Breska og írska veðurstofan hafa gefið út viðvaranir á stórum svæðum og er til dæmis rauð viðvörun í gildi um allt Írland á morgun.
Búist er við því að lægðin, sem fengið hefur nafnið Eowyn, komi upp að ströndum Írlands í fyrramálið og haldi svo áfram yfir Wales, Skotland og England.
„Það hefur verið góður aðdragandi að þessu og spárnar hafa sýnt óðadýpkun lægðar í langan tíma á þessum slóðum. Eina spurningin var hvert hún myndi stefna og nú liggur það nokkurn veginn fyrir. Lægðarmiðjan virðist stefna á norðanvert Írland og ætla að verða dýpri en lengi hefur sést á þessum slóðum,“ segir Einar í samtali við DV og bætir við að fátítt sé að svona lágur þrýstingur sé á þessu svæði.
Einar segir að bresku og írsku veðurstofurnar hafi gefið út langan lista yfir það hvað eigi að varast á meðan óveðrið gengur yfir. Á vef Daily Mail kemur fram að veðurfræðingar tali um „óveður aldarinnar“ og þeir hafi „aldrei séð neitt“ í líkindum við þetta. Á þetta einkum við um Írland þar sem mjög hvasst verður í veðri og mikil úrkoma.
Rauð viðvörun er sem fyrr segir í gildi um allt Írland frá klukkan 7 í fyrramálið til klukkan 14. Þá eru rauðar viðvaranir í gildi á sumum svæðum Skotlands, til dæmis í Glasgow og Edinborg, frá klukkan 10 í fyrramálið til klukkan 17 síðdegis. Segir í frétt Mail Online að spár geri ráð fyrir lægsta loftþrýstingi yfir Skotlandi frá árinu 1982.
Einar segir að lægðin muni svo fara yfir England og mun hún vafalítið hafa mikil áhrif, til dæmis á Manchester-svæðinu. Áhrifin hér á landi verða þó lítil.
„Við fáum engan vind með þessari lægð en við fáum bakka með snjókomu sem lægðin ryður frá sér. Það er eins og við sjáum stundum þegar eru djúpar lægðir á Atlantshafi þá verða áhrifin hér óbein en við sleppum að öllu leyti við lægðina núna,“ segir Einar en hann fer nánar yfir þetta í Facebook-færslunni hér að neðan.
Some crazy wind gusts forecast for Friday morning #StormÉowyn
– West coast Ireland 100-140mph 😬
– Western Isles of Scotland and Irish Sea coasts 90-110mph.🚨 This will be an exceptional storm! pic.twitter.com/KXoNeFVUwr
— Simon King (@SimonOKing) January 23, 2025