fbpx
Mánudagur 03.febrúar 2025
Fréttir

Fékk lán í rekstrarerfiðleikum og afsalaði fasteign til eiginkonunnar – Sýknuð af kröfu um tæpar 14 milljónir vegna gjafagjörnings

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 23. janúar 2025 18:23

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kona nokkur höfðaði mál á hendur konu búsettri í Reykjavík og krafðist þess að rift yrði þeirri ráðstöfun eiginmanns konunnar í Reykjavík að afsala 50% eignarhluta sínum í fasteign þeirra til eiginkonunnar með afsali, og að eiginkonunni yrði gert að greiða 13.548.763 kr. til þrotabús eiginmannsins.

Fékk lán vegna rekstrarerfiðleika

Atvik málsins voru þau að árið 2020 millifærði stefnandi í fjórum millifærslum 9 milljónum inn á bankareikning eiginmanns stefndu. Í kjölfarið risu upp deilur milli þeirra um endurgreiðslu á 7 milljónum, en óumdeilt var þeirra á milli að 2 milljónir voru gjöf konunnar til mannsins vegna rekstrarerfiðleika sem fyrirtæki hans glímdu við vegna kórónuveiruheimsfaraldursins. 

Konan höfðaði á endanum mál sem hún vann og var maðurinn dæmdur til að endurgreiða henni 7 milljónirnar. Eftir að sá dómur féll lét konan gera fjárnám hjá manninum til greiðslu skuldarinnar, og var gert árangurlaust fjárnám í eign hans um miðjan mars 2023. Í kjölfarið krafðist konan þess að bú mannsins yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Fyrsti skiptafundur var haldinn í september 2023 og var krafa konunnar um 7 milljónir eina krafan sem lýst var í þrotabúið.

Sagði manninn hafa reynt að koma fasteign sinni undan

Gögn í þessu máli sem hér um ræðir sýndu að maðurinn afsalaði 50% eignarhluta sínum í fasteign hans og eiginkonu hans til eiginkonunnar. Kaupverðið skyldi greitt með yfirtöku mannsins á áhvílandi lánum, sem voru í skilum þegar afsalið var gefið út. 

Stefnandi í þessu máli og jafnframt kröfuhafi þrotabús eiginmannsins óskaði eftir að halda uppi hagsmunum fyrir þrotabúið, lýsti yfir riftun á afsalinu til stefndu (eiginkonunnar) og höfðaði í kjölfarið málið sem hér um ræðir.

Stefnandi byggði á því að með afsalinu hefði eiginmaðurinn verið að reyna að koma eign sinni undan og þar með að komast undan því að hægt væri að ganga að eign hans til greiðslu á 7 milljón króna kröfunni. Byggði stefnandi á því að rifta mætti afsalinu samkvæmt heimild í lögum um gjaldþrotaskipti, ljóst hafi verið á þeim tíma sem maðurinn gekk frá afsalinu að hann væri ógjaldfær, hann búi ásamt eiginkonu sinni í húsinu og ljóst sé að þau hafi bæði vitað af kröfunni og að maðurinn væri ógjaldfær. Eiginkonan sé jafnframt stofnandi að fyrirtæki mannsins, eigi hluta af því og sé skráð framkvæmdastjóri og hafi því vitað að lánið var vegna rekstrarerfiðleika. Henni hafi verið kunnugt um öll atvik málsins og aðdraganda þess að hún skrifaði undir afsalið. Augljóst sé að eignayfirfærslan teljist gjöf og eiginmaðurinn aðeins verið að reyna að komast undan að greiða stefnanda tilbaka.

Krafðist tæpra 14 milljóna greiðslu frá stefndu

Í dómnum er farið ítarlega yfir áhvílandi veðskuldir á eigninni, hvenær stofnað var til þeirra og hver stofnaði til þeirra og í hvaða tilgangi. Taldi stefnandi augljóst að eiginkonan hefði ekkert greitt fyrir eignarhluta eiginmannsins.

