Hópur kínverskra ferðamanna er sakaður um að hafa vanvirt flak flugvélarflaksins á Eyvindarholti undir Eyjafjöllum. Þeir hafi skeytt engu um tilmæli á skiltum eða frá öðrum ferðamönnum. Eigandi segir að almennt sé umgengni mjög góð en honum sé ekki vel við að fólk príli á flakinu, það geti verið hættulegt.
„Ég er með tilmæli fyrir fólk að virða staðinn. Flestir ganga mjög vel um. Það hefur komið mér á óvart hvað umgengnin hefur verið góð. Þetta hefur yfirleitt verið til fyrirmyndar. Við erum ekki öll eins og auðvitað gengur fólki misvel. En heilt yfir hef ég verið afskaplega ánægður með umgengni fólks þarna,“ segir Tómas Birgir Magnússon, sem rekur ferðaþjónustu í Eyvindarholti. En þar stendur flak vélar af gerðinni Douglas R4D-S.
Í gær, fimmtudaginn 9. janúar, var umræða á samfélagsmiðlinum Reddit að kínverskir ferðamenn hefðu vanvirt flakið. Voru birtar myndir af fólkinu, meðal annars standandi á og í flakinu.
„Í dag fór ég og vinir mínir að DC-3 flakinu og það var dásamlegt. Hins vegar var þar hópur af kínverskum ferðamönnum sem stóðu á flakinu,“ sagði einn ferðamaður í færslu. „Við sögðum þeim að reglurnar væru skrifaðar niður við innganginn að svæðinu (meira að segja á kínversku, við tölum kínversku) en þeir hunsuðu okkur. Ég skil ekki af hverju það er svona erfitt að virða umhverfið.“
Hefur skapast mikil umræða um þetta og nefna margir að hópar kínverskra ferðamanna eigi það til að sína slæma umgengni gagnvart umhverfinu og dónaskap. Einnig að þeir keyri ógætilega og hafi valdi mörgum umferðarslysum. Einn nefnir að hafa séð kínverskan ferðamann ganga örna sinna á víðavangi nálægt Jökulsárlóni þrátt fyrir að salerni væri skammt frá.
„Við erum ferðamenn frá Tævan og þetta hefur áhrif á okkur sem höfum svipað útlit,“ segir einn ferðamaður. „Þeir skapa andúð gagnvart Asíufólki með sínu heimskulega framferði.“
Þá nefnir einn að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem kínverskir ferðamenn vanvirði flugvélarflakið á Eyvindarholti. Hann hafi orðið vitni að því í ágúst á síðasta ári.
„Þessir bjánar klifruðu upp á flugvélina og byrjuðu að hoppa ofan á henni,“ segir hann. „Þeir létu svo taka myndir af sér, sex saman, og fóru ekki niður fyrr en eftir 20 mínútur.“
Eins og sést á myndinni eru tilmæli um að fólk gangi um svæðið af virðingu og fari gætilega.
„Ég er ekkert hrifinn af því að fólk sé að príla upp á flakið,“ segir Tómas. „Eins og ég bendi á getur það verið hættulegt. Þetta er ekki gert til þess. Ég hringi ekki á lögregluna út af því en ég leiðbeini fólki ef ég er á staðnum, ég kíki alltaf við. Fólk tekur því mjög vel.“
Vélin, sem er mjög svipuð og Douglas DC-3, var flutningavél í eigu varnarliðsins. Hún var að koma með vistir til ratsjárstöðvarinnar á Langanesi þegar henni hlekktist á í lendingu á flugbrautinni í Sauðanesi þann 25. júlí árið 1969.
Að sögn Tómasar kom hliðarvindur og gleymst hafði að læsa stélhjólinu. Leitaði vélin til hliðar og rann út af flugbrautinni og lenti inni í bunka af rekaviði. Blessunarlega varð ekkert slys á fólki en vélin var það mikið skemmd að það tók því ekki að gera við hana. Var það tekið sem hægt var að nýta en flakið skilið eftir á túni.
„Hún var lengi á túninu hjá bóndanum og það var töluverð ásókn af fólki að skoða hana. Hann kærði sig ekki um að það væri fólk að vappa í kringum vélina og fossinn hans. Hann vildi losna við hana þannig að ég tók hana hjá honum,“ segir Tómas um hvernig hún komst landshlutanna á milli.
Flakið er orðinn vinsæll ferðamannastaður og hefur Tómas byggt upp salernisaðstöðu og er núna að setja upp hleðslustöðvar. Eins og á mörgum ferðamannastöðum á Suðurlandi greiða ferðamenn fyrir bílastæði og þar með aðgang að svæðinu.