Sigurjón Þórðarson, þingmaður Flokks fólksins, sakar Morgunblaðið um hræsni og að erinda eigenda sinna. Ritstjórn Morgunblaðsins telji flokkinn vera höfuðandstæðinga auðmannanna sem eiga blaðið.
„Blaðamenn Morgunblaðsins hafa verið ræstir út á yfirsnúningi til að reyna að skapa þá ásýnd að landsbyggðarþingmenn séu að sækja sér aukapening með því að skrá lögheimili sín í þeim kjördæmum sem þeir eru þingmenn fyrir,“ segir Sigurjón í færslu sem birt er á Facebook síðu Flokks fólksins.
„Framsetning Morgunblaðsins í þessu máli er engin tilviljun,“ segir Sigurjón. Hún snúist fyrst og fremst um að sverta þingmenn Flokks fólksins. Það sé væntanlega vegna þess að ritstjórn Morgunblaðsins telji flokkinn vera höfuðandstæðinga auðmannanna sem eiga blaðið.
Morgunblaðið hefur meðal annars fjallað um að Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sé með lögheimili í Lokinhamradal án þess að hafa búið þar. Einnig að Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, hafi aldrei búið í Suðurkjördæmi.
„Áratugum saman hafa slíkar greiðslur verið greiddar, stærstur hluti þeirra til þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, án þess að Morgunblaðið hafi gefið því gaum, en um leið og Flokkur fólksins kemst í ríkisstjórn, þá þykir Morgunblaðinu mjög mikilvægt að taka þetta til ítarlegrar umfjöllunar,“ segir Sigurjón.
Bendir hann á að allir þingmenn landsbyggðarkjördæma þá þessar greiðslur óháð skráðu lögheimili. Enda séu þær lögbundnar og ætlaðar til að gera þeim kleift að sinna hlutverki sínu gagnvart kjósendum kjördæmisins.
Tekur hann dæmi af sjálfum sér, sem nýkjörnum þingmanni Norðausturkjördæmis. Heimili hans sé annars vegar á Sauðárkróki, þar sem hann hafi búið um áratuga skeið. Hins vegar er hann með aðsetur hjá aldraðri móður sinni í Norðurmýrinni í Reykjavík. Lögheimilið sé engu að síður á Laugarvegi á Siglufirði, hjá skyldfólki þar sem hann hefur haft annan fótinn inn á heimilinu frá barnæsku, meðal annars þegar hann vann í fiski hjá Þormóði Ramma.
„Ég hef engan ávinning af því að skrá lögheimili mitt á Siglufirði, annan en að geta kosið mig sjálfan í Alþingiskosningum,“ segir Sigurjón. „En mér finnst bæði sjálfsagt og eðlilegt að útsvarið mitt renni til þess kjördæmis sem ég er kjörinn fulltrúi fyrir.“