Meintur erlendur fíkniefnasali náði að stinga lögregluna af í verslunarmiðstöðinni Grímsbæ. Þegar hann var gómaður seinna sama dag annars staðar í borginni hæddist hann að lögreglunni.
Maðurinn var dæmdur í gæsluvarðhald til mánaðarloka á föstudag, 17. janúar, í Héraðsdómi Reykjavíkur og var dómurinn staðfestur í Landsrétti í gær, mánudaginn 20. janúar.
Maðurinn kom til landsins 30. ágúst sem ferðamaður. Sagðist hann ætla að ferðast um einsamall og njóta. Ferðin yrði stutt.
Annað kom á daginn. Síðastliðinn fimmtudag var lögregla við eftirlit við Grímsbæ í Fossvogi og kom auga á mann í svartri dúnúlpu, svörtum víðum buxum og með stutt svart hár og skegg. Þegar lögreglan vildi ræða við hann tók hann á rás og stakk lögregluna af.
Seinna sama dag veitti lögregla bíl athygli sem var lögð við Tjarnargötu í miðbæ Reykjavíkur. Mætti lögreglumönnum mikill kannabisfnykur þegar þeir nálguðust bílinn.
Var kauði í bílnum og var handtekinn á staðnum, bæði fyrir að fylgja ekki fyrirmælum og að vera grunaður um sölu fíkniefna. En í mittistösku sem hann bar um sig miðjan mátti finna kannabis, MDMA, kókaín, THC hylki og tóbaksblandað kannabisefni.
„You guys are slow. I was waiting for you,“ sagði maðurinn við handtöku. Játaði hann að hafa dvalið á landinu í 4 eða 5 mánuði.
Annar maður var í bílstjórasætinu og sagðist hann hafa verið að kaupa fíkniefni af hinum fótafráa. Hann sagðist oft hafa gert það.
Við yfirheyrslu degi seinna sagðist maðurinn ekki eiga þau fíkniefni sem á honum fundust. Sagðist hann hafa verið að reykja kannabis með félaga sínum í bílnum. Neitaði hann þá að hafa flúið af vettvangi fyrr um daginn og sagði lögreglumennina ljúga. Sagðist hann búa á íslandi en vildi ekki gefa upp dvalarstað sinn.