Stefnandi krafðist þannig að stefndu, eiginkonunni, yrði gert að greiða til þrotabús eiginmannsins alls 13.548.763 kr., sem var höfuðstóllinn 7 milljónir króna, dæmdur málskostnaður, kostnaður stefnanda vegna skipta, skiptakostnaður skiptastjóra og dráttarvextir.

Eiginkonan krafðist sýknu

Eiginkonan, sú stefnda í málinu, krafðist sýknu í málinu. Í málflutningi sínum benti lögmaður hennar, Sævar Þór Jónsson, á að þau hjónin hefðu skrifað undir afsalið 1. mars 2021 og eignayfirfærsla farið fram þann dag og skuldbundið hjónin. Engu skipti þó að afsalinu hefði ekki verið þinglýst fyrr en 15. mars sama ár. Frestdagur við gjaldþrotaskipti eiginmannsins hafi verið 14. mars 2023 og sé því ráðstöfun eignarinnar með afsali utan tveggja ára tímamarka sem gjaldþrotalög heimila riftun gjafagerninga. Fallist dómari í málinu ekki á það, þá krafðist stefnda þess að varakrafa stefnanda sé heldur ekki upplyllt, þar sem stefnda hafi ekki notið ávinnings af umræddri ráðstöfun eignarhluta eiginmannsins Ekki verði séð að yfirtaka á veðkröfum í tengslum við fasteignakaup feli í sér augðun eða gjöf í skilningi ákvæðisins.

Benti stefnda á að enginn veðhafi hefði gert athugasemd við söluna, og yfirteknar skuldir hafi verið gerðar upp með endurfjármögnun eiginkounnar árið 2022 og 2023. 

Benti stefnda einnig á að stefnandi höfðaði ekki dómsmál á hendur eiginmanninum fyrr en liðnir voru 15 mánuðir fra ráðstöfun eignarinnar með afsalinu án þess séð verði að afsakanlegar ástæður hafi verið fyrir þessu drætti. 

Eiginmaðurinn hafi ekki haft neina ástæðu til að ætla að fjárhagur hans stefndi í þrot og það hafi ekki orðið fyrr en stefnandi gerði árangurslaust fjárnám hjá honum sem varð grundvöllur gjaldþrotabeiðnar. 

„Yrði fallist á þennan málatilbúnað stefnanda væri eiginmaðurinn eflaust sá fyrsti í réttarsögunni til að koma eign sinni undan áður en formlegar innheimtuaðgerðir hófust.  Ekki sé að finna neitt fordæmi í dómasafni Landsréttar eða Hæstaréttar þar sem álíka röksemdum hafi verið teflt fram og sé það skiljanlegt þar sem þær halda engu vatni.“ 

Ítarlega farið yfir hvort eiginmaðurinn var ógjaldfær eða ekki

Í dómnum er einnig ítarlega farið yfir ógjaldfærni eiginmannsins, bæði í málatilbúnaði stefnanda og stefndu. Í málatilbúnaði þeirrar síðarnefndu segir að hann hafi verið í rekstri, átt hlutafjáreign í félögum í rekstri, ökutæki, innistæður á bankareikningum, og verið með uppgefnar launatekjur. Lán sem hvíldu á húsinu hafi verið í skilum þegar afsalið var undirritað, og aðeins hafi verið gert eitt árangurslaust fjárnám hjá honum, vegna kröfu stefnanda. 

Sagðist ekki hafa neina vitneskju um fjármál eiginmannsins

Eiginkonan bar því einnig við að skilyrði um grandsemi væri ekki fullnægt. Hún hafi enga vitneskju haft um fjárhagsmál milli eiginmanns síns og stefnanda eða umrætt innheimtubréf sem hafi ekki einu sinni verið birt þegar hún tók við eigninni. Sömuleiðis hafi stefnda enga innsýn haft í rekstur félagsins sem eiginmaður hennar sé í forsvari fyrir enda hafi skráning hennar sem framkvæmdastjóra eingöngu verið til málamynda. Í félaginu sé fjölskipuð stjórn sem fari með öll málefni félagsins og sjái um daglegan rekstur. Fyrir utan hina umdeildu fasteign hafi hjónin ekki komið sér upp sameiginlegum eignum á hjúskapartíma, fjárhagur þeirra sé að mestu aðskilinn og þau séu ekki með sameiginlega bankareikninga. 

