fbpx
Mánudagur 20.janúar 2025
Fréttir

Gróa lætur Íslandspóst heyra það – „Þetta finnst mér algjörlega óviðunandi þjónusta“ 

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 9. janúar 2025 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gróa Jóhannsdóttir sendir Íslandspóst væna pillu fyrir að veita nú svo slæma þjónustu í Múlasýslu að íbúar kjósa nú margir frekar að keyra 80-85 kílómetra leiðina til Egilsstaðar frekar en að treysta á að fá póstinn sinn sendan upp að dyrum. Gróa vekur athygli á málinu í opnu bréfi til stjórnenda Íslandspósts sem hún birti hjá Vísi.

Fékk engan póst í rúmar þrjár vikur

Gróa flutti í Breiðdalinn fyrir tæpum 40 árum og á þeim dögum var póstinum dreift í sveitina tvisvar í viku. Síðar bættist við þriðji dreifingadagurinn og loks alla virka daga. Adam var þó ekki lengi í paradís og aftur var dreifingadögum fækkað og eiga nú að vera tvisvar í viku. Það hefur þó ekki gengið eftir og í dag fékk Gróa póstinn til sín í fyrsta sinn frá 17. desember.

„Sem sagt rúmar þrjár vikur síðan síðast barst póstur hingað. Sá póstur sem barst í dag innihélt m.a. jólakort með póststimpli 13. desember og nokkur bréf og kort póstlögð á bilinu 17. desember til 6. janúar. Þetta finnst mér algjörlega óviðunandi.“

Þetta sé sérstaklega óviðunandi þar sem Íslandspóstur auglýsir að fyrirtæki leggi mikið upp úr því að koma sendingum fljótt í hendur viðskiptavina. Íslandspóstur birti frétt í lok árs 2024 þar sem félagið fagnað því hversu vel hefði gengið að dreifa pósti á árinu, sérstaklega um jólin. Íslandspóstur tók þar fram að engar tafir hafi orðið í jólavertíðinni.

Gróa telur enga innistæðu fyrir þessu sjálfshóli og bendir Íslandspósti á að margir treysti á póstinn til að fá lífsnauðsynleg lyf. Það sé erfitt þegar ekki er hægt að treysta á dreifingu. Gróa ætti með réttu að fá póst tvisvar í viku en það hefur ekki staðist.

„Póstur berst mjög óreglulega, er þó ekki hægt að kenna veðri eða færð um það sem af er vetri.“

Þarf að keyra 160 kílómetra ef póstboxið er fullt

Pósthúsinu á Breiðdalsvík var lokað í sumar, sem og öðrum pósthúsum víða á landsbyggðinni. Eftir það átti að dreifa póstinum frá Reyðarfirði. Íbúum var lofað að póstbox yrði sett upp á Breiðdalsvík og pósturinn kæmi tvisvar í viku. Þetta átti að bæta þjónustuupplifun viðskiptavina en Gróa segir að þvert á móti hafi upplifunin sjaldan verið verri.

„Já, það er þetta með þjónustuupplifunina, enn þá hef ég ekki hitt einstakling sem er sáttur við þessa breytingu. Eigi menn von á pökkum berast gjarnan sms um að póstbox á Breiðdalsvík sé fullt og pakkanum hafi verið ekið aftur á Reyðarfjörð og hægt sé að nálgast hann þar.“

Það er 80 kílómetra leið fyrir Gróu að keyra til Reyðarfjarðar. Þar með þyrfti hún að keyra 160 kílómetra, fram og til baka, til að sækja póstinn sinn. Stundum koma skilaboð um að pakki sé á leiðinni upp að dyrum og keppast íbúar þá við að vera heima til að taka á móti. Svo kemur sms um að ekki hafi fundist tími til að aka póstinum í sveitina.

„Getur þetta verið mjög bagalegt t.d. ef bændur eru að fá varahluti í tæki sem þurfa að vera í daglegri notkun. Veit að einhverjir leggja það frekar á sig að aka tvisvar sinnum 80-85 km í veg fyrir flug á Egilsstöðum og fá pakkann þannig frekar en að treysta á Íslandspóst.“

Gróa segir ljóst að þessar breytingar Íslandspósts sem áttu að bæta þjónustuupplifun hafi ekki gengið upp. Líklega taki flestir, ef ekki allir, íbúar Breiðdals og Breiðdalsvíkur undir með henni.

„Því skora ég á ykkur stjórnendur Íslandspósts að endurskoða þessa breytingu og gera þær ráðstafanir sem þarf til að íbúar byggðalagsins upplifi sig ekki sem annars flokks íbúa sem eigi ekki rétt á sömu þjónustu og aðrir.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi

Tálbeituhópurinn: Maður á Akranesi þungt haldinn eftir misþyrmingar með járnkylfum og hnífi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rúmlega 8 þúsund hafa skrifað undir lista gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði

Rúmlega 8 þúsund hafa skrifað undir lista gegn sjókvíaeldi í Seyðisfirði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Glerhálka og skortur á hálkuvörnum orsakaði dauða hjóna á Grindavíkurvegi

Glerhálka og skortur á hálkuvörnum orsakaði dauða hjóna á Grindavíkurvegi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lögreglan uggandi yfir óhugnanlegum tálbeituaðgerðum hóps íslenskra ungmenna – Ganga hrottalega í skrokk á meintum barnaníðingum

Lögreglan uggandi yfir óhugnanlegum tálbeituaðgerðum hóps íslenskra ungmenna – Ganga hrottalega í skrokk á meintum barnaníðingum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Illugi furðar sig á Mannanafnanefnd – „Ætti að vera fyrsta sparnaðarleið Kristrúnar Frostadóttur að leggja niður þessa idjótísku nefnd“

Illugi furðar sig á Mannanafnanefnd – „Ætti að vera fyrsta sparnaðarleið Kristrúnar Frostadóttur að leggja niður þessa idjótísku nefnd“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Segir íslenskt sendiráð hafa valdið sér tjóni

Segir íslenskt sendiráð hafa valdið sér tjóni