Greint var frá því árið 2022 að fasteignafélagið Eik ætlaði að kaupa Lambhaga á 4,2 milljarða króna, en ekkert varð af kaupunum og segir Hafberg að ákveðin ástæða sé fyrir því.
„Það varð ekkert af því enda voru grallarar á bak við það tilboð. Vaxa, samkeppnisaðili minn, vildi í raun bara komast í bókhaldið. Eik hafði hug á eignunum en Vaxa sagðist vilja kaupa reksturinn,“ segir Hafberg í viðtalinu og skýtur meira á samkeppnisaðila sinn.
„Þeir eru að selja eitthvert smáræði af salati með sama mannskap og við, en eru duglegir að leita í allskonar sjóði og styrki frá Rannís og fleiri aðilum til að framleiða salat á mörgum hæðum, sem ekki er hægt nema með meðgjöf. Þeir hafa fengið hundruð milljóna og segjast vera að þróa eitthvað, en það er engin þróun í gangi,“ segir Hafberg í viðtalinu.