Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, minnist þess að í dag eru 20 ár frá því að SUS (Samband Ungra Sjálfstæðismanna) sendi frá sér ályktun þar sem þess var krafist að lagalegri mismunun á grundvelli kynhneigðar yrði hætt. Jafnrétti fyrir lögum sé grunnstef í Sjálfstæðisstefnunni.
„Þessi ályktun og smá átak sem við fórum í kjölfarið var eitt af því sem ég var ánægðastur með í starfi sem annar varaformaður SUS á sínum tíma,“ segir Friðjón í færslu á samfélagsmiðlum í dag.
Segir hann að SUS-liðar hafi haldið og tekið þátt í fundum og ráðstefnum um málefnið sem og ýtt á þetta í samtölum við þingmenn.
„Því fer fjarri að ég haldi að okkar lóð á vogarskálarnar hafi riðið einhverjum baggamun, en allt telur,“ segir Friðjón. „Allir eiga að vera jafnir fyrir lögum er grunnstef bæði Sjálfstæðisstefnunnar og frjálshyggjunnar.“
Friðjón segir að þessi minning dragi fram hversu margt hafi breyst til batnaðar á þessum 20 árum. En einnig hvað það sé svekkjandi að réttindabarátta hinsegin fólks skuli enn vera verkefni. Til dæmis að það hafi ekki verið fyrr en í júlí á þessu ári sem hommum leyfist að gefa blóð.
„Það er sérstaklega svekkjandi að eftir að við vorum framarlega í að hætta aðgreiningu á grundvelli kynhneigðar skulum við hafa rekið lestina meðal Evrópuþjóða í þessu máli,“ segir Friðjón. „En við gleðjumst yfir góðri minningu og því að frelsi einstaklinganna sé meira í dag en fyrir tveimur áratugum.“