fbpx
Sunnudagur 02.febrúar 2025
Fréttir

Segir enn hægt að koma í veg fyrir næsta skipulagsslys í borginni – Mun grænn veggur rísa í Laugarnesi?

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 8. janúar 2025 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Græna gímaldið“ gríðarstórt vöruhús sem risið hefur við Álfabakka 2a í suður-Mjódd í Breiðholti er á allra vitorði þessa dagana. Svo virðist sem byggingin hafi risið á einni nóttu borgarfulltrúum til mikillar furðu og íbúum í næsta húsi til mikils ama.

Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í gær tillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins um stjórn­sýslu­út­tekt og í tilkynningu frá Reykja­vík­ur­borg seg­ir að innri end­ur­skoðun borg­ar­inn­ar verði falið að gera ít­ar­lega stjórn­sýslu­út­tekt á skipu­lags­ferl­inu. Jafn­framt verði haf­in vinna við að end­ur­skoða fer­il skipu­lags­mála inn­an borg­ar­inn­ar.

Í úttektinni verði meðal annars tekið tillit til:

  1. Ákvarðanatökuferlisins í málinu.
  2. Tímalínu málsins, frá upphafi til loka.
  3. Regluverksins og framkvæmd þess, með áherslu á hvort farið hafi verið eftir gildandi lögum og reglum.
  4. Eftirlitsferla, með sérstakri áherslu á hvernig staðið var að eftirliti við byggingu skemmunnar.
  5. Athugasemda íbúa og hvernig unnið var úr þeim athugasemdum.

Jafnframt er lagt til að innri endurskoðun fylgi úttektinni eftir með virku eftirliti, sem byggir á niðurstöðum hennar, til að stuðla að nauðsynlegum umbótum og auknu trausti á skipulagsferlum borgarinnar. Mikilvægt er að öllum steinum verði velt við til að greina veikleika í stjórnsýslunni og tryggja að slík mistök endurtaki sig ekki í framtíðinni.

Mikilvægt að læra af mistökunum

Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir mikilvægt að læra af þeim mistökum sem gerð hafa verið. „Það er líka brýnt að horfa til framtíðar og koma í veg fyrir að svona geti gerst aftur. Þess vegna viljum við skoða málið ofan í kjölinn, greina hvar má gera betur í stjórnsýslunni og endurskoða feril skipulagsmála hjá borginni til að tryggja frekari gæði.“

Þrátt fyrir augljóst klúður við bygginguna og skipulagsferlið  þá verða framkvæmdir ekki stöðvaðar meðan verið er að skoða lausnir. Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins segir þá ákvörðun galna. „Ábyrgðin er alfarið borgarinnar, það mun aldrei neinn axla þessa ábyrgð og eiga að gera það nema borgin, meirihlutinn og skipulagsyfirvöld. Peningar fólksins í borginni, skattgreiðendur eru að fara að borga þennan skaða og við ætlum að hafa hann eins stóran og hægt er. Í stað þess að skipulagsyfirvöld hafi löngu fyrir jól verið komnir í samband við þá sem eru að framkvæma þetta, eigendur, hönnuði, þá sem eru með allt þetta vald og grátbiðja þetta fólk að hinkra aðeins núna. Það er verið að endurskoða málið. við verðum að finna leið því íbúar geta ekki búið við þessar aðstæður.“

2100 skrifað á undirskriftalista íbúa

Kristján Hálf­dán­ar­son, íbúi við Árskóga 7, sem er næsta hús við vöruhúsið, hef­ur hafið und­ir­skrifta­söfn­un á Ísland.is. Um 2100 hafa skrifað undir þegar þetta er skrifað.

Er næsta skipulagsslys framundan í Laugarnesi?

Þuríður Sigurðardóttir, söngkona og myndlistarkona, segir að mögulega sé of seint í rassinn gripið að leiðrétta skipulagsmistökin við Álfabakka. Borgarbúar og borgarfulltrúar geti þó vaknað og með samstilltu átaki komið í veg fyrir önnur mistök, framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru í Laugarnesi.

