„Græna gímaldið“ gríðarstórt vöruhús sem risið hefur við Álfabakka 2a í suður-Mjódd í Breiðholti er á allra vitorði þessa dagana. Svo virðist sem byggingin hafi risið á einni nóttu borgarfulltrúum til mikillar furðu og íbúum í næsta húsi til mikils ama.
Borgarstjórn samþykkti á fundi sínum í gær tillögur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins um stjórnsýsluúttekt og í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að innri endurskoðun borgarinnar verði falið að gera ítarlega stjórnsýsluúttekt á skipulagsferlinu. Jafnframt verði hafin vinna við að endurskoða feril skipulagsmála innan borgarinnar.
Í úttektinni verði meðal annars tekið tillit til:
Jafnframt er lagt til að innri endurskoðun fylgi úttektinni eftir með virku eftirliti, sem byggir á niðurstöðum hennar, til að stuðla að nauðsynlegum umbótum og auknu trausti á skipulagsferlum borgarinnar. Mikilvægt er að öllum steinum verði velt við til að greina veikleika í stjórnsýslunni og tryggja að slík mistök endurtaki sig ekki í framtíðinni.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir mikilvægt að læra af þeim mistökum sem gerð hafa verið. „Það er líka brýnt að horfa til framtíðar og koma í veg fyrir að svona geti gerst aftur. Þess vegna viljum við skoða málið ofan í kjölinn, greina hvar má gera betur í stjórnsýslunni og endurskoða feril skipulagsmála hjá borginni til að tryggja frekari gæði.“
Þrátt fyrir augljóst klúður við bygginguna og skipulagsferlið þá verða framkvæmdir ekki stöðvaðar meðan verið er að skoða lausnir. Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi Flokks fólksins segir þá ákvörðun galna. „Ábyrgðin er alfarið borgarinnar, það mun aldrei neinn axla þessa ábyrgð og eiga að gera það nema borgin, meirihlutinn og skipulagsyfirvöld. Peningar fólksins í borginni, skattgreiðendur eru að fara að borga þennan skaða og við ætlum að hafa hann eins stóran og hægt er. Í stað þess að skipulagsyfirvöld hafi löngu fyrir jól verið komnir í samband við þá sem eru að framkvæma þetta, eigendur, hönnuði, þá sem eru með allt þetta vald og grátbiðja þetta fólk að hinkra aðeins núna. Það er verið að endurskoða málið. við verðum að finna leið því íbúar geta ekki búið við þessar aðstæður.“
Kristján Hálfdánarson, íbúi við Árskóga 7, sem er næsta hús við vöruhúsið, hefur hafið undirskriftasöfnun á Ísland.is. Um 2100 hafa skrifað undir þegar þetta er skrifað.
Þuríður Sigurðardóttir, söngkona og myndlistarkona, segir að mögulega sé of seint í rassinn gripið að leiðrétta skipulagsmistökin við Álfabakka. Borgarbúar og borgarfulltrúar geti þó vaknað og með samstilltu átaki komið í veg fyrir önnur mistök, framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru í Laugarnesi.
„Ef byggingar rísa á landfylllingunni í Laugarnesi, sem mokað var niður í skjóli nætur, án grenndarkynningar, á bráðabirgðarleyfum og ófullkomnu umhverfismati, mun útsýni frá einu óspilltu fjörunni á norðurströnd Reykjavíkur hverfa á bak við þann „vegg“. Með friðlýsingu Laugarness verður vonandi hægt að koma í veg fyrir það.
Ég hvet áhugasama til að kynna sér málið, það varðar okkur öll og komandi kynslóðir, sem vilja njóta útsýnis, náttúrunnar og sögunnar – án truflana frá mannvirkjum,“
segir Þuríður í færslu sinni þar sem hún birtir myndir máli sínu til stuðnings.
Bendir hún þeim sem vilja gera sitt til að vernda Laugarnesið að byrja á að setja nafn sitt á undirskriftarlista „og þrýsta á að Laugarnesið verði friðlýst og endilega deilið eins og vindurinn….betur má ef duga skal.“
Undirskriftalistinn sem Þuríður er ábyrgðarmaður fyrir ber yfirskriftina: Friðlýsing búsetu- og menningarlandslags Laugarness
Þar segir: „Við undirrituð skorum á ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála að friðlýsa Laugarnes sem búsetu- og menningarlandslag. Vísað er í lög um menningarminjar nr. 80/2012. Kirkjugarður, bæjarhóll og beðaslettur eru þegar friðlýst. Við óskum þess að Laugarnesið allt verði friðlýst til að vernda söguna sem lesa má í manngerðu umhverfi svæðisins og tengsl við liðna tíma. Í verndaráætlun sem samþykkt var af Minjastofnun Íslands og borgarstjóra Reykjavíkur 2016 segir: „Náttúrufarið á Laugarnesi gerir svæðið einstakt í Reykjavík þar sem hægt er að horfa yfir nesið og út í Viðey án truflunar frá mannvirkjum nútímans. Mikilvægt er að halda í þetta merkilega menningarlandslag, samspil náttúru og minja, sem er hvergi að finna annars staðar í Reykjavík.““
Samkvæmt fundargerðum á vef Reykjavíkurborgar var málið rætt síðast þann 11. desember 2024 á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur (sjá lið 24).
Var þar lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Vinstri grænna um friðlýsingu Laugarnestanga um að: Borgarstjórn samþykkir að hefja undirbúning friðlýsingar Laugarnestanga sem fólkvangs. Greinargerð fylgdi tillögunni.
Samþykkt var að vísa tillögunni til meðferðar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða.
Þar áður var mál Laugarnes rætt á fundi borgarstjórnar þann 19. nóvember, þar sem tillögunni var vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna sitja hjá við afgreiðslu málsins (sjá lið 5).