Í kjölfar frosts og kulda og þegar þíða tekur eykst hættan á að holur myndist í vegum, þar með töldum malbikuðum vegum höfuðborgarinnar.
Í skeyti lögreglu nú í morgunsárið kemur fram að óskað hafi verið eftir aðstoð lögreglu vegna tjóns á minnst þremur bifreiðum eftir að þeim hafði verið ekið í holu á vegi í íbúðahverfi í austurborginni. Að sögn lögreglu var haft samband við veghaldara og honum gert að gera ráðstafanir.
Þá bárust ítrekaðar tilkynningar vegna tjóna á bifreiðum eftir að þeim hafði verið ekið í holur á stofnbraut í austurborginni. Um var að ræða nokkrar holur á kafla vegarins. Að minnsta kosti 9 bifreiðar urðu fyrir tjóni á hjólbörðum og þurftu ökumenn því að skipta um hjólbarða til að halda för sinni áfram. Að sögn lögreglu var veghaldara gert að gera ráðstafanir þar.
„Enn og aftur var óskað aðstoðar lögreglu og nú vegna hættuástands sem var sagt hafa skapast er fjölda bifreiða var ekið í holu í hringtorgi á stofnbraut í austurborginni. Reyndust einnig 9 bifreiðar vera með tjónaða hjólbarða og þurftu ökumenn að skipta um hjólbarða til að halda för sinni áfram. Veghaldari upplýstur og gert að gera ráðstafanir,“ segir í skeyti lögreglu.