Sigurður Hólmar Jóhannesson, segir fyrirtækið Arnarland sem hyggur á uppbyggingu hverfis í svokölluðum Arnarneshálsi, með Garðabæ í vasanum varðandi skipulag á staðnum. Í uppsiglingu sé mikið skipulagsklúður með aukinni umferð og skertu útsýni fyrir íbúa hverfisins og nágranna í Garðabæ og Kópavogi.
Sigurður er íbúi í Garðabæ sem hefur barist gegn áætlunum Garðabæjar í Arnarneshálsi, en þar á að rísa nýtt hverfi Arnarland þar sem samnefnt félag hyggst reisa um 500 íbúðir og verslun og þjónustu, með áherslu á heilsu. Hann ræddi málið í þættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Sagði Sigurður að það væri einkum hið mikla byggingarmagn verslunar og þjónustu sem nágrannarnir hefðu áhyggjur af. „Það jafnast á við Kringluna. Það er verið að setja nýja Kringlu á pinkulítið svæði. Plús einhverjar fimm hundruð íbúðir,“ sagði hann.
Ljóst væri að aðgengismálin yrðu mikið skipulagsklúður. Umferðin sé nú þegar mikil á þessu svæði. „Þetta mun alltaf verða klúður. Það verða stöppur þarna alla daga,“ sagði hann. Búið væri að teikna borgarlínuna þarna inn á þrátt fyrir að ekki liggi fyrir hvar hún muni liggja sunnan Hamraborgar.
„Það myndi engin heilvita manneskja setja þetta svona upp,“ sagði hann um Garðabæ. Garðabær væri í vasanum á þessu félagi Arnarlandi sem íbúum sýnist vera að skipuleggja hverfið. Garðabær, sem eigi að hafa skipulagsvaldið, sé aðeins „frontur.“
Í Garðabæ séu aðallega lágreist hús og mikið af grænum svæðum en þarna eigi að byggja á hverjum einasta fermetra, allt að þrjátíu metra turna sem muni loka á útsýni í hverfinu og hjá íbúum í Smáranum í Kópavogi. Auk þess að varpa skugga á Arnarnesið í Garðabæ.
DV hefur fjallað um málefni Arnarlands síðan í fyrra. En mikil ólga hefur verið í nálægum hverfum og undirskriftum hefur verið safnað gegn áætlununum.
Skipulag var kynnt í sumar og söfnuðust hundruð athugasemda á skömmum tíma. Í stað þess að svara þessum athugasemdum dró Garðabær skipulagið til baka, lækkaði byggingar lítillega og kynnti nýtt skipulag. Frestur til að gera athugasemdir við það skipulag rennur út 20. janúar.