Til vara krafðist stefnda þess að ef skilyrði væru talin til riftunar afsalsins að krafa stefnanda yrði lækkuð umtalsvert, persónulegur kostnaður stefnanda og kostnaður skiptastjóra væri ekki eiginlegt tjón þrotabúsins.

Þinglýsing skilyrði gagnvart þriðja aðila

Dómari taldi í niðurstöðu sinni að tímafresturinn um tveggja ára reglu til riftunar gjafagernings, afsalsins, hefði ekki verið liðinn. Til þess að eignayfirfærslan hefði skuldbindingargildi gangvart þriðja aðila yrði að þinglýsa afsali og væri því tímafrestur miðaður við 15. mars 2021 þegar afsalið var lagt inn til þinglýsingar. Tímafresturinn samkvæmt ákvæðinu var því ekki liðinn á frestdegi 14. mars 2023. 

Stefnandi bar hallann á því að markaðsvirði eignarinnar lá ekki fyrir 

Við mat á hvort að um gjöf hafi verið að ræða þar sem fullt endurgjald hafi ekki komið fyrir með yfirtöku áhvílandi veðlána sagði dómari að ekkert mat lægi fyrir í málinu um virði fasteignarinnar eða markaðsvirði hennar. Yrði stefnandi að bera hallann af því.að hafa ekki aflað matsgerðar um raunvirði eignarhlutans. Benti dómari á að stefnda hefði greitt innan við helming af fasteignamati eignarhlutans í lok ársins 2021 

sem getur gefið vísbendingu um að um gjafagerning hafi verið að ræða, a.m.k. að hluta. Þar sem ekkert mat liggur fyrir um raunvirði eignarhlutans á þeim tíma sem afsalið fór fram verður þó ekki með neinni vissu fullyrt um að eignarhlutanum hafi verið ráðstafað á lægra verði en nam raunvirði hans þegar sú ráðstöfun fór fram og þá hversu miklu þar muni. Er þar m.a. haft í huga að áhrifa Covid-19-faraldursins gætti á fasteignamarkaði á þessum tíma. Eins og að framan greinir verður stefnandi að bera hallann af því að hafa ekki aflað mats á raunvirði eignarhlutans.

Stefnda hefði tekið að sér greiða áhvílandi skuldir samkvæmt afsalinu. Sagði dómarinn að 

Jafnvel þótt talið yrði að í afsalinu hefði falist gjafagerningur að hluta verður ráðstöfun ekki rift ef leitt er í ljós að þrotamaðurinn hafi þá verið gjaldfær og það þrátt fyrir afhendinguna. Sönnunarbyrði um gjaldfærni samkvæmt lagaákvæðinu hvílir á stefndu og er það mat dómsins að hún hafi sýnt fram á að eiginmaður hennar hafi verið gjaldfær á þeim tíma sem afsal eignarhlutans fór fram.

Stefnanda bar að sanna að ráðstöfun eiginmannsins væri ótilhlýðileg

„Við mat á því hvort afsal eignarhlutans til stefndu hafi verið ótilhlýðileg ráðstöfun samkvæmt 141. gr. gjaldþrotalaga þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt, þar á meðal skilyrðið um að þrotamaður hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar. Sönnunarbyrði fyrir ógjaldfærni þrotamanns ber sá sem krefst riftunar, í þessu tilviki stefnandi.“

Rakti dómari að gögn málsins bæru með sér að þegar eignarhlutanum var afsalað til stefndu í mars 2021 voru engar fullnustugerðir fyrir hendi eða yfirvofandi hjá eiginmanninum. Árangurslaust fjárnám var fyrst gert hjá honum 13. mars 2023, þegar liðin voru tvö ár frá afsalinu, og bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta 14. júní 2023, tveimur árum og þremur mánuðum eftir að afsalið fór fram. Var einungis einni kröfu lýst í búið og það var krafa stefnanda. 

