Félag íslenskra bókaútgefenda, Fíbút, hefur birt metsölulista síðasta árs. Vísir greinir frá. Ferðalok Arnaldar Indriðasonar er í fyrsta sæti, „Ég læt sem ég sofi“ eftir Yrsu Sigurðardóttur er í öðru sæti og Stefán Máni er í þriðja sæti með bókina „Dauðinn einn var vitni“.
Þórarinn Eldjárn, einn fremsti rithöfundur þjóðarinnar, vekur athygli á því að sala í verslunum Pennans/Eymundssonar er ekki með í þessari talningu. Telur Þórarinn þetta gera listann ómarktækan. Þórarinn ritar á Facebook:
„Félag bókaútgefenda var að gefa út meintan metsölulista bóka fyrir árið 2024. Vert er að vekja athygli bókaunnenda á því furðuverki að þar er aldrei talin með sala í verslunum Pennans/Eymundssonar, 16 alls, starfræktum allt árið víða um land.“
Bryndís Loftsdóttir, framkvæmdastjóri Fíbút, svarar Þórarni:
„Pennanum hefur alltaf boðist þátttaka en hafa kosið að vera með sinn lista og hafnað þátttöku í heildarlista. Má ekki allt eins líta það jákvæðum augum?“
Þórarinn Eldjárn spyr þá Bryndísi hvort Fíbút þyki jákvætt að vera með ómarktækan lista.
Þess má geta að Penninn/Eymundsson hefur líka birt sinn metsölulista ársins 2024. Þar er sama bók og á Fíbút-listanum í efsta sæti, Ferðalok eftir Arnald Indriðason, en í öðru sæti er Guðrún Eva Mínervudóttir með skáldsögu sína, „Í skugga trjánna“, og Yrsa er í þriðja sæti með „Ég læt sem ég sofi“.