Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, gagnrýnir Guðlaug Þór Þórðarson fyrrverandi umhverfis og orkumálaráðherra fyrir að „belgja sig út“ fyrir árangur í orkumálum. Segir hann staðreyndirnar tala sínu máli um stöðnun í virkjanamálum hjá síðustu ríkisstjórn.
Guðlaugur var í viðtali í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun. Var hann þar að saka arftaka sinn, Jóhann Pál Jóhannsson, um að tefja framtíðar virkjanaframkvæmdir.
Sagði Guðlaugur tvær möppur tilbúnar á borði ráðherrans, tveir „rammar“, sem hann hafði skilið eftir sem og frumvarp um einföldun á rammanum.
„Það eru líka fleiri frumvörp í þessari títt nefndu möppu sem ég skildi eftir hjá ráðherranum sem gerir það að verkum að við getum einfaldað hlutina,“ sagði Guðlaugur í viðtalinu. Vildi hann meina að síðasta ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna hefði rofið kyrrstöðuna í virkjunarmálum.
„Staðreyndirnar tala sínu máli,“ segir Sigurjón í færslu á samfélagsmiðlum. Segir hann Guðlaug Þór „belgja sig út“ í viðtalinu um mikinn árangur í orkumálum árin 2017 til 2024. En staðreyndirnar séu þær að síðasta stórvirkjun sem tekin var í notkun hér á landi hafi verið Þeistareykjavirkjun árið 2017 og aukavirkjun við Búrfell ári seinna.
„Það grátbroslegt að fyrrverandi orkumálaráðherra í ríkisstjórn sem afrekaði það að brenna nánast að óþörfu tugum milljón lítra af olíu á hverju ári, til rafmagnsframleiðslu, skuli benda hróðugur á einhverja möppu sem hann skildi eftir sig í ráðuneytinu,“ segir Sigurjón. „Þetta kalla ég að miklast af litlu sem engu.“