„Laugarnesfjaran, Norðurkotsvör, eina óspillta fjaran á norðurströnd Reykjavíkur, með þeirri landfylllingu sem komin er. Það þarf ekki háar byggingar til að loka fyrir útsýni en leyfi hafa verið veitt fyrir 10 hæða byggingum á svæðinu. 100 mann mótmæltu deiliskipulagi sem gerði ráð fyrir þeim byggingum.“
Mynd: Steinunn B. Jóhannesdóttir

„Ef byggingar rísa á landfylllingunni í Laugarnesi, sem mokað var niður í skjóli nætur, án grenndarkynningar, á bráðabirgðarleyfum og ófullkomnu umhverfismati, mun útsýni frá einu óspilltu fjörunni á norðurströnd Reykjavíkur hverfa á bak við þann „vegg“. Með friðlýsingu Laugarness verður vonandi hægt að koma í veg fyrir það.

Ég hvet áhugasama til að kynna sér málið, það varðar okkur öll og komandi kynslóðir, sem vilja njóta útsýnis, náttúrunnar og sögunnar – án truflana frá mannvirkjum,“ 

segir Þuríður í færslu sinni þar sem hún birtir myndir máli sínu til stuðnings.

„Landfylllingin er algjörlega á skjön við lögun strandlengjunnar með þverum línum, sem eiga eftir að hafa veruleg áhrif þegar fram líða stundir að mati þeirra sem vit hafa á. Sú fjólublá er í burðarliðnum og ef af verður, verður landfyllingin í heild 5,4 hektara, helmingur af skilgreindu svæði Laugarness.“
„Fyrirhuguð dýpkun á Viðeyjarsundi til að koma fyrir stærri og fleiri reykspúandi skemmtiferðaskipum. Er það útsýni sem við viljum til framtíðar?“

Bendir hún þeim sem vilja gera sitt til að vernda Laugarnesið að byrja á að setja nafn sitt á undirskriftarlista „og þrýsta á að Laugarnesið verði friðlýst og endilega deilið eins og vindurinn….betur má ef duga skal.“

Undirskriftalistinn sem Þuríður er ábyrgðarmaður fyrir ber yfirskriftina: Friðlýsing búsetu- og menningarlandslags Laugarness

Þar segir: „Við undirrituð skorum á ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála að friðlýsa Laugarnes sem búsetu- og menningarlandslag. Vísað er í lög um menningarminjar nr. 80/2012. Kirkjugarður, bæjarhóll og beðaslettur eru þegar friðlýst. Við óskum þess að Laugarnesið allt verði friðlýst til að vernda söguna sem lesa má í manngerðu umhverfi svæðisins og tengsl við liðna tíma. Í verndar­áætl­un sem sam­þykkt var af Minjastofnun Íslands og borgarstjóra Reykjavíkur 2016 segir: „Náttúru­farið á Laugar­nesi gerir svæð­ið ein­stakt í Reykja­vík þar sem hægt er að horfa yfir nes­ið og út í Viðey án trufl­un­ar frá mann­virkj­um nú­tím­ans. Mikil­vægt er að halda í þetta merki­lega menn­ingar­lands­lag, sam­spil nátt­úru og minja, sem er hvergi að finna ann­ars stað­ar í Reykja­vík.“

Tillögu um friðlýsingu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs

Samkvæmt fundargerðum á vef Reykjavíkurborgar var málið rætt síðast þann 11. desember 2024 á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur (sjá lið 24).

Var þar lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna um friðlýsingu Laugarnestanga um að: Borgarstjórn samþykkir að hefja undirbúning friðlýsingar Laugarnestanga sem fólkvangs. Greinargerð fylgdi tillögunni. 

Samþykkt var að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða.

Þar áður var mál Laugarnes rætt á fundi borgarstjórnar þann 19. nóvember, þar sem tillögunni var vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins (sjá lið 5).

„Er það þetta, eða eitthvað álíka, sem við viljum í Laugarnesi?“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ljósleiðari rofnað í tvígang í Húnavatnssýslum á skömmum tíma – Þungar áhyggjur

Ljósleiðari rofnað í tvígang í Húnavatnssýslum á skömmum tíma – Þungar áhyggjur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kynferðisbrotamaður sleppur með skilorð eftir að móðir og stjúpfaðir brotaþola létu hendur skipta

Kynferðisbrotamaður sleppur með skilorð eftir að móðir og stjúpfaðir brotaþola létu hendur skipta
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir að Inga Sæland þurfi að passa sig: „Derringur er sjaldnast af hinu góða“

Segir að Inga Sæland þurfi að passa sig: „Derringur er sjaldnast af hinu góða“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ætla ekki að gera úrbætur á hættulegu hringtorgi þar sem keyrt var á átta ára dreng

Ætla ekki að gera úrbætur á hættulegu hringtorgi þar sem keyrt var á átta ára dreng