Þjóðþekktur einstaklingur og vinamargur á Facebook deildi mynd fyrir nokkrum þar sem lagt er til að lausnin á aðstæðum eldri borgara sem dvelja á elli- og hjúkrunarheimilum og aðstæðum fanga sé sú að þeir hafi vistaskipti, „Setjum gamla fólki í fangelsi og glæpamenn á elliheimili.“
Færslan er ekki skrif viðkomandi manns heldur hefur hún dúkkað upp ítrekað, stundum með lítils háttar breyttu orðalagi, á samfélagsmiðlum í gegnum árin. Blaðamaður fann meðal annars færsluna þar sem henni var deilt árið 2011. Frá því viðkomandi birti færslu sína núna, 5. janúar, hafa yfir 2400 einstaklingar deilt færslunni og finnst mörgum þetta afbragðs hugmynd.
„Lausnin:
Setjum gamla fólkið í fangelsi og glæpamenn á elliheimili! Þá fengi gamla fólkið aðgang að baði, tölvu, sjónvarpi, líkamsrækt og gönguferðum. Allt starfsfólk talaði íslensku við það og enginn stæli frá þeim. Þeir sem vildu gætu stundað nám, smá vinnu, eða dútlað við föndur og gamla fólkið fengi greitt í stað þess að þurfa að borga háan hluta af ellilífeyrinum sínum. Bubbi Morthens og Ari Eldjárn kæmu svo til að skemmta á aðfangadag!
Glæpamennirnir fengju þá kaldan mat, engan pening, væru aleinir, starfsfólkið talaði allt að 10 ólík tungumál og enga íslensku, þeir þyrftu að slökkva ljósin kl. 20 og fengju að fara í bað einu sinni í viku. Félagar úr Harmonikufélagi Reykjavíkur kæmu til að skemmta þeim á sjómannadaginn.Látið þetta ganga ef ykkur finnst ellilífeyrisþegar eiga betra skilið !!!!“
Nokkrar athugasemdir hafa verið skrifaðar við færsluna:
„Það fýkur pínulítið í mig að lesa svona pistla, kaldhæðni eður ei! Mætti bjóða þér að koma og taka nokkrar vaktir á hjúkrunarheimili?“ skrifar kona ein.
Svavar Knútur tónlistarmaður skilur ekkert í að einstaklingar séu að deila svona rugli:
„Hvers vegna er verið að dreifa svona keðjubréfaþrugli, þýddu og staðfærðu fyrir Ísland? Þetta er alger helber rökleysa.Bara svona rétt að tæpa á því að dvalar- og hjúkrunarheimili eru allt árið, ekki bara um jólin, umsetin góðu listafólki sem mætir og syngur fyrir það, bara þó það séu ekki Bubbi og Ari Eldjárn.
Það er vel búið að langstærstum hluta aldraðra à Íslandi og svona kjaftæði er ekkert nema drull yfir það góða fólk sem vinnur í öldrunargeiranum á Íslandi, “skrifað” af einhverju sem hefur aldrei mætt inn á Hrafnistu eða Lögmannshlíð, aldrei sungið fyrir Alzheimerdeildir og aldrei látið sig þessi málefni í alvöru varða, heldur sér bara tækifæri til lýðskrums.
Og af hverju ætti að fara verr með fanga? Er refsing mikilvægari en betrun að þínu mati? Að menn komi verri menn út úr fangelsi? Líklegri til að brjóta aftur af sér? Er það æskilegt, til að fá svalað hefndarþörf?
Maður, gerðu betur.“
Kona á miðjum aldri er ein þeirra sem segir þennan ömurlega flökkustatus alltaf jafn mikil firra. Konan sem hefur átt ættingja annars vegar á elliheimili og hins vegar í fangelsi segir að enn eitt árið sé þessi steingervingur að myndast til við að hefja sig til flugs.
„Það er margt fleira sem þarf að taka með í þetta dæmi til að fólk átti sig á hve frelsissvipting í fangelsi og þær takmarkanir sem þeirri dvöl fylgir er engan veginn samanburðarhæf við dvöl ellilífeyrisþega á dvalarheimili þar sem annast er um það.
Það er sjálfsagt að taka umræðu um hvort fyrir sig og skoða hvar má gera úrbætur, sem ég dreg ekki í efa að megi gera víða,“ segir konan sem biðlar til einstaklinga að það íhugi þetta aðeins betur áður en tekið er undir þessa þvælu.
„Ef fólk hefur í alvöru þá hugmynd um að allt sé svona æðislegt og frábært í fangelsum og allt svona ömurlegt og viðbjóðslegt á dvalarheimilum aldraðra, þá væri nær að leggja frá sér lyklaborðið og kíkja í heimsókn…helst á bæði slík úrræði og velta að því loknu fyrir sér hvort það geti verið tímabært að leyfa þessari ömurlegu klisju að lifa einungis á vefsafninu framvegis, en sleppa því að henda henni á móti umferð inn í umræðuna, ár eftir ár, þar sem hún skilur ekkert eftir sig nema annars vegar glaðhlakkalegt raus úr bergmálshelli endurbirtenda pistilsins og hins vegar miðaldra húsmóður í Kópavogi sem gnístir tönnum svo ákaft að úr skjótast hvassir gneistar sem hæfðu hvaða flugeldasýningu sem væri!“