Ymur Art Runólfsson, 39 ára karlmaður, hefur verið ákærður fyrir manndráp og stórfellt brot í nánu sambandi fyrir að myrða móður sína, Halldóru Bachmann Sigurðardóttur, á heimili hennar í Þangbakka í Breiðholti þann 24. október 2024. Halldóra var 68 ára gömul.
Ymur var handtekinn sama dag og úrskurðaður í gæsluvarðhald.
Árið 2006 var hann ákærður fyrir tilraun til manndráps eftir að hafa stungið föður sinn í bakið. Ymur var sýknaður vegna ósakhæfis í því máli.
Faðir Yms lést í mars árið 2022.
Ymur Art var skírður Sigtryggur Máni, en breytti um nafn sitt einhvern tíma eftir byrjun árs 2022 og breytti því í þjóðskrá.
DV ræddi við foreldra mannsins árið 2006 í kjölfarið á árásinni á föðurinn. Sögðu þau að sonurinn hefði verið í helgarleyfi frá Kleppi þegar faðir hans tók eftir því að að sonur hans væri hugsanlega undir áhrifum fíkniefna eða áfengis. Hugðist hann hringja í konu sína hvort hún vissi eitthvað um ástand sonarins, en sonurinn hafi viljað símann og elt föðurinn um heimili hans.
Feðgarnir tókust síðan á inni í svefnherbergi og faðirinn greindi frá því fyrir dómi að hann hefði dottið í gólfið og sonurinn kýlt hann ítrekað. Faðirinn sagð að honum hefði tekist að sparka í klof sonarins og komist undan og hlaupið fram á gang en séð að sonurinn hefði farið inn í eldhús og farið að róta í skúffum. Faðirinn sagðist hafa reynt að hlaupa í burtu, en verið rétt kominn fram á gang þegar hann var stunginn af syni sínum. Fyrir dómi kom fram að sonurinn hefði áður sýnt foreldrum sínum ógnandi hegðun með hnífum.
Sonurinn játaði verknaðinn, en sagði hafa reiðst orðum föður síns. Sonurinn var metinn ósakhæfur og sagði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur að á verknaðarstundu hafi sonurinn verið alls ófær um að stjórna gjörðum sínum. Var honum gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun.
Í viðtalinu við DV sagðist faðirinn hafa náð sér að fullu eftir árásina. Hjónin sögðu son þeirra vera veikan frá unga aldri og veikindi hans hafa heltekið fjölskylduna. Sögðust foreldrarnir hafa fyrirgefið syni sínum árásina og heimsækja hann reglulega á Sogn. Þeir feðgar hafi talað saman og sonurinn áttað sig á verknaðinum. Sögðust þau vona að sonur þeirra myndi ná sér og vonandi fara aftur út í samfélagið.
Ymur hlaut árið 2022 tveggja ára dóm fyrir að ráðast á móður sína. Sat hann inni allan afplánunartímann og losnaði úr fangelsi haustið 2024.
Ymur var ákærður fyrir tilraun til manndráps fyrir árásina gegn móðurinni, kynferðisbrot gegn unglingsstúlku, og brot gegn valdstjórninni. Dómurinn heimfærði brotið gegn móður hans sem stórfellda líkamsárás.
Fjallað var um málið í frétt Fréttablaðsins 1. nóvember 2022. Þar kom fram:
Hótaði lífláti, kýldi, sparkaði og tók hálstaki
Ymur var ákærður fyrir að slá slá móður sína ítrekað með krepptum hnefum í líkama, andlit og höfuð, sparka í hana og taka hana ítrekað hálstaki þannig að hún missti meðvitund. Þá var hann jafnframt ákærður fyrir að hóta henni ítrekað lífláti.
Í ákærunni segir að maðurinn hafi með þessu ógnað lífi, heilsu og velferð móður sinnar, en fram kemur að hún hafi hlotið áverka á hálsi, andliti, höfði, handleggjum, hendi, fótlegg og brjóstkassa. Og þá hafi hún jafnframt hlotið punktblæðingar í augum.
Útför föðurins ástæða ágreiningsins
Faðir hans lést tveimur dögum áður en árásin átti sér stað og sagði Ymur að hann væri ósáttur með að móðir hans hefði sagt að eiginmaður hennar fengi bálför. Þrátt fyrir það hafði hann farið með henni og þau keypt fallegt ker.
„Allt hefði virst vera í lagi en um kvöldið hefði hann brjálast og sagt að hún væri að eyðileggja það að maður geti beðið til pabba því pabbi verður að dufti.“ segir í dómnum.
Þá segir konan að sonurinn hafi kastað vatnsbrúsa í gluggann fyrir aftan hana og hún hafi orðið dauðhrædd. Þá hafi hann sagt: „Ég fylgist með þér. Ef þú hreyfir þig þá drep ég þig. Ég skal drepa þig. Ég hika ekki við að drepa þig.“ og síðan ráðist á hana og sagt: „Ég drep þig, mundu það, ég drep þig ef hann verður látinn í brennsluofn, ég mun drepa þig.“
Sóknarprestur tilkynnti árásina
Árásin á að hafa staðið yfir í hátt í klukkustund, en að henni lokinni hringdi sonurinn í sóknarprestinn til að tilkynna honum að faðirinn yrði jarðaður. Presturinn hafi áttað sig á því að ekki væri allt með feldu og beðið um að tala við móðurina. Hann hafi fengið að tala við hana og ákveðið að spyrja hana einungis já og nei-spurninga, svo sonurinn myndi ekki átta sig á því hvað hún væri að segja.
