Við lifum á viðsjárverðum tímum og stríðsógnir á norðurslóðum eru ekki jafnfjarlægur möguleiki og fyrir nokkrum árum. Spenna fer vaxandi en ummæli verðandi forseta Bandaríkjanna, Donald Tumps, um að möguleiki sé á því að Bandaríkjamenn taki Grænland með hervaldi hafa í senn vakið undrun og ugg í brjósti manna. Á sama tíma hefur nýr utanríkisráðherra Íslands, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, áréttað stuðnings Ísland við vopnakaup til handa Úkraínu í stríði þeirra við Rússland.
Hilmar Þór Hilmarsson, prófessor við Háskólann á Akureyri og þekktur álitsgjafi um þróun heimsmála, segir að nýjar yfirlýsingar Trumps endurspegli mikilvægi norðurslóða, en hlýnun jarðar leiðir til greiðari siglinga um svæðið auk aðgangs að miklum auðlindum.
„Á nýlegum blaðamannafundi útilokaði Trump ekki að nota hernaðarlegar eða viðskiptaþvinganir til að ná fram sínum vilja um yfirráð yfir Grænlandi. Hann sagði að nú væru skip frá Rússlandi og Kína um allt á norðurslóðum. Þetta hlýtur að vekja ugg sérstaklega í Danmörku og á Grænlandi,“ segir Hilmar og víkur jafnframt að yfirlýsingum Trumps um Panama-skurðinn:
„Trump útilokar ekki að nota hernaðarlegar eða viðskiptaþvinganir til að ná yfirráðum yfir Panama-skurðinum og hefur gagnrýnt að Jimmy Carter fyrrverandi forseti lét skurðinn af hendi og telur það vera meginástæðuna fyrir því að Carter tapaði forsetakosningunum gegn Ronald Reagan 1980. Svo hefur Trump hótað að beita viðskiptaþvingunum eða tollum gegn Kanada verði landið ekki ríki innan Bandaríkjanna.“
Hilmar bendir á að áhugi Bandaríkjanna á Grænlandi sé ekki nýtilkominn. „Harry S. Truman, forseti Bandaríkjanna, bauðst til að kaupa Grænland frá Danmörku árið 1946 fyrir 100 milljónir dollara í gulli. Áhugi Bandaríkjanna á þessum kaupum nær til 1867, en það ár keyptu Bandaríkin Alaska af Rússlandi. Árið 1868 lét svo bandaríska utanríkisráðuneytið gera skýrslu um auðlindir Íslands og Grænlands.“
„Vegna stríðsins í Úkraínu er Danmörk nú háðari Bandaríkjunum en árið 2019, þegar Trump lýsti fyrst áhuga á kaupum á Grænlandi. Danmörk er eins og Ísland undir öryggisregnhlíf Bandaríkjanna. Sumir leiðtogar NATO ríkja óttast að Bandaríkin taki öryggisregnhlífina í burtu. Donald Trump hefur líka gefið í skyn að hann muni ekki koma NATO ríkum til varnar ef á þau verður ráðist.“
Hilmar bendir á að þjóðaröryggishagsmunir ráði ekki eingöngu um áhuga Bandaríkjamanna á Grænlandi:
„Líklegt er að aðgangur að auðlindum sé ekki síður ástæða endurnýjaðs áhuga Trumps á Grænlandi, en þjóðaröryggi Bandaríkjanna eða frelsi í heiminum sem hann nefnir. Aðgangur að sjaldgæfum málmum gæti orðið mál sem tengist þjóðaröryggi Bandaríkjanna þó það réttlæti ekki ummæli Trumps. Eflaust gætu Bandaríkin líka keypt málma af Grænlandi ef vilji væri fyrir hendi án þess að fá yfirráð yfir landinu.“
Hilmar segir að áhersla Vesturlanda á að öll ríki virði alþjóðalög kunni að víkja fyrir þeirri reglu að sá sterkari ráði. „Ef styrjöld brýst úr á norðurslóðum mega lönd á borð við Ísland og Danmörku sín lítils án fulltingis Bandaríkjanna. Mikil óvissa er framundan og átakalínur eru að færast á norðurslóðir og nær Íslandi.“
Hann segir ennfremur:
„Á friðartímum er mögulegt fyrir Danmörku að fara með utanríkis- og öryggismál Grænlands. Nú eru hinsvegar ekki friðartímar og Rússland hefur yfirburðastöðu á norðurslóðum og er í bandalagi við Kína. Þetta setur Dani í vanda. Á sama tíma vilja Bandaríkin styrkja sína stöðu á þessu svæði. Danmörk hefur sent mikið af vopnum til Úkraínu með þeim skilaboðum að Úkraínumenn sigri Rússa á vígvellinum. Samband Danmerkur og Rússlands er því mjög slæmt.
