Í dómi héraðsdóms kemur fram að árið 2021 hafi lögregla verið með til rannsóknar meint ofbeldisbrot mannsins gegn móður stúlkunnar á þeim tíma þegar þau voru í sambúð.
Lýsti móðirin því í skýrslutöku hjá lögreglu að maðurinn hefði oft rassskellt dóttur þeirra í gegnum tíðina. Bæði þegar þau voru saman og einnig eftir það. Þetta hafi hann gert þegar honum hafi þótt stúlkan vera óþekk, til dæmis neitað að borða matinn sinn eða fara að sofa.
Sagði móðirin að einu sinni þegar stúlkan kom frá honum hafi hún verið með áverka á afturenda, það er greinileg för eftir fingur. Hafi hann þá viðurkennt að hafa rassskellt hana þegar hún átti erfitt með að sofna.
Meðal rannsóknargagna málsins er ljósmynd sem ber með sér að hafa verið tekin umrætt kvöld og varðar það atvik sem ákært var vegna. Var það móðirin sem tók myndina og afhenti lögreglu. Sást mikill roði á afturenda stúlkunnar og þá sérstaklega á annarri rasskinninni.
Í dómnum kemur fram að sama kvöld hafi foreldrarnir átt í samskiptum á samskiptamiðli og var þýðing af skjáskotum úr textaskilaboðum á milli þeirra meðal gagna málsins. Í skilaboðunum hafi maðurinn sagt að honum væri skítsama um hvað henni finnist, hann elski stúlkuna og sé fullur eftirsjár.
Í dómnum, þar sem vísað er í fyrrgreind samskipti, segir:
„Ákærði hafi ekki gert þetta í reiði heldur vegna þess að brotaþoli þurfi að hlusta á foreldra sína. Ef hún vaxi úr grasi og verði ofdekruð stelpa þá muni móðirin ekkert geta gert í því síðar meir. Rassinn á brotaþola hætti fljótlega að vera sár en vissa hennar um að hún verði að hlýða muni vera áfram í huga hennar. Ákærði vorkenni líka brotaþola en hún verði að skilja þetta á endanum en ef hún geri það ekki núna muni hún ekki heldur skilja það í framtíðinni og einn daginn muni hún stjórna móður sinni. Þá segist ákærði ekki ætla að gera þetta aftur en á þessum tíma hafi hann orðið að gera þetta. Ákærði segir einnig að móðir brotaþoli skuli ekki koma með athugasemdir af því að hann ætli ekki að hlusta á hana og hún geti ekki gert neitt sjálf. Þá segir ákærði að brotaþoli jafni sig og á morgun verði engin ummerki. Kannski muni hún loksins skilja þegar foreldrar hennar banna eitthvað og hún þurfi að þekkja einhver mörk.“
Maðurinn neitaði sök fyrir dómi og kvaðst aldrei hafa beitt stúlkuna ofbeldi. Þá sagði hann að móðir stúlkunnar hefði haft aðgang að Facebook-síðu hans og skrifað skilaboð í hans nafni þar sem það líti þannig út að hann hafi verið að viðurkenna ofbeldi gagnvart stúlkunni. Dómari mat framburð föðurins ótrúverðugan og taldi hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem lýst var í ákæru.
Við ákvörðun refsingar var litið til þess að verulegur dráttur varð á rannsókn málsins hjá lögreglu en einnig til þess að brotið beindist gegn barnungri dóttur hans sem átti að njóta umsjár hans, verndar og öryggis.
Ákvörðun um refsingu yfir manninum er frestað og fellur hún niður eftir tvö ár haldi hann skilorð á þeim tíma. Manninum er gert að greiða dóttur sinni 500 þúsund krónur og allan sakarkostnað málsins, rúmar 1,2 milljónir króna.