Í áhættumati lögreglu í málinu segir að maðurinn sé talinn líklegur til að beita frekara ofbeldi. Hann eigi sér sögu um langvarandi ofbeldishegðun sem ítrekað hafi beinst að foreldrum sínum og því sé mikil hætta talin honum. Töluverðar líkur séu á stigmögnun í ofbeldishegðun hans sem gæti farið út í lífshættulegt. Það gæti beinst að móður hans sem og lögreglumönnum og almennum borgurum.
Þá kemur fram að niðurstaða í geðrannsókn á manninum hafi komið fram í júlí á þessu ári og þar hafi hann verið metinn sakhæfur.
Reyndi að borga og kyssa unglingsstúlku
Maðurinn var jafnframt dæmdur fyrir kynferðisbrot gagnvart fimmtán ára stúlku í október árið 2020. Hann hafi kysst hana á hálsinn, reynt að kyssa hana á munninn og boðið henni peninga.
Hún lýsti því að hún hafi verið ásamt vinkonu sinni í strætóskýli þegar maðurinn kom og fór að tala við þær. Hann hafi boðið þeim vinnu og þær afþakkað, síðan hafi hann knúsað vinkonuna og klipið hana í rassinn. Í kjölfarið hafi vinkonan verið sótt og stúlkan orðið ein eftir.
Hafi verið ógnandi og hún „skíthrædd“
Maðurinn hafi þá haldið áfram að angra hana, og elt hana er hún gekk í burtu frá honum. Þá fór hann í hraðbanka og tekið út tíu þúsund krónur, og síðan neitt hana til að taka við peningunum þrátt fyrir að hún hafi afþakkað. Maðurinn hafi þá beðið hana að koma með sér, og hún ekki þorað annað því hann hafi verið ógnandi.
Hann hafi dregið hana inn í bíl og líkt og áður segir kysst hana á hálsinn og síðan reynt að kyssa hana á munninn, en þá hafi hún ýtt honum frá sér og hann leyft henni það. Í skýrslutöku lýsti stúlkan því að hún hafi verið „skíthrædd“ við manninn.
Maðurinn neitaði sök, en í skýrslutöku sagði hann að þau hafi ekki átt í neinum kynferðislegum samskiptum. Hann sagðist ekki hafa reynt við hana, heldur hafi hann verið „rosalega kammó“. Honum minnti að hún væri sautján ára gömul.
Framburður stúlkunnar þótti trúverðugur og var stöðugur, en framburður mannsins þótti á reiki og var metinn ótrúverðugur.
„Byrjaðu bara að kveðja fjölskylduna þína“
Maðurinn var jafnframt dæmdur fyrir brot gengn valdstjórninni, með því að hóta lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra lífláti. Umræddar hótanir áttu sér stað í lögreglubíl sem var á leið frá Hagkaupum í Skeifunni í mars árið 2022.
Hann hafi sagst ætla að drepa mann, og þegar hann hafi verið spurður nánar út í þau ummæli hafi hann sagt að sá maður væri „pabbi þinn“ og vísaði þar með til föður eins lögregluþjónanna. Í kjölfarið hafi hann sagst ætla að „drepa þá alla“ og síðan bent á lögregluþjónanna, hvern á eftir öðrum og útskýrt að hann ætti við þá. Auk þess hafi hann hótað að tortíma fjölskyldu eins lögreglumannsins, kæmi eitthvað fyrir hann.
Fyrir liggja upptökur úr búkmyndavél lögreglu. Þar heyrist maðurinn til að mynda segja „já ef þú vilt vera dramatískur þá skal ég gera það.“ aðspurður um hvort hann væri að hóta lögreglumönnum lífláti.
„Ég er að drepa ykkur svona og ég fer létt með það.“ er jafnframt haft eftir honum, og síðan „byrjaðu bara að kveðja fjölskylduna þína.“
Líkt og áður segir hlaut maðurinn tveggja ára fangelsisdóm. Þá er honum gert að greiða rúmlega níu milljónir krónur í máls og sakarkostnað. Þó mun ríkissjóður greiða þriðjung upphæðarinnar.
Í júlí árið 2022 þegar Ymur sat í gæsluvarðhaldi vegna árásinnar á móður sína sendi hann beiðni til Fjárlaganefndar Alþingis. Falaðist hann eftir styrk til að halda myndlistarsýningu.
Samkvæmt umsókninni virðist Ymur gera sér grein fyrir stöðu sinni og hvers vegna hann á Litla-Hrauni.
Halldóra opnaði sig um árásina í viðtali sem birtist í Fréttablaðinu 1. nóvember 2022.
„Þetta er það erfiðasta sem ég hef upplifað,“ sagði hún. „Eitt högg í viðbót og búmm, ég hefði dáið.“
„Ég ætla aldrei að leyfa honum að koma nálægt mér aftur. Það eru allir hræddir við hann. Það eru allir í blokkinni hræddir við hann. Ég er drulluhrædd við hann.“
Móðirin sagði að þegar lögreglu og sérsveit hefði borið að garði eftir að Ymur réðst á hana hefði hún spurt lögreglumennina hvort þeir væru með byssu og þeir svarað játandi. „Ég bað þá um að skjóta hann, son minn“ sagði hún og tók fram að lögreglumennirnir hefðu skilið þá afstöðu hennar.