Umboðsmaður Alþingis hefur sent frá sér álit í máli konu sem er öryrki. Tryggingastofnun hafði skert örorkubætur hennar hér á landi vegna örorkubóta sem hún hafði fengið í Noregi og úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti þá niðurstöðu. Niðurstaða umboðsmanns er sú að úrskurður nefndarinnar hafi ekki verið í samræmi við lög.
Konan fékk greiðslur frá norsku vinnu- og velferðarstofnuninni (NAV). Tryggingastofnun skerti bótagreiðslur fyrir árið 2019 til konunnar á þeim grundvelli að lífeyririnn norski væru erlendar tekjur og því bæri samkvæmt lögum um almannatryggingar að skerða greiðslur til konunnar. Konan kærði niðurstöðuna til úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Tryggingastofnunar í nóvember 2021. Ári síðar leitaði konan til umboðsmanns vegna málsins.
Í kvörtun sinni vísaði hún til þess að greiðslur frá NAV væru sambærilegar þeim bótum sem greiddar væru hér á landi samkvæmt lögum um almannatryggingar. Norsku bæturnar hafi því samkvæmt lögunum ekki átt að skerða bætur hennar á Íslandi.
Konan flutti til Noregs árið 2009. Hún var þar í vinnu fram til 2014 en þá fór hún í veikindaleyfi. Árið 2018 samþykkti NAV umsókn hennar um örorkubætur og hefur hún þegið þær síðan þá. Ári síðar sótti konan um örorkubætur hjá Tryggingastofnun. Umsóknin var samþykkt.
Í bréfi árið 2021 var konunni tilkynnt að hún hefði fengið of mikið greitt í bætur árið 2019 og var þá vísað til bótanna í Noregi.
Úrskurðarnefnd velferðarmála staðfesti ákvörðunina á þeim grundvelli að lög um almannatryggingar heimiluðu þetta þar sem bæturnar sem konan fékk í Noregi væru sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóði en ekki sambærilegar bótum frá ríkjum sem Ísland hefði gert samninga við og ættu ekki að skerða bætur hér á landi.
Í svörum við fyrirspurn umboðsmanns sagði nefndin meðal annars að greiðslur eins og konan fékk væru þess eðlis að þær tækju mið af fyrri tekjum og væri því ætlað að tryggja viðkomandi framfærslu á grunni tekna sem hann hefði áður haft. Hefðbundinn örorkulífeyrir réðist hins vegar ekki af fyrri tekjum og væri ætlaður til þess að tryggja ákveðna lágmarksframfærslu. Vildi nefndin meina að úrskurður hennar hafi verið fyllilega í samræmi við lög um almannatryggingar.
Í niðurstöðu umboðsmanns Alþingis er ekki tekið undir með nefndinni að bætur frá NAV séu ekki sambærilegar hefðbundnum örorkubótum. Samkvæmt niðurstöðu Evrópudómstólsins geti bætur sem greiddar eru á grundvelli starfstengdra réttinda í einu ríki talist jafngildar bótum sem veittar séu á lögbundnum grundvelli í öðru EES-ríki.
Umboðsmaður vísar sömuleiðis til norskra almannatryggingalaga og segir þau sýna fram á að örorkulífeyri frá NAV sé ekki ætlað að tryggja lífeyrisþegum sömu tekjur og þeir kunni áður að hafa verið með á vinnumarkaði.
Því sé ekki hægt að taka undir það með úrskurðarnefnd velferðarmála að örorkubæturnar sem konan fékk í Noregi séu ekki sambærilegar við örorkubætur sem greiddar séu út hér á landi í samræmi við lög um almannatryggingar. Samkvæmt EES-samningnum hafi norskar örorkubætur sem sambærilegar séu þeim íslensku sama gildi hér á landi og ekki sé heimilt að skerða þær síðarnefndu á grundvelli þeirrar fyrrnefndu. Úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála hafi því ekki verið í samræmi við lög um almannatryggingar.
Umboðsmaður Alþingis beinir því til nefndarinnar að taka mál konunnar upp að nýju óski hún eftir því. Geri hún það fer umboðsmaður fram á að nefndin taki mið af álitinu.
Málið er því nú í höndum konunnar.