Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur sent frá lokaskýrslu vegna banaslyss sem varð á Vesturlandsvegi, norðan Hvalfjarðar í janúar á síðasta ári. Sjötugur ökumaður fólksbifreiðar lést eftir árekstur við tvær vörubifreiðar. Er það niðurstaða skýrslunnar að slysið megi rekja til þess að ökumaðurinn hafi ekið yfir á rangan vegarhelming eftir að veður versnaði skyndilega og hann missti útsýn úr bifreiðinni vegna hríðarkófs.
Slysið varð með þeim hætti að BMW fólksbifreið var ekið suður Vesturlandsveg við Hvalfjarðarveg norðan Hvalfjarðar. Á sama tíma var tveimur vörubifreiðum ekið úr gagnstæðri átt norður Vesturlandsveg. Í mjúkri hægri beygju var BMW bifreiðinni ekið yfir á vinstri vegarhelming akbrautarinnar utan í hlið fremri vörubifreiðarinnar og eftirvagns sem vörubifreiðin dró. Í framhaldinu lenti fólksbifreiðin
framan á vinstra framhorni aftari vörubifreiðarinnar. Ökumaður fólksbifreiðarinnar, 70 ára karlmaður, lést á slysstað og slasaðist farþegi í bifreiðinni alvarlega.
Tilkynnt var um slysið klukkan 09:48 að morgni. Sjö stiga frost var, vindur 10-12 metrar á sekúndu og éljagangur. Myrkur var og á veginum var snjóþekja og hálka.
Bæði ökumaðurinn og farþeginn í fólksbifreiðinni voru spenntir í öryggisbelti. Bifreiðin var á negldum hjólbörðum og sömuleiðis vörubifreiðarnar.
Vörubifreiðarnar voru töluvert þyngri en fólksbifreiðin og mikil aflögun varð á henni við áreksturinn en miðað við mynd í skýrslunni lagðist vinstri hlið hennar nánast alfarið saman.
Þar sem öryggisloftpúðatölva fólksbifreiðarinnar skemmdist mikið í slysinu var ekki unnt að komast að því hver hraði hennar var. Ökuritar vörubifreiðanna gáfu til kynna að þeim hefði verið ekið á 78 og 72 kílómetra hraða á klukkustund.
Í skýrslunni kemur fram að slysið varð skammt frá nyrðri gatnamótum Vesturlandsvegar og Hvalfjarðarvegar og var frárein hægra megin
við eystri akrein (akrein til norðurs) að Hvalfjarðarvegi. Vegurinn var með bundnu slitlagi og með eina akrein í hvora átt. Hámarkshraði á veginum var 90 kílómetrar á klukkustund. Eftir miðju vegarins var óbrotin lína. Óbrotin kantlína var beggja vegna akbrautarinnar
sem markaði þann hluta akbrautarinnar sem ætlaður var ökutækjum.
Sérstaklega er tekið fram að á þessum vegarkafla hafi ekki verið fræstar rifflur í yfirborðið eftir miðlínu vegar eða meðfram vegkanti en þar sem yfirborð vegar var malbik hafi því verið mögulegt að notast við rifflur.
Í skýrslunni kemur fram að samkvæmt vitnisburði farþega fólksbifreiðarinnar hafi gengið á með éljum en vegur auður og þurr skömmu fyrir slysið. Þegar bifreiðin hafi verið við að mæta fremri vörubifreiðinni þá hafi allt í einu skollið á hvítt hríðarkóf, útsýn horfið og bifreið þeirra farið utan í vörubifreiðina. Taldi farþeginn að bifreiðin hafi verið á 70 kílómetra hraða á klukkustund.
Samkvæmt vitnisburði ökumanns fremri vörubifreiðarinnar var ekkert athugavert við aksturslag fólksbifreiðarinnar áður en hún lenti aftarlega á bifreið hans, síðan á eftirvagninum og í kjölfar þess á aftari vörubifreiðinni.
Ökumaður aftari vörubifreiðarinnar sagðist ekki hafa tekið eftir fólksbifreiðinni fyrr en hann sá hana hafna utan í fremri vörubifreiðinni og þá hafi hann hemlað.
Ökumaður bifreiðar sem ók á eftir vörubifreiðunum sagðist hafa séð fólksbifreiðina missa veggrip og rekast á fremri bifreiðina og síðan þá aftari.
Fram kemur að lokum að Vegagerðin hafi lokið við að fræsa rifflur milli akreina á þessum vegarkafla. Rannsóknarnefnd samgönguslysa ítrekar einnig mikilvægi þess að þegar hætta sé á að veður eða færð skerði umferðaröryggi sé mikilvægt fyrir ökumenn að kynna sér vel aðstæður á akstursleið áður en haldið sé af stað, til að mynda á vefsvæðinu umferdin.is.
Skýrsluna í heild er hægt að nálgast hér.