Kona sem var í starfi hjúkrunarfræðings á Landspítalanum hefur verið ákærð fyrir þjófnað og brot í opinberu starfi.
Meint brot konunnar felst í því að hafa á tímabilinu 9. september 2021 til 28. febrúar 2022, á réttar- og öryggisgeðdeild Landspítalans við Hringbraut í Reykjavík, stolið úr lyfjaskáp samtals 21 töflu af bensódíazepin lyfinu Temesta (Lorazepam). Konan var þá starfandi á deildinni.
Brot konunnar er talið varða 1. málsgrein 244. greinar almennra hegningarlaga, en þar segir: „Þjófnaður á fjármunum eða orkuforða varðar fangelsi allt að 6 árum.“
Í 138. grein almennra hegningarlaga er síðan kveðið á um brot opinberra starfsmanna í starfi og segir þar: „Nú hefur opinber starfsmaður gerst sekur um refsilagabrot með verknaði, sem telja verður misnotkun á stöðu hans, og við því broti er ekki lögð sérstök refsing sem broti í embætti eða sýslan, þá skal hann sæta þeirri refsingu, sem við því broti liggur, en þó svo aukinni, að bætt sé við hana allt að helmingi hennar.“
Málið verður þingfest við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 27. janúar næstkomandi.