Donald Trump virðist vera þeirrar skoðunar að aðeins Bandaríkin geti gætt öryggis Grænlands og vill kaupa landið og hugsanlega breyta því í fylki eða a.m.k. að landið verði undir áhrifum og yfirráðum Bandaríkjanna. Svo er hann farinn að tala um Kanada sem hugsanlegt fylki. Þetta vekur svo spurningar um stöðu Íslands. Verði Grænland fylki eða hluti af Bandaríkjunum mun efnahagslögsaga okkar liggja að Bandaríkjunum.“
Hilmar telur að fyrir smáríki sé best að friður sé í heiminum og að smáríki eins og Danmörk og Ísland hefðu átt að tala fyrir friði og samningum í Úkraínu vegna þess að það þjónar þeirra hagsmunum best. Nú er hinsvegar alger óvissa og Donald Trump forseti Bandaríkjanna fer sínar leiðir.
„Staða Dana til að fara með utanríkismál Grænlands væri sterkari ef friður væri í heiminum í dag. Það er alveg ljóst að ef styrjöld brýst út á norðurslóðum mega smáríki eins og Danmörk sín lítils, hvað þá Ísland sem er herlaust. Það er ekki hægt að útiloka átök á norðurslóðum þegar nánast ekkert talsamband er á milli Bandaríkjanna og Rússlands og viðskiptastríð við Kína. Spennan bara vex og engir tilburðir til að lægja öldurnar.
Útaf fyrir sig gætu nánari samskipti Grænlands við Bandaríkin orðið til góðs fyrir Grænland. Grænland er að leggja lokahönd á nýja stjórnarskrá. Grænland vill fullt sjálfstæði og Grænlendingar þurfa svo að taka sæti í alþjóðastofnunum í eigin nafni og undir eigin fána. Því þurfa þeir að víkka út sitt samstarf við aðrar þjóðir, ekki síst Bandaríkin. Náið samstarf við Bandaríkin á meðan á seinni heimstyrjöldinni stóð og í kalda stríðinu kom sér ekki illa fyrir Ísland. Nú er skollið á nýtt kalt stríð og sjálfstætt Grænland þarf samstarf, ekki síst við Bandaríkin og líka Ísland sem hægt er að læra af.“
Hilmar er gagnrýninn á stuðning Íslands við vopnakaup til handa Úkraínu á sama tíma og landhelgisgæslan hér er fjársvelt. Stríðshætta á norðurslóðum fari vaxandi:
„Það er þegar spenna í Eystrasaltinu þar sem sæstrengir hafa verði skemmdir eða rofnir. Haustið 2022 var Nord Stream 2 gasleiðslan milli Rússlands og Þýskalands eyðilögð sem hefur skaðað þýska hagkerfið og haft lamandi áhrif á efnahag Evrópu.
Það er mjög sérstakt að á sama tíma og spennan eykst í Eystrasaltinu og sæstrengir eru rofnir eru íslensk stjórnvöld enn að leggja áherslu á vopnakaup og nú að styrkja vopnaframleiðslu í Úkraínu. Þarna er verið að gefa Rússum meira tilefni til að ráðast á okkur.
Á sama tíma er Landhelgisgæslan fjársvelt og getur varla fylgst með okkar sæstrengjum. Við getum aðstoðað Úkraínu á annan hátt, t.d. með stoðtækjum enda er mannaflsskortur sennilega meira vandamál þar en vopnaskortur. Við höfum áratuga reynslu og erum í fremstu röð ríkja heims í stoðtækjaframleiðslu en kunnum lítið sem ekkert að framleiða vopn og með þessu vopnabrölti erum við aðeins að setja okkur sjálf í hættu.
Það er eins og stjórnvöld skilji þetta ekki eða séu að hugsa um einhverja aðra hagsmuni en íslenskra ríkisborgara. Skilja íslensk stjórnvöld ekki að átökin eru komin í Eystrasaltið og geta svo færst á norðurslóðir? Þá erum við í hættu.“