Samgöngustofa og 66°Norður hafa sameinað krafta sína í annað sinn í sérstöku samfélagsátaki undir nafninu Sjáumst//ekki.
Átakið er sett af stað til að vekja athygli á mikilvægi þess að nota endurskinsmerki, vera sýnileg í myrkrinu á dimmustu dögum ársins og auka þannig öryggi í umferðinni.
Strætóskýli borgarinnar og samfélagsmiðlar eru nú prýdd svartklæddum módelum sem sjást aðeins þegar staðið er nálægt þeim eða þegar birtuskilyrði eru sem best. Þessu má líkja við það sem gerist þegar gangandi vegfarendur eru án endurskins í myrkrinu.
„Þetta er þarft samfélagsverkefni á þessum stystu dögum ársins og við erum þakklátt 66°Norður að vinna að þessu með okkur. Það er mikilvægt að bera endurskinsmerki á þessum tíma en ökumenn sjá fótgangendur með endurskin um fimm sinnum fyrr en ella og á ökumaður því mun meiri möguleika á að forðast slys. Við vonum að átakið hvetji sem flesta til að tileinka sér notkun þeirra,“ segir Gunnar Geir Gunnarsson hjá Samgöngustofu.
Með átakinu fylgir myndband sem ber nafnið Sjáumst//ekki og vekur athygli á nauðsyn endurskinsmerkja.
Vefur átaksins: sjaumst.is