Karlmaður á Austurlandi hefur verið dæmdur í 9 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir brot gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni. Hélt hann henni nauðugri og tók hana hálstaki þannig að hún gat ekki andað. Einnig að hafa beitt hana umsáturseinelti um nokkurra mánaða skeið.
Dómurinn féll í Héraðsdómi Austurlands í gær, fimmtudaginn 9. Janúar en maðurinn hafði játað afbrot sín. Voru þau tvenn.
Í fyrsta lagi brot í nánu sambandi og ógnun. Það er þann 6. mars árið 2023 þegar hann hélt fyrrverandi sambýliskonu sinni nauðugri í húsi frá hádegi og fram að kvöldmatarleyti. Tók hann af henni tölvu og farsíma og hótaði að taka eigið líf. Varnaði hann henni útgöngu með ógnandi framkomu og ofbeldi. Það er hann tók hana hálstaki aftan frá og þrýsti að hálsinum svo hún gat ekki andað.
Þá vafði hann myndavélasnúru um hönd sína og hótaði henni að ganga lengra en nokkru sinni fyrr. Eftir að hún komst út úr húsinu hrinti hann henni í jörðina og elti hana að heimili hennar.
Í öðru lagi að hafa ógnað konunni með sífelldum símhringingum og skilaboðasendingum frá 7. mars til 21. júní árið 2023 og að hafa hótað að dreifa nektarmyndum af henni. Með SMS, tölvupóst og Messenger skilaboðum. En í eitt skipti mætti hann einnig fyrir utan heimili hennar.
Skilaboðin sem tíunduð eru í dómnum eru fjölmörg. Meðal annars þessi:
„mamma þín og pabbi verað þá tekinn í dæmið“
„ég geri ykkur öllum eitthvað þangað til ég verð stoppaður en þá kála ég mér líka“
„Losa dekkin á bílnum ykkar svo þið missuð þau og drepist“
„ef ég fæ þig ekki færþig enginn“
„ÁÐUR EN ÉG KÚBEINA MIG INN TIL YKKAR OG FRELSISVIPTI YKKUR BÆÐI“
„drep svo pabba þinn“
„á mynd af þér á píkunni hun fer líka.“
„sendi líka bréfið á foreldra þína. og mydnr líka“
Eins og áður segir játaði maðurinn brot sín og var því háttsemin heimfærð til refsiákvæða. Hlaut hann 9 mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm til 2 ára. Auk þess var honum gert að greiða konunni 800 þúsund krónur í bætur sem og um 2,4 milljónir króna í lögfræði og málskostnað.