Donald Trump forseti Bandaríkjanna hefur aldrei farið leynt með það að hann telji sitt land greiða of mikið af þeim kostnaði sem fer í að halda úti varnarsamstarfinu undir merkjum Atlantshafsbandalagsins (NATO) og þar með til varna annarra aðildarríkja. Hefur hann oft krafist þess að önnur aðildarríki bandalagsins taki á sig meira af kostnaðinum og auki útgjöld sín til varnarmála. Almennt hefur verið miðað við tvö prósent af vergri landsframleiðslu en í ræðu fyrr í dag fór hann fram á að þetta hlutfall yrði fimm prósent. Fyrir Ísland, sem eitt aðildarríkja NATO, myndi það þýða að útgjöld ríkisins til varnarmála yrðu rétt um 216 milljarðar króna sem myndi þýða verulega hækkun útgjalda til þessa málaflokks.
Trump fór fram á þetta þegar hann ávarpaði árlega ráðstefnu Alþjóðaefnahagsráðsins, World Economic Forum, sem fram fer um þessar mundir í Davos í Sviss, fyrr í dag. Forsetinn notaði raunar orðið biðja (e. ask) í ræðu sinni en hann hefur hingað til ekki verið þekktur fyrir að gefa mikið eftir af því sem hann fer fram á og því má færa rök fyrir því að hér sé ekki um vinsamlega beiðni að ræða heldur kröfu.
Í ræðu sinni sagði Trump (í þýðingu DV):
„Samtímis því sem að við komum aftur á almennri skynsemi í Bandaríkjunum munum við bregðast hratt við til að auka styrk, frið og stöðugleika erlendis. Ég ætla líka að biðja öll aðildarríki NATO að auka útgjöld til varnarmála upp í fimm prósent af vergri landsframleiðslu, sem er hlutfallið sem hefði átt að miða við fyrir mörgum árum síðan. Það var aðeins tvö prósent og flest ríkin borguðu það ekki þar til ég tók við. Ég krafðist þess að þau borguðu, sem þau gerðu, vegna þess að Bandaríkin voru raunverulega að borga mismuninn á þeim tíma og það var ósanngjarnt gagnvart Bandaríkjunum.“
Þarna er Trump að vísa til fyrri forsetatíðar sinnar frá 2017-2021 en þá kom hann því skýrt á framfæri að önnur aðildarríki NATO væru ekki að greiða nægilega mikið til varnarmála og krafðist þess að þau myndu hækka útgjöld sín til málaflokksins upp í lágmark tvö prósent af vergri landsframleiðslu. Þetta er í dag hið almenna viðmið NATO um útgjöld til varnarmála.
Nú telur Trump tvö prósent ekki nægilega mikið en þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem forsetinn setur fram þessa kröfu um að viðmiðið verði hækkað í fimm prósent en hann gerði það á fréttamannafundi um tveimur vikum áður en hann tók formlega við embættinu.
Flest aðildarríkja NATO hafa hækkað útgjöld til varnarmála síðan Rússland réðst inn í Úkraínu 2022. Nú nær meirihluti þeirra tveggja prósenta viðmiðinu en ekkert þeirra, þar með talið Bandaríkin sjálf, eyða fimm prósentum, eða meira, af vergri landsframleiðslu í varnarmál.
Ljóst er að Ísland nær ekki tveggja prósenta viðmiðinu en sumir íslenskir stjórnmálamenn, til að mynda Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, sem lét af embætti utanríkisráðherra í síðasta mánuði, hafa sagt nauðsynlegt að íslenska ríkið auki útgjöld til varnarmála.
Þegar skoða á hversu mikið íslenska ríkið eyðir í varnarmál fer það eilítið eftir hvað miðað er við. Í fjárlögum ársins 2025 kemur fram að framlög til samstarfs um öryggis og varnarmál verði 6,8 milljarðar króna og í fylgiriti með fjárlögunum er þessi útgjaldaliður einfaldlega kallaður varnarmál. Framlag til stofnunarinnar NATO er 213 milljónir en það er flokkað undir samingsbundin framlög vegna alþjóðasamstarfs.
Þessir útgjaldaliðir heyra undir utanríkisráðuneytið en inn í þessum tölum er hins vegar ekki rekstur Landhelgisgæslunnar sem gegnir stóru hlutverki við varnir hins herlausa Íslands, til að mynda með ratsjáreftirliti og við að verja landhelgina, en hún heyrir undir dómsmálaráðuneytið. Framlög til hennar í fjárlögunum eru 8,2 milljarðar króna.
Hagstofan hefur ekki gefið út tölur um hversu mikil í heild verg landsframleiðsla var á árinu 2024 en árið 2023 var hún 4.321 milljarður króna. Fimm prósent af þeirri upphæð eru 216 milljarðar en tvö prósent eru 86,4 milljarðar.
Séu þessir útgjaldaliðir lagðir saman verður því ljóst að íslenska ríkið er töluvert frá því að uppfylla tvö prósent viðmiðið, hvað þá hið nýja fimm prósent viðmið Bandaríkjaforseta. Eigi síðarnefnda viðmiðið að nást þyrfti íslenska ríkið því að meira en tífalda útgjöld til varnarmála.