Jón Ármann Steinsson, útgefandi bókarinnar „Leitin að Geirfinni“, sem Sigurður Björgvin skrifaði, var í viðtali á Bylgjunni í dag. Þar varpaði hann fram stórum fullyrðingum um framgöngu lögreglu í Keflavík í kjölfar hvarfs Geirfinns Einarssonar.
Eins og ítrekað hefur komið fram í fréttum DV telja aðstandendur bókarinnar að Geirfinnur hafi verið ráðinn bani á heimili sínu að kvöldi 19. nóvember árið 1974.
Lögregla hafi hins vegar vísvitandi litið framhjá þessu og spunnið upp tilgátu um að Geirfinnur hafi horfið í kjölfar þess að hann fór til fundar við mann í Hafnarbúðinni í Keflavík. Enginn fundur hafi hins vegar átt sér stað. Lögregla hafi vísvitandi afvegaleitt rannsóknina og þar hafi komið við sögu persónulegir hagsmunir rannsakanda sem hafi verið í of nánum tengslum við það fólk sem kom við sögu við lát Geirfinns.
Heldur Jón Ármann því fram að umræddur rannsakandi hafi átt ástkonu og eignast með henni barn utan hjónabands. Það framferði hans tengist atburðum kvöldsins og valdi því að hann hafi haft hagsmuni af því að sannleikurinn kæmi ekki í ljós, því hann hefði getað misst atvinnu og mannorð.
Er Bylgjufólk spurði Jón Ármann að því hvort hann hefði sannanir fyrir þessu sagðist hann hafa vísbendingar og vitnisburði. Þetta væri hins vegar eitthvað sem yfirvöld yrðu að rannsaka.
Fram kom að Sigurður Björgvin, höfundur bókarinnar, vinnur núna að því að ganga frá svokölluðum 13. kafla bókarinnar, sem er óútgefinn og óbirtur. Sá kafli og meðfylgjandi gögn verða afhent nýjum dómsmálaráðherra, Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, í næstu viku. Mikil vinna sé að velja úr þau gögn sem fylgja eigi kaflanum til ráðherra.