Staksteinar Morgunblaðsins rifja upp þá staðreynd að forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, sendi Donald Trump ekki heillaóskir er hann sigraði í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember.
Halla er ekki á meðal þeirra þjóðhöfðingja sem boðið er til innsetningar Trumps í embætti næstkomandi mánudag. Segja Staksteinar að það sé ekki óeðlilegt, t.d. sé engum öðrum norrænum þjóðarleiðtoga boðið og ekki forsætisráðherra Bretlands, Keir Starmer.
Engu að síður gefa Staksteinar í skyn að það hafi ekki verið skynsamlegt af forsetanum að láta hjá líða að óska Trump til hamingju á sínum tíma, eða eins og segir orðrétt í pistlinum:
„En það var líka eftir því tekið að Halla Tómasdóttir forseti sendi Trump ekki heillaóskir við kjör hans í nóvember. Var það nú skynsamlegt, svona í ljósi þess að Trump ætlar að láta til sín taka á alþjóðavettvangi; maður sem sumir segja að sé hégómlegur?
Allt var í heiminum hverfult fyrir, líka hér á norðurhjara, en embættistaka Trumps mun hafa enn frekari áhrif á alþjóðamál og já, Ísland líka. Þeim mun skrýtnari er værukærð stjórnvalda um afstöðu verðandi Bandaríkjaforseta til síns minnsta bróður og bandamanns.“