Þá bera gögn málsins það með sér að eiginmaðurinn naut lánstrausts banka í nóvember 2022 þegar hann gaf út ásamt stefndu tvö ný veðskuldabréf samtals að fjárhæð 53.000.000 króna. Samkvæmt skattframtölum sem liggja fyrir í málinu var maðurinn á árinu 2021 þátttakandi á vinnumarkaði, átti hlutafjáreign í félögum í rekstri, átti ökutæki og innstæður á bankareikningum, auk þess sem sýnt hefur verið fram á í gögnum málsins að lán sem voru áhvílandi á eigninni voru öll í skilum á afsalstíma. Voru þannig engin vanskil til staðar á tíma ráðstöfunar, auk þess sem ekki hefur verið sýnt fram á vanskil lána síðar. Hins vegar er ljóst að félög sem eiginmaðurinn var í forsvari fyrir og störfuðu í ferðaþjónustu áttu í rekstrarerfiðleikum vegna Covid-19-faraldursins og aðgerða tengdra honum og virðast þessir erfiðleikar félaganna hafa verið tilefni lánveitinga stefnanda til mannsins. Eru ekki skilyrði til annars en að telja að erfiðleikar félaganna hafi verið tímabundnir, auk þess sem ekki hefur verið sýnt fram á að maðurinn hafi sjálfur verið ógreiðslufær þótt félögin hafi átt í rekstrarerfiðleikum. 

Að öllu framangreindu virtu taldi dómari skilyrði 2. mgr. 131. gr. og 141. gr. gjaldþrotalaga fyrir riftun afsalsins ekki uppfyllt og kmi því ekki til álita að taka afstöðu til greiðsluskyldu stefndu samkvæmt 142. gr. laganna. Var stefnda, eiginkonan, því sýknuð af öllum kröfum stefnanda.

Dóminn má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Allsherjar uppnám á nefndarfundi í borginni – Ásakanir um geðþóttavald og lögbrot

Allsherjar uppnám á nefndarfundi í borginni – Ásakanir um geðþóttavald og lögbrot
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Haukur ákærður fyrir manndrápstilraun gegn leigubílstjóra sem braut á ungri stúlku – „Þarna eru lögreglumenn að ljúga upp á borgara“

Haukur ákærður fyrir manndrápstilraun gegn leigubílstjóra sem braut á ungri stúlku – „Þarna eru lögreglumenn að ljúga upp á borgara“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Borgaði 5.720 krónur fyrir miðborgarbakkelsi sem smakkaðist ekki sem nýtt – Klassíski blái gúmmíhanskinn gerði útslagið

Borgaði 5.720 krónur fyrir miðborgarbakkelsi sem smakkaðist ekki sem nýtt – Klassíski blái gúmmíhanskinn gerði útslagið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hætta á snjóflóðum á suðvestanverðum Vestfjörðum – Hugsanlega rýmt

Hætta á snjóflóðum á suðvestanverðum Vestfjörðum – Hugsanlega rýmt
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ógnaði ökumanni með hnífi við Dalshraun

Ógnaði ökumanni með hnífi við Dalshraun
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Flugslysið hörmulega: Ákvað að fara fyrr heim til að komast á stefnumót með kærastanum

Flugslysið hörmulega: Ákvað að fara fyrr heim til að komast á stefnumót með kærastanum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Kristinn Rúnar fékk loksins greiningu eftir sjö ára þrautagöngu – „Líkaminn var bókstaflega að öskra á hjálp“

Kristinn Rúnar fékk loksins greiningu eftir sjö ára þrautagöngu – „Líkaminn var bókstaflega að öskra á hjálp“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ljósleiðari rofnað í tvígang í Húnavatnssýslum á skömmum tíma – Þungar áhyggjur

Ljósleiðari rofnað í tvígang í Húnavatnssýslum á skömmum tíma – Þungar áhyggjur