Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir forsætisráðherra fara rangt með mál í viðtali sínu við The Guardian. Þar segi Kristrún Frostadóttir að stefna ríkisins í ferðaþjónustunni hafi undanfarin misseri kallað á magn umfram gæði. Það séu veruleg vonbrigði að sjá forsætisráðherra fara með fleipur á alþjóðavettvangi.
Jóhannes skrifar á Facebook að fyrir næstum áratug hafi Samtök ferðaþjónustunnar og þáverandi ferðamálaráðuneytið gefið út vegvísi fyrir ferðaþjónustu þar sem skýrt komi fram að í íslenskri ferðaþjónustu skuli gæði og verðmætaaukning ráða ferðinni frekar en fjöldaaukning. Stjórnstöð ferðamála hafi starfað á þessum grunni á árunum 2015-2020 og sú vinna varð kjarni að sameiginlegum stefnuramma stjórnvalda og Samtaka ferðaþjónustunnar sem kom út árið 2019 og var loks samþykktur á Alþingi síðasta vor. Það sé ekki sjálfgefið að atvinnulíf og stjórnvöld séu sammála með þessum hætti. Því sé leiðinlegt að Kristrún haldi öðru fram í viðtali við erlendan fjölmiðil.
Jóhannes skrifar:
„Það er undarlegt að sjá forsætisráðherra halda því fram í viðtali við Guardian í gær að stefna í ferðaþjónustu hafi undanfarin ár verið fókuseruð á magn frekar en gæði – „When it comes to tourism, Kristrún said policies have been “more focused on quantity than quality”.
Þetta er einfaldlega rangt, og forsætisráðherra er hér amk. tíu árum á eftir áætlun í þekkingu á ferðamálastefnu á Íslandi.
Allt frá því að Vegvísir í ferðaþjónustu kom út árið 2015 í farsælu samstarfi þáverandi ferðamálaráðuneytis og Samtaka ferðaþjónustunnar, hefur ríkt alger einhugur hjá stjórnvöldum og atvinnugreininni um að gæði og verðmætaaukning skuli ráða ferðinni í þróun ferðaþjónustunnar en alls ekki fjöldaaukning.
Á þeim skýra grunni starfaði Stjórnstöð ferðamála árin 2015-2020 og sú hugsun er kjarninn í sameiginlegum stefnuramma stjórnvalda og Samtaka ferðaþjónustunnar sem settur var fram árið 2019. Sá rammi er einnig kjarninn í núverandi ferðamálastefnu sem stjórnvöld og SAF hafa unnið að sameiginlega frá 2018 og var loks samþykkt á Alþingi síðastliðið vor.
Það er ein lykil lukka íslenskrar ferðaþjónustu að stórnvöld og fólkið í atvinnugreininni hefur borið gæfu til þess að vera 100prósent sammála um akkúrat þetta síðastliðinn áratug, og sameiginlega byggt á því alla vinnu við stefnumótun og aðgerðaáætlun í ferðamálum til framtíðar. Það eru því veruleg vonbrigði að sjá forsætisráðherra landsins fara með þetta fleipur á alþjóðavettvangi.“