynd af viðráðanlegum óvinum – minnihlutahópum í þjóðfélaginu sem áttu að bera ábyrgð á öllu illu. Þetta var einföld lausn við flóknum vanda og þjóðirnar sem voru orðnar dauðþreyttar á áföllum tóku því, og leiðtogunum, fagnandi.
Heimurinn sá áður óþekkta grimmd í hryðjuverkaárásinni á tvíburaturnana í Bandaríkjunum árið 2001. Nokkrum árum síðar skall á kreppa eftir efnahagshrunið 2008. Nú nýlega gekk yfir faraldur Covid-19. Þetta hefur haft mikil áhrif á heiminn. Fólkið er reitt, tortryggið gagnvart stjórnmálum, komið með nóg af efnahagshremmingum og frekar búið á því. Þjóðernishyggja er aftur farin á flug og menn eins og Vladimir Pútín Rússlandsforseti og Donald Trump Bandaríkjaforseti eru nú við völd. Þeir hafa boðað þjóðum sínum að þeir ætli að gera þær aftur að stórveldum. Pútín vill ná aftur frægð og frama gömlu Sovétríkjanna. Trump vill gera Bandaríkin aftur að mesta stórveldi heims. Þeir hafa báðir blásið í herlúðra gegn viðráðanlegum óvinum innan eigin landamæra. Innflytjendur, flóttamenn, hinsegin og kynsegin fólk, femínistar og aðrir minnihlutahópar. Kjósendur þeirra hafa tekið þessu fagnandi. Kjósendur vilja betri tíð og vilja trúa því að það sé hægt með einföldum skrefum.
Ingibjörg skrifar:
„Hljómar eins og næstu skref séu óumflýjanlega ný heimsstyrjöld, aukin útrýming á þjóðernishópum eða jafnvel kjarnorkustríð. Það gæti vel verið raunin ef fólk neitar að læra af sögunni og neitar að horfast í augu við staðreyndir. En hvað er þá hægt að gera?“
Við þurfum að horfa gagnrýnum augum á allan fréttaflutning, geta greint falsfréttir og popúlíska orðræðu og reyna að skilja betur hvað stjórnmálamenn eru í raun að segja og hvað þeir eru ekki að segja með sínum málflutningi. Gagnrýnin hugsun hefur aldrei verið jafn mikilvæg og núna. Gagnrýnin hugsun og skilningur á sögunni getur leitt okkur út úr þessum ógöngum sem við stöndum frammi fyrir.“
Hún bætir við að almenn mannúð og náungakærleikur skipti máli og hvetur fólk til að hafa umburðarlyndi fyrir þeim sem hafa aðrar skoðanir en maður sjálfur og reyna að skilja hina hliðina líka. Það sé ekki nóg að þekkja söguna ef við ætlum ekki að nýta þekkinguna til að koma í veg fyrir að hún endurtaki sig. Ingibjörg biður fólk að berjast gegn hatri og hatursorðræðu.“
Rétt er að benda á að Ingibjörg kafar í grein sinni dýpra í söguna en í úrdrættinum hér að ofan.