Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar ákvað á fundi sínum síðastliðinn föstudag að senda breytingu á aðalskipulagi innan svæðis í bænum sem kallast Vatnsnes til Skipulagsstofnunar til endanlegrar afgreiðslu. Þar að auki samþykkti bærinn að senda tillögu að breyttu deiluskipulagi Hrannargötu 2-4 sem er innan þessa svæðis. Snúast tillögurnar í meginatriðum um að þétta byggð og fjölga íbúðu. Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja benti hins vegar á í sinni umsögn um tillöguna að fráveitumál á svæðinu væru í ólestri og að nauðsynlegt væri að kortleggja líklega mengun í jarðvegi í svæðinu í ljósi þess að þar hafi víðtæk atvinnustarfsemi farið fram í gegnum árin. Reykjanesbær heitir því að bregðast við þessum athugasemdum.
Vatnsnes er svæði sem tilheyrir Keflavíkurhluta Reykjanesbæjar og stendur við sjóinn en þar hefur í gegnum árin verið töluverð atvinnustarfsemi ekki síst í sjávarútvegi og iðnaði. Meðal annars var þar lengi vel olíubirgðastöð. Dregið hefur úr umfangi atvinnustarfseminnar á síðustu árum en þar er þó enn meðal annars starfandi fiskvinnsla og til staðar er töluvert iðnaðarhúsnæði og enn er starfsemi í að minnsta kosti hluta þess. Samkvæmt greinargerð með breytingartillögunum hófst íbúabyggð á Vatnsnesi um miðja síðustu öld en umfang hennar hefur vaxið nokkuð undanfarin ár.
Samkvæmt fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs er umrætt svæði á Vatnsnesi um 18,5 hektarar. Núgildandi aðalskipulag gerir ráð fyrir 600 íbúðum á svæðinu en við breytinguna fjölgar íbúðum í 1250. Fjöldi íbúða mun því tvöfaldast og heildar byggingarmagn eykst. Í tillögunni er, samkvæmt greinargerðinni, gert ráð fyrir að áfram verði um blandaða byggð atvinnustarfsemi, þjónustu og íbúða að ræða. Meginbreytingin er að íbúðum verði fjölgað.
Um iðnaðarstarfsemi á svæðinu segir í greinargerðinni að hún sé almennt víkjandi á svæðinu og heimilt verði að setja frekari kvaðir um starfsemina í deiliskipulagi en áfram verður eins og í gildandi aðalskipulagi miðað við að starfsemin raksi ekki ró með hávaða og lyktarmengun og að umgengni skuli vera í lagi. Starfsemin eigi jafnan að fara fram á almennum vinnutíma á virkum dögum og vera takmörkuð um helgar.
Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja veitti umsögn um tillöguna á meðan hún var á kynningarstigi á síðasta ári. Í umsögninni er meðal annars vísað til þess að á svæðinu hafi verið starfræktar til að mynda fiskvinnslur, bifreiðaverkstæði, olíubirgðastöð og ýmis önnur starfsemi sem sé starfsleyfis- eða skráningarskyld. Mörg fyrirtæki séu enn starfandi á svæðinu og með gild leyfi.
Heilbrigðiseftirlitið segir mikilvægt að sveitarfélagið ráðist í greiningarvinnu og kortlagningu á mengun í jarðvegi á svæðinu áður en frekari uppbygging hefst á íbúðum og öðrum byggingum ætluðum almenningi þar sem sterkar líkur séu á því að mengun finnist í jarðvegi víðsvegar á svæðinu.
Heilbrigðiseftirlitið vísar í umsögninni einnig til þess að það hafi áður bent Reykjanesbæ á að fráveita á svæðinu uppfylli ekki lágmarkskröfur reglugerðar um fráveitur og skólp. Stór hluti skólps á svæðinu renni ómeðhöndlað ýmist rétt út fyrir flæðarmál eða í klettabelti meðfram strandlengjunni í gegnum fjölda útrása. Segir Heilbrigðiseftirlitið að þrátt fyrir beiðni þess hafi Reykjanesbær ekki lagt fram nein gögn um úrbætur.
DV hefur ekki upplýsingar um hvort bærinn hefur lagt fram slík gögn til Heilbrigðiseftirlitsins síðan umsögn þess var lögð fram.
Í lok umsagnarinnar segir Heilbrigðiseftirlitið að í ljósi þess að stækka eigi íbúabyggð á svæðinu sé mikilvægt að áður verði séð til þess að fráveitan á svæðinu uppfylli lágmarkskröfur.
Í greinargerðinni með tillögunni að breyttu aðalskipulagi á Vatnsnesi segir að á svæðinu hafi verið atvinnustarfsemi sem kunni að hafa mengun í för með sér. Gildandi aðalskipulag geri ráð fyrir að á svæðinu verði ekki heimil mengandi starfsemi sem eigi að draga almennt úr mengunarhættu.
Fráveitan uppfylli ekki kröfur reglugerðar um fráveitu og skólp en gildandi aðalskipulag Vatnsnes geri ráð fyrir uppbyggingu fráveitukerfa á skipulagstímabilinu sem anni þörf og uppfylli kröfur en það eins aðalskipulag Reykjanesbæjar gildir til 2035. Í aðalskipulagi bæjarins segir meðal annars um fráveitumál að byggðar verði tvær útrásir fráveitu með dælustöð. Önnur verði í Helguvík en hin í bænum. Hreinsunarstig þeirra verði samkvæmt lögum og reglugerðum en nákvæm staðsetning á þeirri sem á að vera í bænum liggi ekki fyrir og heldur ekki tímaáætlun uppbyggingar. Valkostir norðan við Óssker, sem er skammt frá Vatnsnesi, séu til skoðunar.
Í greinargerðinni með tillögunni að breytingu á aðalskipulagi Vatnsness er ekki vikið að rannsókn á mengun í jarðvegi á svæðinu. Með fundargerð umhverfis- og skipulagsráð frá fundi þess síðastliðinn föstudag eru hins vegar birt svör við þeim athugasemdum sem borist hafa við tillöguna. Í svari við athugasemdum Heilbrigðiseftirlitsins segir að fjalla þurfi um stöðu núverandi fyrirtækja og starfsleyfi þeirra sem aðalskipulagið geri ráð fyrir að séu víkjandi vegna íbúðauppbyggingar. Hugað verði sérstaklega að fráveitumálum og unnin verði könnun á jarðvegi, áður en framkvæmdir hefjist á lóðum, vegna hugsanlegrar mengunnar. Nánari grein er hins vegar ekki gerð fyrir könnuninni í svarinu.